Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Örsögur

Köningsegg

Köningsegg — Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson
Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

Ég gekk að vaskinum til þess að þvo mér um hendurnar. Ég brosti kurteisilega til spegilmyndar mannsins sem stóð við næsta vask.

„Eruð þið í bílaiðnaðinum?“ spurði maðurinn.

„Nei,“ svaraði ég hikandi því ég vissi ekki nákvæmlega hvað hann átti við með „þið“. Ég þekkti ekki alla sem voru við borðið okkar í klúbbnum en ég var nokkuð viss um að enginn þeirra var í bílaiðnaðinum.

„Hann lítur nefnilega alveg eins út og Köningsegg — þessi sköllótti,“ sagði maðurinn. „Og þú ert ansi líkur yfirverkfræðingi hans.“

„Því miður,“ sagði ég og þurrkaði hendurnar. „Þú ferð mannavillt.“

Við gengum saman til baka inn í borðsalinn og ég hugsaði með mér að það hafði verið ágætis tilbreyting að vera ruglað saman við einhvern annan en Jürgen Klopp.

Börkur er áhugasamur sögumaður með næmt auga fyrir sérstökum sögupersónum, fyndnum samtölum og lifandi umhverfislýsingum. Skrif Barkar flokkast að mestu leyti undir raunsæisstefnu og sögurnar hans eru oftar en ekki byggðar á sönnum atvikum í lífi höfundarins. Þó sögurnar innihaldi fjölmörg sannleikskorn þá eru þau rækilega blönduð skáldskap sem vekur upp forvitni lesandans um það hvar mörkin liggi milli raunveruleika og skáldskapar.

https://www.borkur.net/