Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Ég geng þungum skrefum eftir götum Gràcia hverfisins. Hvers vegna í ósköpunum er ekki hægt að fá Swiss Miss — eða eitthvað sambærilegt — í þessari borg? Ég er búinn að ganga búð úr búð í leit að mjólkurduftsblönduðu kakómalti sem hægt væri leysa upp í heitu vatni. Leit mín hefur engan árangur borið. Það virðist sem allt kakómalt hér í Barcelona sé til þess gert að leysast upp í mjólk. Ég vil ekki setja mjólk á hitabrúsann minn. Ég vil bara setja heitt vatn á brúsann. Ég vil fá heitt kakó í fjallgöngu morgundagsins. Það lítur út fyrir það að ég muni ekki fá það sem ég vil.

Ef ég hefði bara ekki lofað sjálfum mér að hætta að drekka kaffi. Þá væri málið allt miklu einfaldara. Ég gæti keypt mér kaffiduft. Ég gæti keypt mér cappuccino duft. Ég gæti jafnvel keypt mér kaffiblandað kakó með mjólkurdufti sem hægt er að leysa upp í heitu vatni. Allt er nú til. Allt nema blanda af kakói og mjólkurdufti. Allt nema Swiss Miss. Allt nema það sem ég vil fá mér að drekka á göngu morgundagsins.

Hvað er nú þetta? Ég kem auga á lítinn hlut sem liggur á gangstéttinni. Ég beygi mig niður til þess að skoða hlutinn nánar. Þetta er lítið leikfang. Lítill leikfangakarl. Annað hvort vélmenni eða ofurhetja. Það er ekki gott að segja. Ég sé það ekki svo vel í myrkrinu.

Ég velti því fyrir mér hvað ég eigi að gera. Mér finnst eins og ég verði að gera eitthvað. Einhverra hluta vegna dettur mér ekki í hug að halda bara áfram göngu minni um hverfið. Halda bara áfram leit minni að mjólkurduftsblönduðu kakómalti. Einhverra hluta vegna finnst mér ég þurfa að gera eitthvað varðandi þetta leikfang. Mér finnst ég geti ekki bara gengið framhjá því eins og ég hafi ekki séð það.

Ég finn til með eiganda leikfangsins. Ég sé fyrir mér lítinn dregng sem leiðir afa sinn upp götuna. Í frjálsu höndinni heldur hann á leikfanginu. Uppáhalds vélmenninu sínu. Uppáhalds ofurhetjunni sinni. Hvort sem það nú er. Augnabliki síðar áttar drengurinn sig á því að leikfangið er horfið. Hann hefur misst það. Hann fer að gráta. Afinn spyr hvar hann missti leikfangið. Drengurinn veit það ekki. Afinn segir að þeir skulu leita að leikfanginu á morgun þegar birtir. Núna verði þeir að drífa sig heim til ömmu. Maturninn sé að verða tilbúinn.

Mér finnst ég verði að gera eitthvað fyrir drenginn. Hjálpa honum að finna leikfangið sitt. Ég veit ekki hvað hefur komið yfir mig. Ég veit ekki hvers vegna mér finnst ég þurfa að gera eitthvað. Ef til vill er það vegna þess að ég er sjálfur búinn að vera að leita. Leita án þess að finna. Við erum í sömu sporum. Ég og drengurinn. Og þó. Ég hef engu týnt en fundið leikfang. Hann hefur týnt leikfangi en ekkert fundið. Við erum samt báðir að leita.

Hvað get ég gert? Ég játa fyrir sjálfum mér að það þýðir ekkert fyrir mig að spá í þetta leikfang. Það er ekkert sem ég get gert fyrir eiganda þess. Ég skil ekki hvernig ég gat látið eitt lítið leikfang á gangstéttinni kalla fram svona sterkar tilfinningar. Ég held áfram göngu minni í leit að mjólkurduftsblönduðu kakómalti.

Ég hef ekki gengið lengi þegar ég kem auga á tvær manneskjur sem vekja athygli mína. Móður og dóttur. Dóttirin bendir í áttina til mín. Móðirin lítur ráðavillt í kringum sig.

,,Eruð þið að leita að leikfangi?'' spyr ég þegar ég hef gengið til mæðgnanna. ,,Litlu leikfangi? Vélmenni eða ofurhetju?''

Móðirin svarar játandi. Það lifnar yfir mér. Getur verið að eftir allt geti ég hjálpað eiganda leikfangsins?

,,Það liggur á gangstéttinni eilítið neðar í götunni,'' segi ég og bý mig til þess að skokka til baka og ná í leikfangið.

,,Rólegur,'' segir móðirin. ,,Við getum nú náð í leikfangið sjálfar. Er það langt í burtu?''

,,Nei alls ekki,'' svara ég og velti því fyrir mér hvers vegna mér fannst það svona sjálfsagt að ég færi sjálfur að ná í leikfangið. ,,Það liggur rétt fyrir neðan næstu gatnamót.''

Móðirin þakkar fyrir leiðbeiningarnar og þær mæðgur halda af stað niður götuna til móts við leikfangið. Ég held áfram göngu minni í gagnstæða átt. Ég ákveð að gefa upp á bátinn leitina að mjólkurduftsblönduðu kakómalti. Mér líður vel yfir fundvísi dagsins þó ég hafi ekki fundið það sem ég leita. Fundur leikfangsins vegur upp á móti því að hafa ekki fundið kakómaltið.

Ég hef ekki gengið nema nokkur skref þegar ég kem auga á litla búðarholu sem selur lífrænar vörur. Þeirri hugmynd skýtur niður kolli mér að það fáist ef til vill mjólkurduftsblandað kakómalt í þessari búð. Það er aldrei að vita. Það sakar ekki að athuga. Ég geng því inn.

,,Eruð þið með kakóduft sem hægt er að leysa upp í vatni?'' spyr ég afgreiðslumanninn.

,,Já, það held ég nú,'' segir afgreiðslumaðurinn og gengur með mér innar í verslunina.

,,Hérna,'' segir hann og réttir mér lítinn pakka. ,,Hérna er kakó.''

Ég les á pakkann og verð fyrir vonbrigðum. Þetta er hreint kakó. Ekki vottur af mjólkurdufti.

,,Ég er að leita að kakómalti sem hægt er að leysa upp í vatni,'' segi ég og legg pakkann frá mér á hilluna. ,,Ekki kakómalti til þess að leysa upp í mjólk.''

,,Þú getur leyst þetta kakó upp í vatni,'' segir afgreiðslumaðurinn og lítur á mig eins og hann hafi ekki skilið röksemdafærslu mína. ,,Eða mjólk. Þú ræður. Hvort sem þú villt.''

Ég brosi. Mér líkar svarið. Afreiðslumaðurinn hefur rétt fyrir sér. Auðvitað er hægt að leysa kakóið upp í vatni. Það væri þó ekki drykkurinn sem ég hafði í huga. Hugsanlega þó skárri en enginn. Skárra en að halda í fjallgöngu í desember án þess að hafa eitthvað heitt að drekka. Ég ákveð því að kaupa kakóið. Sjá til hvernig það smakkast ef ég blanda við það sykri og leysi upp í heitu vatni þegar ég er kominn á toppinn á fjalli morgundagsins.

Ég er rétt búinn að leggja klinkið á búðarborðið og borga fyrir kakóið þegar ég heyri að nýir viðskiptavinir koma inn í búðina.

,,Við vorum þá á leiðinni á sama stað,'' heyri ég sagt að baki mér.

Ég lít í átt til dyranna. Mæðgurnar eru komnar inn í búðina. Mæðgurnar sem ég hafði talað við skömmu áður.

,,Funduð þið leikfangið?'' spyr ég.

,,Já. Takk fyrir hjálpina.'' svarar móðirin og gengur inn í búðina til þess að heilsa upp á afgreiðslumanninn.

,,Það var ekkert,'' segi ég og býst til að halda mína leið.

Ég kveð mæðgurnar og afgreiðslumanninn um leið og ég yfirgef búðina. Ég er léttur í spori þegar ég geng heim á leið. Ég er ánægður með dagsverkið. Ég hef kannski ekki fundið það sem ég leitaði að. Ég hef hins vegar fundið ýmislegt annað. Annað sem er ekki síður áhugavert.