Ég settist við borð með góðu útsýni yfir stóra sjónvarpsskjáinn þar sem leikurinn yrði sýndur. Ég hafði marga valkosti varðandi sæti þar sem veitingastaðurinn var tómur. Ég leit á úrið. Klukkan var ekki nema átta og ég þyrfti að bíða í fjörutíu og fimm mínútur eftir því að leikurinn hæfist.
Ég teygði mig í matseðil og fletti í gegnum hann. Ég var þegar búinn að ákveða hvað ég vildi fá mér—það sama og venjulega. Ég var bara að drepa tímann með því að skoða hvað staðurinn hefði upp á að bjóða. Ég hefði betur tekið með mér útprentun af greininni sem ég var að vinna í þessa dagana. Ég hefði getað notað biðtímann til þess að lesa yfir hluta hennar. Það hefði komið sér vel—skilafresturinn nálgaðist óðfluga og það var ekki mikill tími til stefnu.
„Shawarma og bjór, takk,“ tilkynnti ég þjóninum sem kom yfir að borðinu til þess að skrifa pöntunina mína niður, um leið og ég lagði frá mér matseðilinn.
* * *
Kaldur andvari leið um veitingastaðinn þegar útidyrnar opnuðust út í óvenju kalt febrúarkvöldið. Ég leit upp og horfði á kvenmanninn sem gekk inn. Hún var klædd í síða, svarta kápu. Bláar gallabuxur, með trosnuðum faldi, gægðust undan kápunni og náðu niður að brúnum gönguskóm. Hún var með fjólubláa húfu á höfðinu, brúnan trefil vafinn um hálsinn og fjólubláir vettlingarnir voru í stíl við húfuna. Hún var greinilega að koma frá þvottahúsinu, því hún hélt á stærðarinnar plastpoka í hvorri hönd og báðir virtust troðnir af fötum.
Konan lagði pokana frá sér, tók af sér vettlingana og setti þá í kápuvasana. Hún leit yfir veitingasalinn á meðan hún hneppti frá sér kápunni og losaði um trefilinn, svo að þykk brún peysa kom í ljós undan yfirhöfninni. Konan tók af sér húfuna og losaði sítt, svart hárið undan kápukraganum. Hún mætti augnaráði mínu, brosti, tók upp pokana og gekk yfir að borðinu.
„Er þetta sæti laust?“ spurði hún á ensku, með norður-amerískum hreim, og benti á stólinn andspænis mínum.
„Já,“ svaraði ég hikandi og velti því fyrir mér hvers vegna konan kysi að sitja við borðið mitt þegar það var úr nóg af öðrum auðum sætum að velja.
„Gott mál,“ sagði hún brosandi. „Ég vil ekki spreða í heilt borð fyrir mig eina.“
„Það hljómar skynsamlega,“ svaraði ég, þótt ég væri ekki fullkomlega sannfærður um röksemdafærsluna. „Það er við hæfi að nýta plássið vel, sérstaklega þegar meistaradeildarleikur er í vændum.“
Þjónninn kom að borðinu með bjórinn minn og konan bað um flösku af vatni.
„Svo þú ert hérna til þess að hofa á leikinn?“ spurði hún þegar þjónninn hafði tekið við pöntuninni.
„Já,“ svaraði ég og leit ósjálfrátt á úrið mitt.
„Ert frekar snemma í því, er það ekki?“
„Jú,“ svaraði ég og brosti vandræðalega. „Ég geri alltaf sömu mistökin. Hef áhyggjur af því að finna ekki nægilega gott sæti, flýti mér á veitingastaðinn og mæti alltof snemma.“
„Svo þú ert dyggur fótboltaaðdáandi?“
„Tæplega. Ég horfi nú ekki mikið á boltann. Bara stóru leikina. Á móti Madríd, og svo Meistaradeildina. En þú? Eldheitur Barça-stuðningsmaður?“
„Get ekki sagt það. Er mest fyrir stemminguna. Fíla blóðheitt andrúmsloftið þegar hópur fólks kemur saman til að horfa á spennandi fótboltaleik. Þessa dagana hafa heitir staðir mikið aðdráttarafl fyrir mig.“
Þjónninn kom aftur að borðinu með vatnsflöskuna hennar og shawarma-réttinn minn.
„Skál!“ sagði konan eftir að hún hafði hellt vatni í glas. „Hvað heitirðu?“
„Skál!“ svaraði ég og lyfti bjórglasinu. „Borgar.“
„Ha?“
„Borgar. B-O-R-G-A-R.“
„Burger?“
„Nokkurn veginn. Þú getur kallaði mig Bob.“
„Gaman að hitta þig… Bob. Ég er Alice. Hvaðan ertu?“
„Frá Íslandi.“
„Æði! Ég elska Ísland. Þannig séð. Mig langar tvímælalaust að fara þangað einhvern tímann. Vinkona mín fór þangað fyrir nokkrum árum og sýndi mér milljón myndir þegar hún kom til baka. Landslagið er klikkað. Svo eyðilegt. Samt svo fallegt. Það er svona eins og á fjarlægri plánetu. Einhvern tímann heyrði ég að NASA undirbyggi fólk fyrir Mars-leiðangra sína á Íslandi. Er það satt?“
„Já, það er satt,“ svaraði ég, án þess að vita nákvæmlega hvort staðhæfingin væri sönn, hún gaf mér hins vegar færi á að segja uppáhaldsbrandarann minn. „Mér skilst að forsendan sé sú að ef þeim tekst að finna gáfuð lífsform á Íslandi, þá gætu þau ályktað sem svo að það sama væri uppi á teningnum á Mars.“
„Einmitt!“ sagði konan og brosti. Brandarinn hafði líklega lukkast, að einhverju leyti. „Hvað sem gáfuðum lífsformum líður, þá finnst mér landið hljóma eins og æðislegur og einstakur staður.“
„Jú, svo sem. Það er frábær staður fyrir ferðamenn. Allt öðruvísi en það sem fyrirfinnst hér í Evrópu.“
„En Ísland er í Evrópu, er það ekki?“
„Já og nei. Landfræðilega er það mitt á milli Evrópu og Norður-Ameríku, þar sem það liggur á Atlantshafshryggnum. Hvað viðkemur erfðafræði erum við mestmegnis Norðmenn, með smá blöndu af keltnesku erfðaefni. Í sögulegu samhengi tengjumst við Evrópu í gegnum skandinavísku konungsveldin. Menningarlega erum við blanda af Evrópu og Norður-Ameríku. Það eru mikil áhrif frá Bandaríkjunum í lífsstílnum.“
„Nú? Hvers vegna?“
„Ég veit ekki. Ef til vill vegna þess að þegar Evrópa upplifði sína gullöld, þá voru Íslendingar ekkert nema fátækir bændur í hrörlegum torfkofum. Gullöld okkar hófst eiginlega ekki fyrr en með Marshall-aðstoðinni eftir seinni heimsstyrjöldina. Við risum úr fátækt til ríkidæmis undir verndarvæng Bandaríkjanna. Ísland var vel staðsett í kalda stríðinu. Bandaríkin voru með herstöð þar og dældu peningum inn í hagkerfið. Ég geri ráð fyrir að þess vegna séu mikil menningaráhrif þaðan.“
„Ég er ekki frá því að þetta sé í fyrsta sinn sem ég heyri Evrópubúa tala um Bandaríkin og menningu í sömu setningunni. Eða hvað kallarðu þig annars? Evrópubúa eða Ameríkana?“
„Hvorugt, eiginlega. Ætli ég telji mig ekki fyrst og fremst Íslending. Eða öllu heldur, þá tel ég mig bara vera ég sjálfur.“
„Ég skil. Hvað varð til að þú settist að í Barselóna? Varstu að flýja norður-amerískan lífsstíl? Reyna að finna evrópskar rætur?“
„Nei, ekki beint. Ég kom hingað vegna vinnu. Ég vinn fyrir norður-amerískt alþjóðafyrirtæki sem er með evrópsku rannsóknarskrifstofu sína hér í borg. Ég er hagfræðingur. Fæst mestmegnis við leikjafræði.“
„Leikjafræði? Eins og fótbolta?“
„Nei, ekki alveg. Ég lít á leikjafræði sem grundvöll þess að rannsaka ákvarðanatöku. Hún er notuð til þess að búa til líkön af ágreiningi og samvinnu milli skynsamra gerenda. Eins og þeir væru að spila spil. En þú? Hvað varð til þess að þú ferðaðist yfir Atlantshafið? Af hreimnum að dæma geri ég ráð fyrir að þú sért Ameríkani.“
„Já og nei. Ég gæti í sjálfu sér kallað mig Ameríkana. Ég er upprunalega frá Kanada en ævintýraþráin tældi mig snemma að heiman og flutti mig út um allan heim. Í samanburði við þína leikjafræði er líf mitt eins konar barnaleikur. Engin gráða. Heldur alþýðleg störf. Barir, veitingastaðir og svoleiðis.“
„Að hafa ferðast út um allan heim hljómar ekki svo slæmt, hvar þá?“
„Hér og þar. Ég hef búið í Bandaríkjunum, Argentínu, Ástralíu, London, París, Prag, Mónakó og núna í Barselóna.“
„Þetta er svo sannarlega áhugaverður listi! Og vinnur þú núna á bar eða veitingastað í Barselóna?“
„Nei, ekki eins og er. Ég er á milli starfa, eins og sagt er. Það er að segja, ég er atvinnulaus.“
„Og hvernig metur þú möguleika Barça í kvöld?“ spurði íþróttafréttamaðurinn gest kvöldsins þegar þjónninn hækkaði í sjónvarpstækinu, um leið og upphitunin fyrir leikinn byrjaði. „Þeir hafa ekki verið að spila sinn besta leik upp á síðkastið.“
Við létum hávaðann í sjónvarpinu trufla samræður okkar og fylgdumst þess í stað með útsendingunni. Smám saman hafði fólk byrjað að streyma inn á veitingastaðinn til þess að horfa á leikinn. Alice fékk blóðheita andrúmsloftið sem hún sóttist eftir.
Á meðan á leiknum stóð, og í hálfleik, töluðum við um leikinn og fótbolta almennt. Ég pantaði mér nokkra bjóra til viðbótar en Alice hélt sér við vatnið.
* * *
Dómarinn blés leikinn af og mannfjöldinn klappaði. Barça hafði unnið og var í góðri stöðu til þess að komast áfram í næstu umferð keppninnar. Þjónninn setti reikninginn á borðið og ég tók fram kortið til þess að borga. Alice nældi í nokkra smápeninga í vasann og byrjaði að telja.
„Leyfðu mér,“ sagði ég. „Þetta voru bara tvær vatnsflöskur. Ég tek þetta.“
Við klæddum okkur hvort í sína kápu og frakka, á meðan þjónninn fór og náði í greiðsluvélina til að taka við kortinu mínu.
„Býrðu hér í nágrenninu?“ spurði ég. „Við gætum gengið saman ef við erum að fara í sömu átt.“
Ég hafði notið samverunnar með Alice á meðan á leiknum stóð og vildi framlengja hana um nokkrar mínútur, þótt ég hefði ekki mikinn tíma aflögu þessa dagana vegna greinarinnar. Það væri gaman að ganga saman, skiptast á símanúmerum og hittast einhvern tímann aftur þegar betur stæði á.
„Nei, ég get ekki sagt að ég búi í nágrenninu,“ svaraði Alice og leit út um gluggann. „Síðustu nótt svaf ég í anddyri bankans hinum megin götunnar. Þessa stundina er ég heimilislaus.“
Ég leit á Alice. Ég leit á pokana hennar. Ef til vill hafði hún ekki verið á leiðinni frá þvottahúsinu eftir allt saman. Ég leit út um gluggann og yfir að bankanum hinum megin götunnar.
„Viltu gjöra svo vel að slá inn pinnið, takk?“ spurði þjónninn þegar hann hafði snúið til baka með greiðsluvélina.
Ég sló inn kóðann og beið eftir kvittuninni áður en ég sneri athyglinni aftur að Alice.
„Get ég beðið þig um greiða?“ spurði Alice á meðan ég gekk frá kortinu mínu í veskið.
„Já, ætli það ekki,“ sagði ég, ennþá talsvert sleginn yfir því sem ég hafði heyrt.
„Má ég gista á sófanum þínum í nótt?“
Gista á sófanum mínum í nótt? Ég hikaði. Fyrir nokkrum augnablikum var hún áhugaverð kona sem ég vildi gjarnan kynnast betur. Fyrir nokkrum augnablikum hefði ég ekki hugsað mig tvisvar um áður en ég byði henni heim. Núna, þá var eitthvað sem hélt aftur af mér. Mér leið vandræðalega yfir því að bjóða ókunnugum heimilisleysingja að gista í stofunni.
„Bara í eina nótt,“ bað Alice. „Mig langar bara að eyða einni nótt fjarri kuldanum. Mig langar að sofa á öruggum stað. Burt frá hættum götunnar.“
Ég fann svita spretta fram í lófana og kinnarnar brenna, þar sem blóð tók að streyma í auknum mæli upp til höfuðsins. Ég var einstaklega ólaginn við að taka skyndiákvarðanir. Ég örvænti alltaf. En nú þurfti ég að róa mig. Ég þurfti að hugsa skýrt. Rökræða. Ég þurfti að setja ástandið í samhengi sem ég þekkti vel. Ég þurfti að líta á það frá leikjafræðilegu sjónarhorni. Ég gæti sett þetta upp sem tveggja manna spil, þar sem ég átti næsta leik. Ég gæti annaðhvort svarað henni játandi eða neitandi. Þá væri komið að henni að sýna á spilin. Þar voru tvær útkomur mögulegar. Hún gæti verið heiðarleg eða óheiðarleg. Þess vegna, þegar allt kom til alls, voru fjórar niðurstöður mögulegar. Ef ég segði já og hún væri óheiðarleg, þá myndi ég tapa. Ef ég segði nei og hún væri heiðarleg, þá myndi hún tapa. Ef ég segði já og hún væri heiðarleg, myndum við bæði vinna. Ef ég segði nei og hún væri óheiðarleg, þá myndi ég vinna. Ég átti leikinn. Í leikjafræðilegum skilningi var nokkuð ljóst hvað ég ætti að velja. Ég var ekki áhættusækinn einstaklingur, og til þess að tryggja að ég tapaði ekki, þá var hyggilegast fyrir mig að segja nei.
„Jú, ætli það ekki,“ svaraði ég og kom sjálfum mér á óvart. Hyggjuvitið hafði yfirhöndina gagnvart rökhugsuninni. Ég hagaði mér ekki eins og skynsömu gerendurnir sem ég skrifaði um í vísindagreinunum mínum.
„Takk!“ hrópaði Alice og faðmaði mig. „Ég met það mjög mikils.“
Hún tók upp pokana sína og við héldum í átt að útidyrunum. Ég hélt dyrunum opnum og við yfirgáfum veitingastaðinn.
„Ég elska kvöldin í Barselóna,“ sagði Alice er við komum út á götu. „Og sérstaklega í Gràcia. Það er alltaf svo margt fólk á götum úti en samt er andrúmsloftið rólegt. Þetta er einhvers konar náttúrulegt flæði. Að einhverju leyti eins og íslenska landslagið—geri ég ráð fyrir—svo örvandi vegna þess hversu framandi það er en á sama tíma svo róandi vegna kyrrðarinnar.“
„Já,“ svaraði ég, án þess að veita því athygli sem hún var að segja. Hafði ég gert axarskaft með því að fylgja hyggjuvitinu í stað leikjafræðilegrar röksemdafærslu? Alice leit hins vegar út fyrir að vera góð stelpa, og ef ég liti á ástandið út frá líkindafræðilegu sjónarhorni var ekki ástæða til þess að hafa áhyggjur. Að öllum líkindum væri hún heiðarleg og ég þyrfti ekki að hræðast neitt.
„Er það þess vegna sem þér líkar við Gràcia-hverfið?“ spurði Alice þar sem við gengum eftir Carrer de Verdi. „Að þar sé eitthvað svo náttúrulegt flæði, eins og í landslaginu á Íslandi?“
„Ég geri ráð fyrir því,“ svaraði ég og hugsaði með mér hvort það væri heimskulegt að líta á ástandið frá líkindafræðilegu sjónarhorni. Gat ég raunverulega haldið því fram að hún væri að öllum líkindum heiðarleg? Ég ætti að taka eitthvað af líkindamassanum frá fyrir þann möguleika að hún væri óheiðarleg. Hvað gerðist þá?
* * *
„Þá erum við komin.“ Ég höndlaði lyklana klaufalega þegar ég opnaði dyrnar inn í íbúðina mína.
Við gengum inn og ég læsti hurðinni á eftir okkur með hengilás. Ég íhugaði að læsa einnig með lykli—til vonar og vara til þess að hindra Alice í að flýja með eigur mínar. Það myndi þó hugsanlega vera vandræðalegt. Hvernig gæti ég rökstutt þá aðgerð, ef hún myndi spyrja?
„Hér er svefnherbergið mitt, vinnuherbergið, baðið,“ útskýrði ég, þar sem ég leiddi Alice í átt að stofunni. „Og eldhúsið er innar á ganginum.“
„Þetta er virkilega snotur íbúð sem þú átt,“ sagði Alice þegar við gengum inn í stofuna. „Þú hlýtur að vera að þéna smá formúgu með þessum leikjum þínum.“
„Þetta verður rúmið þitt í nótt.“ Ég dró sófasætið fram og breytti sófanum í svefnsófa. „Ég ætla að ná í rúmföt.“
Ég fór inn í vinnuherbergið og náði í rúmföt í fataskápinn sem fyllti einn vegginn á móti þéttsetnum bókahillum. Ég dró andann djúpt. Alice leit út fyrir að vera saklaus kona. Það var örugglega engin ástæða fyrir mig að hafa áhyggjur af því að hún væri í íbúðinni.
„Góða nótt,“ sagði ég eftir að hafa undirbúið svefnsófann fyrir Alice.
„Ég vona að þú náir djúpum svefni,“ svaraði hún brosandi.
Ég svaraði með vandræðalegu brosi og hélt yfir í svefnherbergið mitt.
* * *
Ég opnaði augun og leit á vekjaraklukkuna. Hún sýndi eitt eftir miðnætti. Ég gat ekki sofið.
„Ég vona að þú náir djúpum svefni,“ hafði Alice sagt. „Þú hlýtur að vera að þéna smá formúgu með þessum leikjum þínum.“
Hvað átti hún við með því? Djúpur svefn? Var hún að vona að ég svæfi svo föstum svefni að hún myndi hafa gott tækifæri til að ræna mig á meðan ég hraut? Var hún með augun á fartölvunni? Myndavélinni? Hljómflutningstækjunum?
Ég andaði djúpt. Það var ekkert til þess að hafa áhyggjur af. Líkindafræðin var á mínu bandi. Að öllum líkindum var Alice heiðarleg. Hún var stödd hér sem gestur minn til þess að geta sofið á öruggum stað. Hún var ekki hérna til þess að skaða mig.
* * *
Ég opnaði augun og leit á vekjaraklukkuna. Hún sýndi tvö eftir miðnætti. Ég hélt niðri í mér andanum og hlustaði á hljóðin frá stofunni. Þaðan bárust djúp svefnhljóð. Eins og einhver væri í fastasvefni.
„Mig langar að sofa á öruggum stað. Burt frá hættum götunnar,“ hafði hún sagt þegar hún sannfærði mig um að leyfa henni að koma heim með mér og fá að gista yfir nóttina.
Hvernig gat hún talið sig örugga heima hjá ókunnugum? Hvernig vissi hún að henni stafaði ekki hætta af mér? Ég gæti verið brjálæðingur, ofbeldisseggur og nauðgari. Var hún örugg því hún hafði þriðja aðila á sínu bandi? Einhvern sem hún myndi hleypa inn um svarta nóttina á meðan ég væri í fastasvefni? Eða djúpum svefni, eins og hún orðaði það. Var hún að þykjast sofa? Var hún að bíða eftir því að ég sofnaði? Bíðandi þar til hún hefði íbúðina út af fyrir sig? Bíðandi eftir því að hún fengi sínu framgengt og gæti rænt mig? Ég hefði átt að læsa dyrunum með lykli.
* * *
Ég opnaði augun og leit á vekjaraklukkuna. Hún sýndi þrjú eftir miðnætti. Ég heyrði umgang á ganginum fyrir utan íbúðina. Ég heyrði hringl í málmi. Ég vafði mig upp í fósturstellingu og faðmaði aukakoddann minn. Hvað hafði ég gert? Hvað var að gerast? Ég var svo mikill fábjáni. Hvers vegna hleypti ég þessari konu inn á heimili mitt. Hvað gat ég gert?
Ég heyrði dyr nágrannans ljúkast upp. Hann var líklega að koma heim eftir langa kvöldvakt. Hættan var liðin hjá um sinn, en hjartað barðist áfram á ógnarhraða í brjósti mér. Hugurinn setti upp skyggnusýningu í höfði mér og renndi í gegnum sömu myndirnar aftur og aftur. Augnablikið þegar Alice gekk inn á veitingastaðinn. Hvernig hún valdi mig sem fórnarlamb sitt. Senuna þar sem við gengum saman um götur Gràcia-hverfis. Hvernig hún glotti sakleysislega þegar hún bauð mér góða nótt.
* * *
Ég opnaði augun og leit á vekjaraklukkuna. Hún sýndi fjögur eftir miðnætti. Ég heyrði einhvern ræskja sig við fótagaflinn. Það var Alice. Hún stóð þar með hendur fyrir aftan bak og horfði á mig.
„Vakandi?“ spurði Alice og glotti. „Átt þú erfitt með svefn því þú þorðir ekki að læsa með lykli? Hver heldurðu að ég sé? Einhver djöfulsins tík sem ætlar að skaða þig á meðan þú sefur?“
Ég blikkaði augunum en gat ekki komið upp orði. Höfuðið á mér var þungt, fastskorðað á milli svefns og vöku.
„Alice!“ hrópaði einhver inn af ganginum. „Komum okkur!“
Ég fann fyrir hnút í maganum. Mig langaði til að stökkva fram úr rúminu en gat ekki hreyft mig. Það var eins og hendurnar væru bundnar við búkinn og fæturnir hvor við annan.
„Uss,“ hvíslaði Alice og dró aðra höndina fram og lagði vísifingur á varir sínar. „Liggðu bara rólegur. Ég er að fara.“
Hún dró hina höndina fram og beindi skammbyssu að andlitinu á mér.
„Game over!“ hrópaði hún um leið og hún tók í gikkinn og allt varð svart fyrir augum mér.
* * *
Ég opnaði augun og leit á vekjaraklukkuna. Hún sýndi tíu að morgni. Ég yrði of seinn í vinnuna í dag—hafði sofið rækilega yfir mig. Ég fór fram úr rúminu og klæddi mig í íþróttabuxur og stuttermabol.
Hálfsofandi staulaðist ég fram á ganginn og inn á baðherbergið. Þar sem ég settist á klósettið rifjuðust atburðir gærkvöldsins upp fyrir mér. Leikurinn. Alice. Byssan. Var hún bara draumur? Var hún enn sofandi? Var hún raunveruleg? Hafði hún yfirgefið íbúðina? Hvað var draumur og hvað var raunveruleiki? Voru mínar eigur á sínum stað?
Ég leit í kringum mig á baðherberginu. Allt virtist eins og það átti að vera. Nei, bíddu. Hárblásarinn. Hann var horfinn. Alice hafði stolið hárblásaranum mínum.
Ég gekk aftur inn ganginn og leit varlega inn í stofuna. Svefnsófanum hafði verið breytt í sófa á ný. Rúmfötin voru vandlega brotin saman og hárblásarinn lá ofan á þeim. Alice var hvergi sjáanleg.
Ég heyrði skruðning utan úr eldhúsinu. Þvottavélin var að hefja sína síðustu og háværustu vindu. Ég gekk inn í eldhúsið og sá Alice standa við eldavélina, bakandi pönnukökur. Hún hafði skipt um föt frá því kvöldinu áður og var klædd í svartar gallabuxur og rauða peysu.
„Góðan daginn,“ sagði hún og brosti. „Það er naumast að þú sefur. Ég hélt þú ætlaðir aldrei að vakna.“
„Já, nei, góðan daginn,“ muldraði ég og nuddaði hægri eyrnasnepilinn með þumal og vísifingri. „Ég svaf frekar illa. Fékk undarlega martröð.“
„Það var leitt að heyra,“ sagði hún og setti upp skeifu. „Ég vona að þú hafir ekkert á móti því að ég lánaði sjálfri mér handklæði og fór í sturtu. Ég veitti mér einnig það bessaleyfi að setja í eina vél.“
„Nei, það er allt í fínasta lagi.“
„Jæja,“ sagi hún og neri höndunum saman. „Nóg af spjalli. Morgunmaturinn er tilbúinn. Gætir þú farið með þetta inn í stofu?“
Hún rétti mér disk með háum stafla af þykkum amerískum pönnukökum og tvo smærri diska með hnífapörum og servíettum.
“Lungo eða espressó?” spurði hún eins og þjálfaður þjónn. „Mjólk eða sykur?“
„Espressó, takk. Svartan,“ sagði ég og fór með pönnukökurnar inn í stofu. Í bakgrunninum heyrði ég suðið í Nespresso-vélinni minni sem þrýsti sjóðandi vatninu í gegnum kaffihylkið.
„Er þér sama þótt ég setji þurrkarann af stað á meðan við borðum morgunmat?“ spurði hún þegar ég kom aftur inn í eldhúsið og sá að hún var þá þegar að færa fötin sín úr þvottavélinni yfir í þurrkarann.
„Það er allt í lagi,“ sagði ég og geispaði. Ég var ekki fyllilega búinn að ná mér eftir slitróttan svefninn. „Er eitthvað fleira sem ég get sett á borðið?“
„Það held ég nú!“ sagði Alice og rétti mér bakka með kaffifanti, espressóbolla, hlynsýrópi, Nutella, tveimur sultukrukkum og smjöri.
* * *
Þegar við settumst við borðstofuborðið, hugsaði ég með mér að þvílíkur morgunverður hafði ekki verið borinn fram á þessu heimili í háa herrans tíð. Ég hafði gleymt að þessar kræsingar væri að finna í skápum mínum.
„Pönnukökurnar eru afar gómsætar,“ sagði ég eftir að hafa smakkað fyrsta bitann. Það var engin kurteisislygi og ég fann orkuna magnast smám saman upp í líkamanum.
„Það gleður mig að þér skuli líka þær.“
„Það er gott að fá sér almennilegan morgunmat öðru hvoru. Að öllu jöfnu læt ég mér nægja að fá mér tvo til þrjá kaffibolla fram að hádegi.“
Við sátum þögul um stund og nutum þess að gæða okkur á pönnukökunum og kaffinu.
„Hvernig kom það til að þú endaðir á götunni?“ spurði ég þegar tók að létta til í höfði mér eftir að hafa skellt í mig kaffinu.
„Síðasta heimili mitt gufaði upp um leið og starfið,“ svaraði Alice og beið um stund áður en hún hélt sögunni áfram. „Ég var aðstoðarkokkur á hamborgarabúllu í Sants. Bjó með aðalkokkinum. Sambandið fuðraði hins vegar upp í ljósum logum. En það var ekki að öllu leyti mér að kenna. Ég vissi ekki að það myndi kvikna í djúpsteikingarpottinum þegar ég kastaði flöskunni.“
„Hvaða flösku?“ spurði ég og var ekki viss hvort sagan væri ruglingsleg eða ég bara þreyttur.
„Viskíflaskan sem ég var að taka upp úr sendingu. Ég hafði rétt í því komist að því að Tony, sænski kokkurinn, aðalborgarasteikingarmaðurinn, eigandinn og gaurinn sem ég bjó með, hafði sofið hjá Stórbrjósta-Barbí, þjónustustúlkunni sem var greinilega jafn dugleg að bera fram stóru melónurnar sínar og safaríku hamborgarana. Það var í grundvallaratriðum þannig sem ég endaði á götunni. Ég henti flöskunni. Hamborgarabúlla Tony brann. Hann henti mér út.“
„Hvenær gerðist þetta?“
„Fyrir um það bil mánuði.“
„Hvað hafðirðu unnið lengi hjá Tony?“
„Hálft ár?“
„Og á undan því?“ spurði ég. „Ef þú afsakar yfirheyrsluna.“
„Það er allt í lagi,“ sagði Alice og brosti. „Ég skulda þér næturgreiðann… Þar á undan?… Ég vann á vegan, hráfæðistapasbar. Maturinn var—ótrúlegt en satt—mjög góður en það getur verið erfitt að selja tapas án hráskinku og ostabakka. Staðurinn fór á hausinn… án loga… að mörgu leyti.
„Þar á undan var ég rekin úr hótelmóttökustarfi, fyrir það að gefa einum gestinum móttöku sem var ekki á verðlistanum… ef þú skilur hvað ég á við. Það var nú samt allt löglegt en kannski ekki faglegt.“
„Ja, hérna hér. Óheppnin virðist elta þig.“
„Ég er ekki viss um að kerfisbundin ógæfa mín geti skrifast á óheppni. Ég held ég hafi þess heldur einstaka hæfileika til þess að klúðra hverju því sem ég tek mér fyrir hendur.“
* * *
Eftir morgunmatinn bárum við diskana aftur inn í eldhúsið og ég vaskaði upp á meðan Alice braut þvottinn sinn saman. Hann gat varla verið fullkomlega þurr eftir tiltölulega stutta veru í þurrkaranum.
„Jæja, þá er best að koma sér af stað,“ sagði hún og tók síðustu pjötluna úr þurrkaranum, braut hana saman og gekk frá henni í pokann. „Ég vil ekki tefja þig í allan dag. Þú þarft að fara í vinnuna.“
„Viltu gista aðra nótt?“ spurði ég og lagði frá mér gaffalinn sem ég hafði verið að þurrka. „Eða að minnsta kosti vera hérna í smá tíma til viðbótar til þess að leyfa þvottinum að þorna almennilega.“
„Það er einstaklega fallegt boð, takk fyrir,“ sagði hún, gekk upp að mér, setti höndina á upphandlegg minn og horfði í augu mér. „Ég hef sett mér þá meginreglu að sofa ekki á sama stað í meira en eina nótt í einu. Ég vil ekki koma mér upp vana. Ekki í því ástandi sem ég er. En takk fyrir gott boð. Ég virði það. Ef til vill seinna. Undir öðrum kringumstæðum. Þegar ég hef náð mér af götunni.“
„Takk fyrir allt,“ sagði hún, hallaði sér fram og kyssti mig á báðar kinnar. „Bless, bless.“
Ég fylgdi henni til dyra. Ég var eitthvað hrifnæmur þessa stundina og ég fékk tár í annað augað þar sem ég horfði á eftir henni ganga fram á stigapallinn með stóran plastpoka í hvorri hönd. Ég þurrkaði tárið í burtu, í þann mund sem hún sneri sér við og brosti til mín, áður en hún hélt af stað niður stigann.