Ég gekk inn í neðanjarðarlestina, fékk mér sæti og tók Nabokov upp úr bakpokanum. Áður en ég hóf lesturinn var mér litið yfir sætaröðina andspænis mér.
Ská á móti mér sat ung kona sem las Morgunmat meistara eftir Kurt Vonnegut. Fordómafullur, fannst mér þau ekki passa saman, konan og Kurt. Hún var glaðleg og full af lífsfjöri. Henni færi miklu betur að lesa Morgunmat hjá Tiffany.
Við hlið konunnar sat maður og las Frú Dalloway eftir Virginíu Woolf. Þetta var virðulegur maður í teinóttum jakkafötum — eins og klipptur út úr enskri yfirstéttarsögu. Ég brosti með sjálfum mér þar sem ég ímyndaði mér hann sem gest í veislunni hjá Frú Dalloway.
Ég hélt ferð minni áfram eftir sætaröðinni og augun staðnæmdust á konu með Kindle lesbretti. Brosið hvarf snögglega af vörum mínum. Ég kunni ekki við lesbretti. Það eyðilagði uppáhalds stundagamanið mitt að geta ekki séð hvað fólk var að lesa.