Lífsins alvara


Ljósmynd Börkur Sigurbjörnsson

Javier sat við gluggann og horfði yfir torgið. Hann horfði á eftir laufblaði sem þyrlaðist upp í vindhviðu sem hafði náð að stinga sér niður á milli bygginganna umhverfis torgið. Honum fannst eigin tilvera vera eins og laufblaði í vindi. Hann vissi ekki hvert hann stefndi. Hann vissi ekki hvaða skref hann ætti að taka í sambandi þeirra Lydiu. Stundum var eins og Lydia vissi ekki hvað hún vildi. Hún eyddi alltaf öllu tali um hjónaband eða barneignir. Hann vissi ekki hvert hún stefndi. Hann þráði betri rótfestu. Hvað sem það nú þýddi. Honum fannst tími til kominn að festa ráð sitt. Hugsa til framtíðar. Hann og Lydia höfðu verið saman í fimm ár. Þau stóðu á þrítugu. Það var kominn tími til þess að færa sambandið yfir á næsta stig. Það var kominn tími á brúðkaup. Það var kominn tími á barneignir. Það var kominn tími til að stofna sína eigin fjölskyldu. Það var hins vegar eitthvað sem hélt aftur af honum. Einhvers konar ótti við að skuldbinda sig. Sér í lagi þar sem hann vissi ekki hvaða hug Lydia bar til framtíðarinnar.

,,Blessaður!''

Javier hrökk í kút þegar Steve settist hjá honum við borðið. Þeir höfðu mælt sér mót á kaffihúsinu til þesss að vinna saman að verkefni sem tengdist fagi sem þeir voru að stúdera í háskólanum.

,,Hvað svakalega ertu eitthvað djúpt hugsi!''

Steve var hress að vanda — svo áhyggjulaus. Javier óskaði að hann gæti verið svona áhyggjulaus. Hann óskaði þess að han gæti verið meira eins og Steve. Hann þekkti Steve að vísu harla lítið. Þeir höfðu kynnst fyrir nokkrum vikum þegar þeir hófu að leggja stund á sama fag í háskólanum. Þeir höfðu unnið nokkur verkefni saman. Sambandið hafði því hingað til einungis verið á faglegum nótum.

,,Ég var bara að hugsa um lífið og framtíðina og svona. Og svona skuldbindingar og þannig,'' svaraði Javier hálf vandræðalega og kreisti fram bros til þess að mæta gáskafullu yfirbragði Steve.

,,Hljómar spennandi.'' svaraði Steve heldur ósannfærandi um leið og hann veifaði þjóninum og gaf honum til kynna með táknmáli að hann vildi fá einn bjór. ,,Framtíðin, segirðu? Já, hún er björt. Bjór á leiðinni og svoleiðis.''

Javier grunaði að það væri líklega vonlaust að ræða alvöru lífsins við Steve. Hún lá þó svo þungt á honum að hann ákvað að halda umræðunni áfram. Hann þurfti að létta þessu af sálinni.

,,Hugsar þú aldrei um það hvernig það er að takast á við langtíma skuldbindingar?'' spurði Javier og reyndi að hljóma ekki eins alvarlegur og hann í raun var.

,,Skondið að þú skulir minnast á þetta,'' svaraði Steve alvarlegur í bragði. ,,Ég var einmitt að spá í þetta sama um daginn.''

,,Nú?'' Steve kom Javier á óvart. Var kannski meira spunnið í hann? Bjó kannski alvara undir gáskafullu yfirborðinu.

,,Já, ég hef þurft að spá í þessi mál undanfarið.''

Steve gerði hlé á máli sínu á meðan hann saup á bjórnum sem þjónninn hafði sett á borðið fyrir framan hann. Javier beið spenntur eftir framhaldinu af hugleiðingum Steve.

,,Málið er,'' hélt Steve áfram eftir að hann hafði kynngt bjórsopanum, ,,að ég á í mesta basli við að venja mig á það að stórmarkaðir hér í Barcelona eru lokaðar á sunnudögum.''

Javier horfði á Steve taka annan sopa af bjórnum. Hann var ekki viss um á hvaða leið samtalið væri.

,,Málið er,'' sagði Steve loks eftir að hafa gert öðrum bjórsopa skil, ,,að ég get bara borðað það sem mig langar að borða. Og, ég meina, það getur breysta bara á klukkutíma.''

Javier sá að hann hafði misreiknað Steve um stund. Það var enginn alvara sem bjó undir gáskafullu yfirborðinu.

,,Málið er,'' hélt Steve áfram eftir að hafa komið þriðja bjórsopanum á sinn stað, ,,að mér finnst afar óþægilegt að þurfa að ákveða það á laugardags eftirmiðdegi hvað ég ætla að borða á sunnudags kvöldi. Ég á barasta afar erfitt með að skuldbinda mig á laugardegi varðandi það hvað ég ætla að borða á sunnudegi. Ég bara höndla ekki svona langtíma skuldbindingar.''

Javier brosti. Steve mátti eiga það að hann var nokkuð skondinn svo framarlega sem hann var ekki tekinn alvarlega.

,,Þú finnur sem sagt ekki lífsklukkuna tifa?'' spurði Javier ákveðinn í að reyna að komast að því hvort það reyndist einhver alvara í huga Steve.

,,Jú, hiklaust,'' svaraði Steve og kímdi. ,,Mín lífsklukka er bara kolröng.''

,,Nú?'' spurði Javier og bjóst við spaugilegu svari.

,,Já, hún var ekki hönnuð til þess að takast á við tvöþúsund vandann. Hún bara núllstilltist. Í stað þess að verða tvítugur árið tvöþúsund þá endufæddist ég. Andlega — það er að segja.''

,,Þú finnur þá ekki fyrir þörf fyrir að festa ráð þitt? Stofna fjölskyldu?'' spurði Javier en átti ekki von á alvarlegu svari.

,,Nei. Ekki næstu áratugina,'' svaraði Steve. ,,Og þó. Ég gæti hugsanlega stofnað fjölskyldu og hugsanlega rekið hana í einhvern tíma. Ég er hins vegar hræddur um að ég fengi fljótt leið á henni og myndi fá einhvern til þess að kaupa mig út.''

Javier hló. Steve var greinilega ekki rétti maðurinn til þess að ræða við um alvöru lífsins. Ekki á alvarlegu nótum að minnsta kosti. Javier ákvað þó að gera eina tilraun enn til að athuga hvort hann gæti fengið Steve til að slá feilnótu — fá hann yfir á alvarlegu nóturnar.

,,Er ekkert sem þú tekur alvarlega?'' spurði Javier.

,,Jú, reyndar,'' svaraði Steve. ,,Húmor. Fyrir mér eru húmor dauðans alvara.''

,,Er það ekki þversögn?'' spurði Javier og kreisti fram hlátur þó hann hefði ekki alveg skilið brandarann.

,,Alls ekki,'' svaraði Steve alvarlegur í bragði. ,,Við lifum á tímum þar sem fólk hlær hugsunarlaust að hvaða vitleysu sem er.''

Javier þagði og reyndi að melta það sem Steve sagði. Hann var ekki viss hvort Steve var að gantast. Hann velti því fyrir sér hvort hann ætti að hlæja — til vonar og vara. Steve virtist hins vegar vera alvara.

,,Fólk almennt tekur húmor ekki nógu alvarlega,'' hélt Steve áfram. ,,Það hlær að minnsta tilefni. Fólk virðist ekki geta greint á milli hágæða húmors og ódýrra brandara. Það hlær að hverju sem er.''

Það rann upp fyrir Javier að hann mundi varla eftir að hafa heyrt Steve hlæja. Hann brosti að vísu næstum stanslaust en hló nánast aldrei. Núna var brosið hins vegar horfið af vörum Steve. Javier fannst óþægilegt að sjá hann svona alvarlegan. Það fór honum ekki vel. Javier ákvað því að skipta um umræðuefni hið snarasta.

,,Jæja! Hvað með verkenfið sem við ætluðum að vinna að í dag?''