Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Ég hrökk við. Mér fannst ég hafa heyrt eitthvert undarlegt hljóð. Ég leit í kringum mig. Allt virtist eðlilegt. Glugginn lokaður, fatahrúga á gólfinu, óhreinir sokkar úti í horni, græn lítil geimvera við fótagaflinn, stóri eikarskápurinn opinn og veiðigræjurna stóðu út úr honum, námsbækurnar á skrifborðinu, græn lítil geimvera við fótagaflinn, golfsettið undir glugganum, græn lítil geimvera við fótagaflinn, græn lítil geimvera við fótagaflinn.

– Aaaarrrrg.

° Vertu alveg rólegur. Ég er bara græn lítil geimvera við fótagaflinn.

– Þ-þú t-talar Ís-íslensku.

° Ísíslenska? Hvað er nú það?

-Tungumálið sem þú talar.

° Nei ég tala Zubglúbsku.

– Zubglúbsku?

° Já, ég heiti Glúbzub og er frá landinu Zubglúb á plánetunni Zipzap sem gengur um stjörnuna Dapzap í vetrarbrautinni Geit.

– Geit?

° Já, finnst þér Geit vera undarlegt orð?

– Ha, já, nei nei.

° Allt í lagi, snúum okkur þá að erindi mínu hér. Ég er kominn til að nema þig á brott og flytja þig til Zubglúb til frekari rannsókna.

– Bíddu nú hægur. Ég má lítinn tíma missa. Ég þarf að fara í dönskupróf í fyrramálið.

° Hafðu ekki áhyggjur af tímanum ég skal skila þér til baka á nákvæmlega sama tíma og nam þig á brott.

– Geturðu það?

° Já aðvitað get ég það. Ekkert auðveldara.

Við gengum saman út að glugganum. Hann teygði vinstra eyrnasnepilinn að munninum á sér og sagði:

° Urgl.

Allt í einu skaust rauð sápukúla út úr geimnum. Við stigum inn í hana og grænn leisigeisli dró okkur upp í fljúgandi bollastell sem sveif yfir jörðinni. Inni í fljúgandi bollastellinu var urmull af alls konar tökkum og blikkandi ljósum.

– Er ekkert erfitt að læra á alla þessa takka?

° Nei, nei. Þeir eru bara til staðar svo að ég fái ekki vanmáttarkennd. Stellið er raddstýrt.

– Hvað erum við annars lengi til Zipzap?

° Um það bil korter.

– Korter? Hvað er þetta löng leið?

° Á ykkar mælikvarða hún um það bil fjórar milljónir ljósár.

– Fyrir hverju gengur þetta fyrirtæki eiginlega?

° Engu. Það framleiðir alla sína orku með hreyfingu sinni.

– En það er vísindalega sannað að það er ekki hægt.

° Jú ef það hreyfist í fjórðu víddinni.

– Tímanum?

° Ja, tíminn ern nú aðeins samheiti yfir hreyfivíddirnar fjórar. Síðan er rúmið náttúrulega kallað fimmta víddin.

– Ha?

° Nei takk.

– Nei takk hvað?

° Varstu ekki að spyrja mig hvort ég vildi ha?

– Hvað er ha?

° Brúnleitur vökvi sem oftast er drukkinn heitur.

Ég var orðinn kolruglaður. Hvaða bjáni var þetta eiginlega sem ég ferðaðist með?

– Hvað sagðirðu annars að þessi ferð tæki langan tíma?

° Það er nú ekki talað um að eitthvað taki tíma heldur taki rúm. Við verðum komnir til Zubglúb eftir tuttuguogtvo metra.

– Tuttuguogtvo metra?

° Já ég sagði þér áðan að ferðin tæki korter. Þar sem það eru hundraðogtuttugu metrar í tommu þá er eitt korter þrjátíu metrar. Við erum búnir að ferðast í átta metra og eigum því tuttuguogtvo metra eftir.

Ég ákvað að þegja það sem eftir var ferðarinnar. Við lentum mjúklega á landinu Zubglúb á plánetunni Zipzap sem gengur í kring um stjörnuna Dapzap í vetrarbrautinni Geit. Glúbzub opnaði hurðina á bollastellinu. Við tók langur gangur sem við gengum á enda. Þá fórum við inn í stórt hvítt herbergi. Við skrifborð í miðju herbergisins sat gamall, grænn, lítill karl. Hann benti okkur á að koma. Glúbzub leiddi mig yfir til gamla, græna, litla mannsins sem sagði mér að rétta fram hendurnar. Ég rétti fram hendurnar. Gamli, græni, litli maðurinnn tók þá fram stimpilpúða og bað mig um að þrýsta fingrunum á mér einum í einu á púðann og því næst þrýsta þeim á blað þannig að hann gæti fengið afrit af fingraförunum mínum. Ég gerði eins og hann sagði. Að því loknu tók Glúbzub til máls.

° Þá er það búið. Við getum lagt af stað til baka til Jarðar.

– Er þetta allt og sumt?

° Já, við erum að gera rannsókn á fingraförum manna frá mismunandi stöðum í geimnum.

– Hefði ekki verið hægt að fara með fingrafarapúðann til Jarðar og taka fingraförin þar?

° Þú segir nokkuð. Það hefði jú verið talsvert einfaldara. En hugsum ekki um það. Þetta er búið og gert. Drífum okkur til Jarðar.

Við fórum til baka eftir langa ganginum inn í bollastellið og þeystum af stað í átt að sólkerfinu okkar. Von bráðar vorum við komnir á áfangastað.

° Þá hef ég staðið mitt loforð. Ég skila þér á sama stað í tímanum og ég tók þig. Því miður er þetta ekki alveg sami staður í rúminu en þú reddar þér.

Áður en ég gat komið upp orði sendi Glúbzub mig niður í rauðu sápukúlunni og ég sá ekki tangur né tetur af honum síðar. Ég leit í kringum mig. Ég var staddur á miðjum grasbala. Skammt frá var reisumikill torfbær og á hlaðinu var maður að grafa holu. Ég gekk til hans.

– Góðan daginn.

° Dagr er góðr. Eg er Ingolfr son Arnr. Flott náttföt sem þú klæðst. Gakk í bæ, drekk öl og ver glaðr.