Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Aðrar útgáfur: PDF | english

Ég leit á klukkuna. Það voru enn tveir klukkutímar þangað til ég átti stefnumót við fulltrúa forlagsins sem hafði áhuga á að gefa út sögurnar mínar.

Önnur kynni — Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson
Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

Það voru liðnar tvær vikur síðan ég hafði rætt stuttlega við hana á ljóðaupplestri rithringsins Smámunasemi. Ég hafði verið talsvert upp með mér þegar hún kom til mín eftir upplesturinn minn og spurði mig út í skrif mín—hvort ég skrifaði eitthvað annað en ljóð. Ég sagði henni frá sögunum mínum og við ákváðum að mæla okkur mót á kaffihúsi.

Hugurinn hvarflaði aftur til ljóðaupplestrarins og ég reyndi að rifja upp hvernig hún hafði litið út—fulltrúi forlagsins. Ég kom henni engan veginn fyrir mig. Ég hafði verið heldur hátt uppi þegar við töluðum saman. Bæði vegna frumraunar minnar í ljóðaupplestri og vegna þeirrar athygli sem hún sýndi mér. Smáatriðin voru í þoku.

Hvað ef ég þekkti hana ekki aftur? Hvað ef ég gengi inn á kaffihúsið og labbaði beint framhjá henni án þess að þekkja hana og settist niður við annað borð?

Hún myndi örugglega móðgast. Myndi hún ekki bara strika mig út af listanum yfir unga og upprennandi höfunda? Þar með yrði rithöfundaferli mínum lokið—áður en hann kæmist á flug. Ferillinn myndi brotlenda í flugtaki—verða bensínlaus áður en komið yrði að enda flugbrautarinnar.

* * *

Ég settist niður með rjúkandi kaffibollann og leit á klukkuna. Það voru enn þrjátíu mínútur í stefnumótið. Ég var mættur snemma. Það var eini kosturinn í stöðunni. Þannig þurfti ég ekki að hafa áhyggjur af því að þekkja hana ekki aftur. Nú var það hennar að þekkja mig.

Ég leit samt aftur í kringum mig. Til öryggis. Ég leit frá einu borði til annars og einbeitti mér að því að útiloka hvern og einn gest sem fulltrúa forlagsins. Karlmaður. Of gömul. Strákahópur. Of ung. Var þetta hún? Nei, hún myndi ekki hafa tekið barnið með sér.

* * *

Ég horfði á eftir konunni með barnið þegar hún yfirgaf kaffihúsið. Klukkan var fimm mínútur yfir. Hafði þetta verið hún? Gæti verið að hún hefði ekki getað fengið pössun fyrir barnið og því tekið það með sér? Þetta hafði nú átt að vera óformlegur fundur. Hafði ótti minn ræst? Hafði hún yfirgefið kaffihúsið í fússi vegna getuleysis míns í að þekkja hana aftur?

* * *

Um leið og konan með barnið gekk út kom önnur kona inn—fulltrúi forlagsins. Ég þekkti hana undir eins. Hvernig gat ég hafa efast?