Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Ég settist niður á kaffihúsi til þess að fá mér morgunverð. Á morgun átti ég að halda fyrirlestur á ráðstefnu um netafræði en í dag ætlaði ég að ramba um götur Parísar og kynnast því sem borgin hefði upp á að bjóða. Ég hafði ekki neitt plan varðandi það hvert ég ætlaði. Ég ætlaði bara að rölta um og sjá hvert fæturnir bæru mig. Ég hafði ákveðið að reyna að haga mér ekki eins og ferðamaður. Ég ætlaði að reyna að falla inn í fjöldann og láta líta út eins og ég væri parísarbúi.

Oui — Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson
Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

Þjónn kom að borðinu og spurði hvað mætti bjóða mér. Ég bar fram setninguna sem ég hafði endurtekið í sífellu í huganum frá því að ég opnaði augun um morguninn.

„Croissant et café au lait,“ sagði ég eins örugglega og ég mögulega gat. Samt sem áður hljómaði setningin ekki eins vel þegar ég sagði hana upphátt og hún hafði gert í huga mér allan morguninn. Hljómfallið var annað. Stirðari. Upphátt flæddu orðin eins og grjóthlass af vörubílspalli í rigningu en ekki eins og ljúfi lækurinn á sólríkum sumardegi sem ég hafði ímyndað mér í huganum.

Þjónninn skrifaði pöntun mína samviskusamlega á blað og dembdi síðan yfir mig bunu af frönskum orðum sem ég hafði ekki hugmynd um hvað þýddu. Af hljómfallinu að dæma var um spurningu að ræða. Nú var um að gera að viðurkenna ekki vanmátt minn. Ekki tapa kúlinu.

„Oui,“ sagði ég óhikað, í þeirri von að spurningunni væri hægt að svara með jái eða neii.

Þjónninn kinkaði kolli, brosti og gekk í átt að eldhúsinu. Ég viðurkenndi fyrir sjálfum mér að það gæti orðið þrautinni þyngra að reyna að haga sér eins og heimamaður án þess að geta talað frönsku að nokkru ráði. Var ég hugsanlega að baka mér vandræði? Hvað hafði ég eiginlega játað? Það gat þó varla verið harla alvarlegt þar sem þjónninn tók svari mínu eins og það hefði verið sjálfsagt.

Ég fylgdist með fólkinu á götunni og reyndi að finna eitthvað í fari þeirra sem ég gæti tekið upp til þess að geta blekkt fólk til þess að halda að ég væri heimamaður. Við fyrstu athugun virtist það vera helst tvennt sem einkenndi Parísarbúa. Þeir reykja og ganga yfir götur á rauðu ljósi. Ég ákvað að láta reykingarnar eiga sig en einsetti mér að vera ekki að hanga á rauðu ljósi ef umferðin leyfði annað.

Þjónninn kom til baka og lagði bolla af mjólkurkaffi og smjördeigshorn á borðið fyrir framan mig. Morgunverðurinn leit út fyrir að vera nákvæmlega eins og ég hafði gert mér í hugarlund. Jáið mitt við spurningu þjónsins virtist ekki hafa skaðað neitt—hvað sem það hafði nú verið sem ég játti. Ég ákvað að dvelja ekki við þá hugsun lengur. Ég yrði bara að ganga í gegnum lífið án þess að hafa hugmynd um það hvað þjónninn hafði spurt.