Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Smásögur

Rigning í Kraków

Rigning í Kraków — Myndskreyting Yana Volkovich
Myndskreyting Yana Volkovich

Ég dustaði dropana af regnjakkanum í anddyrinu áður en ég fékk mér sæti út við glugga á nánast mannlausu kaffihúsinu. Plön mín höfðu breyst. Eftir vikulöng fundahöld hafði ég þráð að komast út í ferskt loft. Ég hafði ætlað að nota þessa helgi til þess að rölta um Kraków. Kynnast borginnni betur og taka myndir. Veðurguðirnir höfðu sett strik í reikninginn. Þeir höfðu aðrar hugmyndir.

„Co dla Pana?“

Ég leit á afgreiðslustúlkuna sem hafði ávarpað mig. Ég gat mér til um að hún væri að spyrja mig hvort ég vildi eitthvað. Hvað hún gæti fært mér. Eitthvað á þá leið.

„Afsakið,“ svaraði ég á ensku. „Ég tala ekki pólsku.“

„Ó. Ég var bara að spyrja þig hvort ég gæti fært þér eitthvað,“ svaraði hún á ensku. „Ég hélt að þú værir Pólverji. Þú hefur eitthvað svo pólska áru.“

Ég pantaði mér kaffi og einhvers konar brauðsnúð. Regnið steyptist af himnum ofan. Ég renndi augum yfir torgið. Það voru ekki margir á ferli í rigningunni. Ég var eini gesturinn á kaffihúsinu. Ég tók upp minnisbókina mína og penna, með það í huga að setja á blað lýsingu á andrúmsloftinu á kaffihúsinu við torgið. Ég gæti hugsanlega spunnið hana út í smásögu.

„Hvaðan ertu?“ spurði afgreiðslustúlkan um leið og hún færði mér kaffið og brauðsnúðinn.

„Íslandi,“ svaraði ég. „Reykjavík.“

„Ó, Ísland,“ sagði hún dreymin á svip og horfði út um gluggann og yfir torgið. „Ég hef heyrt að það sé fallegt land. Það eru víst margir Pólverjar sem hafa farið þangað í leit að vinnu.“

Afgreiðslukonan yfirgaf mig og hélt til baka að barborðinu. Ég beit í brauðsnúðinn og fékk mér kaffisopa. Ég leit í kringum mig, yfir torgið og nánast autt kaffihúsið. Augu mín reyndu að fanga eitthvað sem gæti komið mér af stað í söguskrifum.

Hávær tónlist glumdi í hátalarakerfinu í bland við ákafar samræður afgreiðslustúlknanna sem töluðu hvor í sinn símann. Ég skildi ekki hvað þær voru að segja en gerði mér í hugarlund að samtöl þeirra væru heldur ólík. Ég giskaði á að önnur væri að rífast við mömmu sína og hin væri að senda ástaróð til kærastans. Önnur reifst en hin talaði blítt, roðnaði af og til og hló feimnislegum hlátri.

„Ég er búin að segja þér það oft að ég er ekki á leiðinni til baka,“ hrópaði önnur þeirra í símann — sú sem hafði afgreitt mig. Hún var orðin þreytt á því hvernig mamma hennar reyndi í hvert sinn sem þær töluðu saman að fá hana til þess að snúa aftur til heimahaganna. Hún var ekki á leiðinni heim. Hún hafði gert upp við sig að hún ætlaði að dvelja áfram hér í Kraków og safna sér inn pening til þess að geta farið og skoðað heiminn. Mamma hennar hélt enn í þá hugmynd að hún myndi snúa aftur til þorpsins og giftast prestssyninum. Hún var hins vegar búin að gera upp við sig að hún ætlaði ekki að giftast honum. Þeirra sambandi var lokið. Þau áttu ekkert sameiginlegt lengur.

Þau höfðu verið afar samrýmd í æsku — hún og sonur prestsins. Þau höfðu leikið sér saman. Þau höfðu látið sig dreyma saman. Þau höfðu ákveðið að ferðast saman og skoða heiminn. Þau eyddu löngum stundum í að dreyma um fjarlægar borgir í fjarlægum heimsálfum. Heimurinn var þeirra. Þau ætluðu að skoða hann. Draumar þeirra voru í fyrstu ekki svo fjarlægir. Þau dreymdi um evrópskar borgir á borð við London, Berlín og París. Þau færðu sig síðan upp á skaftið og létu sig dreyma um fjarlægari staði. Ameríku. Asíu. Hugur þeirra átti engin landamæri.

Þegar þau eltust byrjuðu þau smám saman að fjarlægjast hvort annað. Hún hélt áfram að láta sig dreyma um fjarlæg lönd. Hann gerðist heimakærari. Hann ákvað að feta í spor föður síns og taka við prestakallinu í þorpinu. Presturinn kallaði. Hann hætti smám saman að dreyma um veraldlega heima. Andlegi heimurinn átti hug hans allan. Hans heimur innihélt einungis fólkið í þorpinu og samband þeirra við guð. Hann hafði reynt að sannfæra hana um að standa við hlið sér sem prestsfrú. Hann gafst hins vegar upp þegar hann sá að hann gæti ekki sannfært hana.

Ég gerði hlé á söguskrifum og skrifaði sjálfum mér athugasemd um að ég ætti að athuga það við tækifæri hvort kaþólskir prestar gætu yfirhöfuð gift sig. Ég efaðist. Ég var ekki viss um að ég væri á réttri leið með þessa sögu. Ég setti því lokið á pennann og leit yfir torgið. Það rigndi enn eins og hellt væri úr fötu. Það voru fáir viðskiptavinir sem létu sjá sig til þess að kaupa í matinn á markaðnum. Sölufólkið hímdi undir tjöldunum og stakk saman nefjum. Voru þau að ræða um veðrið? Voru þau að ræða um það hvernig veðrið setti strik í reikninginn hjá þeim? Efnahagsreikninginn. Ég láði þeim það ekki. Það var vart hundi út sigandi. Hvað þá mér. Það var því ekki annað í stöðunni en að taka lokið af pennanum á ný og halda áfram að skrifa.

Þjónustustúlkan sem hafði rifist í símann var nú ein við störf. Hin var horfin á braut. Hún hafði kannski hlaupið í fang kærastans eftir eldheitt símtalið. Sú sem eftir var drap tímann með því að þurrka af barnum.

Nóttina fyrir átján ára afmælið sitt pakkaði hún helstu nauðsynjum niður í tösku. Skömmu fyrir dagrenningu laumaðist hún út úr húsinu án þess að láta nokkurn í sér heyra. Hún skrifaði bréf til móður sinnar og föður. Hún sagði þeim frá því að hún hefði ákveðið að fara og skoða heiminn. Hún sagði þeim að hafa ekki áhyggjur af sér. Hún væri fullorðin og gæti bjargað sér. Hún sagðist myndu hringja.

Hún kom til Kraków rétt fyrir hádegi og byrjaði strax að rölta á milli veitingastaða í leit að vinnu. Hún hafði heyrt að veitingahús og kaffihús væru vænlegasta leiðin til þess að finna sér vinnu. Atvinnuleitin var hins vegar ekki eins auðveld og hún hafði látið sig dreyma um. Enginn vildi ráða óreynda stúlku úr sveitinni. Undir kvöld sætti hún sig við að hún ætti ekki eftir að finna vinnu strax. Hún hafði safnaði saman nægilegri peningaupphæð til þess að gista á ódýrasta gistiheimili borgarinnar í nokkrar nætur. Hún gæti bjargað sér í tvær til þrjár nætur.

Næsta dag hélt hún atvinnuleitinni áfram. Hún gafst upp á veitingastöðunum og sneri sér að börum og kaffihúsum. Hún setti markið hátt í byrjun og gekk milli fínu kaffihúsanna. Smám saman missti hún móðinn og færði sig yfir á miður fína staði. Í lok dags hafði henni tekist að finna sér vinnu sem uppvaskari og afgreiðslustúlka á bar í miðbænum. Vinnudagurinn var langur. Kaupið var lágt. Hún náði samt að framfleyta sér. Hún stalst til að borða gamalt brauð og annað sem gekk af í lok dags.

Þannig liðu fyrstu vikurnar í heiminum utan þorpsins. Lífið var langt frá því að vera í líkingu við það sem hún hafði gert sér í hugarlund í draumum sínum. Hún hugsaði hins vegar alltaf með sér að þetta væri bara byrjunin. Hlutirnir myndu lagast þegar fram í sótti.

Nú var ár síðan hún flutti til borgarinnar. Í dag hélt hún upp á nítján ára afmælið sitt í kyrrþey. Hún hafði fyrir löngu tapað tölu á þeim fjölda bara og kaffihúsa sem hún hafði unnið á. Hún hafði smám saman náð að vinna sig upp. Hún var fjarri draumnum um að skoða heiminn. Hún neitaði hins vegar að gefast upp. Hún hélt drauminum á lífi. Hún ætlaði að komast til Berlínar, London eða Parísar eins fljótt og hún gæti.

Hún hringdi heim einu sinni í viku til þess að láta foreldra sína vita að það væri allt í lagi með hana. Hún sagði þeim hins vegar ekki hvar hún væri eða hvað hún væri að gera. Hún vildi halda þeim í hæfilegri fjarlægð. Hvert símtal endaði með rifrildi við móður hennar sem vildi fá hana heim í þorpið. Hún stóð hins vegar föst á sínu. Hún hélt í drauminn um að skoða heiminn.

Hún sat fyrir aftan barborðið og horfði út á torgið. Það rigndi eins og hellt væri úr fötu. Kaffihúsið var næstum tómt. Útlendingur með gleraugu, barta og hökutopp sat út við gluggann, drakk kaffi og skrifaði í minnisbók af mikilli ákefð. Fyrst hélt hún að hann væri pólskur. Hann hafði hins vegar ekki skilið neitt þegar hún ávarpaði hann og spurði hvað mætti bjóða honum. Hann hafði sagst vera frá Íslandi. Henni fannst það framandi. Í öllum þeim dagdraumum sem höfðu borið hana um víða veröld þá hafði hún aldrei ferðast til Íslands. Hún hafði heyrt þónokkur dæmi um landa sína sem hefðu gert það gott á þessari dularfullu og fjarlægu eyju. Satt best að segja þá hljómaði Reykjavík ekki nærri jafn aðlaðandi og Berlín, London eða París. Hún ætti þó kannski ekki að útiloka neitt í þessum efnum. Hún velti því fyrir sér hvort hún ætti að spyrja Íslendinginn um nafnspjald ef svo færi að hún skellti sér til Reykjavíkur í atvinnuleit.

„Þú hefur breyst mikið.“

Hún hrökk upp og leit á viðskiptavin sem hafði laumast inn á kaffihúsið án þess að hún tæki eftir því. Hún trúði varla sínum eigin augum. Hann hafði einnig breyst. Hann var skeggjaður og með gleraugu. Hann var fullorðnari. Hann leit frekar út fyrir að vera prestur heldur en sonur prestsins.

„Þú líka,“ svaraði hún og fann roðann streyma fram í kinnarnar.

Þau brostu vandræðalega hvort til annars. Þau voru feimin. Þau sem höfðu á sínum yngri árum leikið sér saman á hverjum degi og þekkt hvort annað betur en nokkur annar.

„Ég er á leiðinni til Parísar,“ sagði hann og ýtti gleraugunum betur upp á nefið.

Hún horfði á hann og vissi ekki hvort hún ætti að brosa eða gráta. Hana hafði dreymt að heyra þessi orð svo lengi. Í öðru samhengi þó. Hana hafði dreymt um að þau færu saman til Parísar. Hún svaraði ekki.

„Ég vil að þú komir með mér,“ sagði hann og brosti vandræðalega.

Hún vissi ekki hverju hún ætti að svara. Hún vissi ekki hverju hana langaði til að svara. Það var of langt liðið síðan þau lágu saman í grasinu fyrir utan þorpið og létu sig dreyma um að fara saman til Parísar.

„Ég er að fara í prestaskóla í París. Ég vil að þú komir með mér. Ég er með litla íbúð á vegum skólans.“

Hún brosti. Hann hafði elst og þroskast en hann var ennþá einfaldur sveitastrákur inni við beinið.

„Hvað heldur þú að prestakólinn segi þegar þú kemur með kvenmann með þér til Parísar. Ógiftur prestneminn?“

Hann þagði og horfði á hana óviss á svip. Hann hafði greinilega ekki hugsað þetta til enda. Hann leit undan og starði á flöskurnar á barnum. Hún þurrkaði ímyndaða bleytu af þurru barborðinu. Þau þögðu.

„Ég segi þeim að þú sért systir mín. Ég segi þeim að þú sért með mér til þess að hjálpa mér á meðan ég stunda námið. Til að þvo þvott, elda og svoleiðis.“

Hann horfði á hana á ný. Hann var sakleysið uppmálað.

„Það mun aldrei ganga upp. Það er betra að þú farir einn.“

Hún fékk kökk í hálsinn um leið og hún sagði þetta. Hún sneri sér við og laumaðist til þess að þurrka tár sem hafði myndast í öðrum augnkróknum. Hún gæti ekki farið með honum. Ekki á þessum forsendum.

„Ef þú skiptir um skoðun þá er hérna heimilisfangið mitt í París. Ég legg af stað í kvöld.“

Hann rétti henni nafnspjald eilítið skjálfhenntur. Hún tók á móti því og velti því milli fingra sér.

„Ég skrifa þér kannski bréf.“

Hún sagði þetta til þess að réttlæta það að hún tæki við spjaldinu. Hún vildi ekki að hann héldi að hún væri að hugsa um að fara á eftir honum til Parísar. Hún vildi ekki vekja upp falsvonir í huga hans.

Hann kvaddi og hélt sína leið. Um leið og hann hvarf út um dyrnar á kaffihúsinu fann hún hvernig tilfinningarnar helltust yfir hana. Tárin streymdu niður kinnar hennar. Það var ekkert sem hún gat gert til þess að halda aftur af þeim. Henni varð hugsað til baka til þess tíma þegar þau dreymdi um að skoða heiminn saman. Sá draumur hafði aldrei verið eins nærri því að rætast. Hann virtist samt svo fjarlægur. Hún óskaði að hann gæti ræst en vissi að það var útilokað. Þau höfðu fjarlægst hvort annað um of. Hann var ennþá sveitastrákur. Hún var orðin borgarstelpa. Þau voru of ólík.

Ég leit upp úr minnisbókinni og yfir torgið. Það hafði stytt upp. Ég hugsaði að mér væri ekkert að vanbúnaði að standa upp og gera alvöru úr þeirri áætlun minni að rölta um borgina. Þessi smásaga gæti beðið betri tíma. Ég var hvort sem er ekki viss um það hvort hún væri efni í nokkuð. Ég vissi ekki nógu mikið um líf ungra kaþólskra presta í pólskum þorpum til þess að gera söguna trúverðuga. Ég pakkaði minnisbókinni niður í tösku, gekk að barnum og gerði upp reikninginn. Kraków beið mín.

„Hérna ér nafnspjaldið mitt,“ sagði ég um leið og ég borgaði fyrir kaffið. „Þú getur haft samband ef þú lætur þér detta í hug að fara til Reykjavíkur í atvinnuleit.“

Ég var hissa á sjálfum mér fyrir að hafa gefið afgreiðslustúlkunni nafnspjaldið mitt. Ég hafði einhvern veginn gert þetta ósjálfrátt. Kannski átti ég í vandræðum með að greina á milli þess hvað var raunveruleiki og hvað tilheyrði smásögunni sem ég hafði verið að skrifa.

Hún horfði á eftir útlendingnum yfirgefa kaffihúsið og ganga út á torgið. Hún leit aftur á nafnspjaldið. Henni flaug í hug hvort hún ætti að taka boðinu. Í versta falli gæti hún búið hjá honum í nokkra daga á meðan hún leitaði sér að vinnu og kæmi sér sjálf fyrir. Hún stakk miðanum í vasann. Hún myndi sofa á þessu og ákveða sig síðar.

Börkur er áhugasamur sögumaður með næmt auga fyrir sérstökum sögupersónum, fyndnum samtölum og lifandi umhverfislýsingum. Skrif Barkar flokkast að mestu leyti undir raunsæisstefnu og sögurnar hans eru oftar en ekki byggðar á sönnum atvikum í lífi höfundarins. Þó sögurnar innihaldi fjölmörg sannleikskorn þá eru þau rækilega blönduð skáldskap sem vekur upp forvitni lesandans um það hvar mörkin liggi milli raunveruleika og skáldskapar.

https://www.borkur.net/