Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Örsögur

Sjálfsævisaga

Sjálfsævisaga — Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson
Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

Ég lagði pennann frá mér, snéri blaðinu við og lagði það ofan á þau sem á undan höfðu komið. Blaðabunkinn fyrir framan mig var nú fullklárað fyrsta uppkast af sjálfsævisögu minni. Á 40 ára rithöfundarferli mínum hafði ég aldrei skrifað eins margar lygar. Aldrei hafði ég sett eins mikinn skáldskap á blað. Samt sem áður var sjálfsævisagan trú og samkvæm þeirri ímynd sem ég hafði skapað í gegnum árin. Sönn og samkvæm þeim sýndarveruleika sem ég hafði reist í kringum einkalífið.

Sannleikann um líf mitt var einungis að finna í skáldsögum mínum. Fimmtán metsölubækur af þykjustu skáldskap. Bækur sem gagnrýnendur höfnuðu sem siðlausum og óraunverulegum sögum með alvarlega gallaðar sögupersónur. Það voru sömu sögur og lesendur mínir lofuðu af vandræðalegri nautn. Sögur af lífi sem enginn þorði að viðurkenna að hann þráði en var samt löngun hvers og eins.

Þannig var mín sanna sjálfsævisaga, en jafnvel ég þorði ekki að viðurkenna sannleikann.

Börkur er áhugasamur sögumaður með næmt auga fyrir sérstökum sögupersónum, fyndnum samtölum og lifandi umhverfislýsingum. Skrif Barkar flokkast að mestu leyti undir raunsæisstefnu og sögurnar hans eru oftar en ekki byggðar á sönnum atvikum í lífi höfundarins. Þó sögurnar innihaldi fjölmörg sannleikskorn þá eru þau rækilega blönduð skáldskap sem vekur upp forvitni lesandans um það hvar mörkin liggi milli raunveruleika og skáldskapar.

https://www.borkur.net/