Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Dyrnar opnast, inn streymir flóð geisla sem skína framan í lítinn dreng. Sólin fær hann til að gretta sig. Hann reynir að horfa í sólina en hún yfirbugar hann og neyðir hann til að líta undan.

Drengurinn stígur litlum og hikandi skrefum út í umheiminn. Hann snýr sér við og lítur framan í skælbrosandi andlit móður sinnar sem vinkar og leggur hurðina að stöfum. Drengurinn afræður að snúa sér aftur við og virða fyrir sér veröldina. Hann lítur niður eftir götunni. Garðar liggja að henni á báða vegu og fyrir framan þá er gangstétt. Gatan er auð þennan fagra júnímorgun. Drengurinn er að fara í sína fyrstu sendiferð. Móðir hans bað hann að fara út í mjólkurbúð og kaupa ost.

Drengurinn gengur titrandi skrefum niður tröppurnar með peningapyngju í annarri hönd. Hann nálgast nú garðshliðið sem vingsar fram og til baka í morgunfjúkinu svo að það marrar í hjörunum. Hljóðið hræðir drenginn og hann flýtir sér í út um hliðið og er þá kominn út á gangstéttina, hina beinu braut til mjólkurbúðarinnar. Búðin stendur við hinn enda götunnar, lítið hús með stórum gluggum.

Drengurinn lallar af stað eftir gangstéttinni. Hin mikla ævintýraför er hafin. Hann kemur að Gróugarði. Þar læðist gráleit og smáfætt læða með hvítan hárbrúsk á enninu fram undan dagblaðssíðu sem fokið hefur inn í garðinn í enhverju hvassviðrinu. Læðan smeygir sér í gegnum Gróuhlið og gengur til drengsins, stríkur sér við buxnaskálm hans og mjálmar. Drengurinn ber kala til óargardýra og gengur því greiðar til að losna úr viðjum dýrsins. Honum tekst ætlunarverk sitt og er brátt kominn á sinn eðlilega gönguhraða eins og ekkert hafi í skorist.

Drengurinn gengur undir háa tréð hjá lækninum. Niður úr trénu flögrar lítill smáfugl. Um drenginn fer gleðistraumur. Titringurinn fer fyrst um tærnar en síðan líður hann upp eftir líkamanum, um hnén, í gegnum mjöðmina með tilheyrandi dilli, um þarmana sen taka auka samdráttarhreyfingar, um hendurnar sem taka skrykkdans takta og síðan um andlitið, eyrun blaka, nefið beyglast, augun blikka og bros breiðist út eyrna á milli. Áður en drengurinn veit af er smáfuglinn sestur á öxl hans og þeir dansa saman í takt við lög unga fólksins sem hljóma út um glugga á herbergi læknisdótturinnar. Vinirnir tjútta saman í átt að mjólkurbúðinni. Þegar Læknisgarðurinn er á enda og öldur tónaflóðsins deyja út kastar smáfuglinn kveðju á drenginn og flýgur upp í tréð sem hann kom úr.

Áfram heldur drengurinn uns hann kemur auga á langt og mjótt ferlíki sem liðast áfram þvert skrjáfaþurra og grásteypta gangstéttina. Við nánari athugun reynist kvikindið vera ánamaðkur á leið til grasbalans handan gangstéttarinnar. Drengurinn nemur staðar og rabbar í stutta stund um daginn og veginn við orminn. Síðan heldur hann áfram þau fáu skref sem hann á ófarin að Mjólkurbúðinni.

Inni í mjólkurbúðinni blasir við geysihátt afgreiðsluborð. Fyrir aftan það er feyknastór maður sem beygir sig fram og spyr með hásri og vingjarnlegri röddu hvort hann megi aðstoða unga manninn. Drengurinn ber upp erindi sitt og réttir fram pyngjuna. Að erindagjörðunum loknum snýr hann aftur heim á leið.

Þegar að grasbalanum kemur lítur drengurinn í kringum sig til að koma auga á ánamaðkinn. Allt kemur fyrir ekki, hann er horfinn. Drengurinn kemst loks að þeirri niðurstöðu að smáfuglinn hafi étið orminn. Hann heldur því af stað til að skamma smáfuglinn rækilega. Drengurinn þrammar í átt til Læknisgarðsins. Þegar þangað er komið er smáfuglinn á bak og burt ásamt tónum útvarpstækis dóttur læknisins. Drengurinn gengur álútur áfram heim á leið.

Um það leyti er hann gengur framhjá Gróugarði sér hann litla steinvölu sem hann sparkar út í bláinn. Steinvalan lendir á ljósastaur og endurvarpast þaðan í höfuðið á læðu er sat í makindum sínum á gangstéttinni og sleikti út um eftir ljúffenga máltíð.

Drengurinn tekur sér krók framhjá varanlega heilasködduðu læðunni og heldur til heimahaganna. Þegar að tröppum hússins er komið opnast útidyrahurðin og út kemur skælbrosandi móðir drengsins. Hún faðmar hann og segir hve stollt hún er. Drengurinn fer síðan inn í herbergið sitt, tekur fram blað og blýant, teiknar mynd af smáfugli og límir upp á vegg.