Ég opnaði ferðatöskuna og hrúga af sveittum stuttermabolum og stuttbuxum blasti við mér. Ég skóflaði fötunum í flýti yfir í þvottakörfuna, skellti lokinu aftur og snéri mér á ný að ferðatöskunni.
Á botni töskunnar kom ég auga á steinana tvo sem ég hafði stungið í vasann á einni af gönguferðum mínum um eyjuna. Ég vissi ekki hvers vegna ég þráaðist við þá hugmynd að einhvern tímann í framtíðinni myndi ég hafa gaman að því að rifja upp menntaskólajarðfræðina með því að greina steindir og steina.
Ég sótti tvo litla plastpoka í skrifboðsskúffuna og setti steinana hvor í sinn pokann. Ég skrifaði „Ibiza 2010“ á tvo merkimiða og límdi á pokana. Ég opnaði fataskápinn og dró fram þungan kassa. Ég kom steinunum fyrir hjá hundruðum félaga sinna og lokaði kassanum. Innst inni vissi ég að ég myndi aldrei sjá þessa steina framar.