Þyngdarafl


Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

Brendan fann þyngdaraflið toga í huga hans sem líkama þar sem hann ferðaðist niður rúllustigann inn í hvelfinguna milli brautarpalla neðanjarðarlestarinnar. Hann starði inn í illa upplýst steinsteypuklætt tómið og fannst hann stara inn í spegilmynd eigin sálar. Höfuðið var tómt og líkami hans var næstum þurrausinn allri orku.

Er hann náði neðri enda stigans kjagaði Brendan eftir næstum yfirgefnum brautarpallinum, í áttina að fjærendanum þar sem hann settist niður á auðan bekk. Hann vildi halda eins mikilli fjarlægð og hægt var milli sín og þeirra fáu farþega sem voru enn á ferðinni þetta seint um kvöld.

Brendan vildi vera útaf fyrir sig. Einn með hugsunum sínum. Strjálu myndunum sem hrukku inn og út af svörum skjánum í huga hans. Hann reyndi, án árangurs, að negla þær niður, púlsa þeim saman í eina heild—klippimynd af vonlausu ástandi.

Það var ekki eins og Brendan hefði ekki reynt. Hann hafði tvímælalaust reynt. Hann hafði talað af sannfæringu. Hann hafði rökrætt. Hann hafði grátbeðið. Allt hans erfiði fór hins vegar fyrir lítið. Svörin voru nei, nei og nei. Það voru ekki meiri peningar til. Þolinmæðin var á þrotum. Lánstraustið var uppurið. Brendan hafði misst alla von um að geta losað sig úr þeim hnút sem hann var kominn í.

Brendan heyrði lestina nálgast. Daufur bjarmi lýsti upp dimmt gangnaopið. Hann stóð upp og gekk yfir að brún brautapallsins, svo langt að þreyttur líkaminn átti í vandræðum með að halda jafnvægi. Ljósið við gangnamunnann varð skærara. Hávaði rumdi í gegnum loftið. Mildur andvari gældi við hárlokkkana og framljós lestarinnar geystu í áttina til hans. Hann fann þrýstinginn. Hann lokaði augunum.

Þegar Brendan opnaði augun aftur hafði lestin numið staðar og beið við brautapallinn með dyrnar opnar. Hann steig inn og lét líkamann hlammast niður í autt sæti. Það var ekki mikið sem hann gat gert úr því sem komið var. Það var ekkert annað í stöðunni en að halda heim og reyna að sofa stundarkorn áður en hann þyrfti að standa frami fyrir starfsfólkinu í morgunsárið og segja þeim sannleikann—segja þeim að fyrirtækið væri gjaldþrota.