Tímavélin


Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

Billy herti síðustu skrúfuna. Líf hans var við það að breytast til batnaðar. Í þau fjörutíu og fimm ár síðan hann fæddist hafði hann búið í sama leiðinlega þorpinu. Á stað þar sem sannarlega ekkert gerðist. Nú myndu hlutirnir breytast. Hann hafði smíðað tímavél sem gerði honum kleyft að ferðast fram og til baka milli gullaldartímabila þessa staðar.

Billy settist inn í tímavélina og stillti hana á 30 ár fram í tímann — til 2047. Tímavélin gaf frá sér ærandi hávaða um stund áður en allt datt í dúnalogn á ný. Billy leit út um gluggann og sá sjálfan sig elliæran ruggandi fram og til baka í ruggustól við hlið ryðgaðrar járnhrúgu sem var ekki ósvipuð tímavélinni hans.

Óánægður með lágt spennustig, stillti Billy tímavélina aftur í tímann til ársins 1600. Líkt og áður þá gaf vélin frá sér ærandi hávaða uns þögn færðist yfir hana á ný. Billy steig út úr vélinni og leit í kringum sig. Hann var staddur á miðju óræktuðu engi. Sólin brann á himninum og það var ekkert að sjá nema illgresi eins langt og augað eygði.

Billy varði það sem eftir lifði dags á ferðalagi fram og til baka í tíma — í leit að áhugaverðum augnablikum. Leitin bar engan árangur og hann komst að þeirri niðurstöðu að hann væri einfaldlega fæddur á leiðinlegasta stað í heimi — óháð tíma.

Eftir daglangt ferðalag um aldir og ævi snéri Billy til baka til 2017, nældi sér í kaldan bjór úr ísskápnum og settist í ruggustólinn á veröndinni. Hann leit á tímavélina og sagði við sjálfan sig: „Ég varð að prófa.“