Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Ég var að velta því fyrir mér um daginn hvernig hægt er að hafa áhrif á sína eigin framtíð með trúnni. Það er til dæmis hægt að öðlast eilíft líf með því að trúa á guð. Það er hægt að öðlast gott gengi á sjóferðum með þvi að trúa á Ægi eða Póseidon. Í framhaldinu fór ég að spá í það hvort hægt væri að hafa áhrif á fleiri þætti tilverunnar með trúnni einni saman. Eða kannski vantrúnni. Til að byrja með hætti ég að trúa veðurfréttunum. Viti menn, veðrið hér á landi batnaði til mikilla muna. Það var aldrei rok og rigning en ávallt sól og blíða. Næsta skref var að hætta að trúa Morgunblaðinu. Heimurinn varð laus við hungursneyð og stríð. Smám saman tókst mér að ná tökum á umhverfinu í kringum mig með trúnni.

Það kom svo að því að ég tók þá ákvörðun að hætta að trúa á lögmál eðlisfræðinnar. Þá varð heimurinn reglulega skemmtilegur. Ég gat til dæmis fyllt vindsængina mína af blýi og látið mig fljóta á henni upp ána. Ég gat gert svo ótrúlega hluti að ég trúði því ekki að líkami minn væri í raun það sem hann var. Það hafði ófyirsjáanlegar afleiðingar. Ég hvarf. Ég var bara einmana sál sem flakkaði um án líkama. Þetta féll svo á mig að smám saman missti ég trúna á sjálfan mig. Það verð hins vegar til þess að mér var öllum lokið. Bæði af sál og líkama.

Þar sem ég er ekki lengur til, þá get ég ekki verið að skrifa þessa sögu … og þú, lesandi góður, getur því ekki verið að lesa þessa sögu … já, mér þykir það leitt að þurfa að tilkynna þér þetta … sökum áðurnefndra staðhæfinga verð ég að viðurkenna að ég trúi því ekki að þú sért sjálfur til.