Tuttugu tuttugu


Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

Ég leit til beggja átta áður en ég steig varlega yfir þröskuldinn og út á götu. Ég hlustaði eftir fótsporum. Leiðin virtist greið. Það var enginn á ferli og mér var óhætt að fara út úr húsi.

Ég hafði varla tekið tvö skref eftir götunni þegar ég heyrði þyrluna sveima yfir höfði mér, endurtakandi sömu skilaboðin hvað eftir annað.

„Við búum við heilbrigðisvá… Haltu þig heima… Ekki stefna öðrum í hættu… Haltu þig heima… Það er samkomubann í gildi… Haltu þig heima…“

Ég faldi mig undir breiðri trjákrónu á meðan þyrlan fór hjá, faðmandi stofninn, skjálfandi í takt við laufin sem huldu tilvist mína. Hafði sést til mín? Vissu þau í hvaða erindagjörðum ég var? Gátu þau lesið hug minn? Hafði ferðalag mitt verið tilkynnt? Var það komið í farveg? Myndi einhver leita eftir mér? Yrði ég fjarlægður? Var ég í vandræðum?

„Við búum við heilbrigðisvá… Haltu þig heima… Ekki stefna öðrum í hættu… Haltu þig heima… Það er samkomubann í gildi… Haltu þig heima…“

Smám saman liðuðust skilaboðin sundur þar til þau urðu einungis fjarlægur kliður og bergmál í kolli mér.

“Við búum… Haltu… Ekki… Haltu… Það er… Haltu…”

Ég sleppti trénu og hélt áfram göngu minni niður götuna. Líkaminn var stirður, skalf og hjartað sló ákaft í brjósti mér. Hvað var ég að koma mér í?

Þegar að aðalgötunni kom tók ég eftir fleira fólki á ferli. Það dreifði sér hér og þar yfir báðar gangstéttirnar og allir héldu viðeigandi fjarlægð sín á milli. Sumt gekk jafnvel eftir miðri akbrautinni. Ég fann hvernig vegfarendurnir litu á mig þar sem ég kom mér fyrir á meðal þeirra, viðhaldandi minni fjarlægð, eins og viðkvæm vara sem makast hægt áfram á eftir einsleitum vörum á endalausu færibandi. Ég fann hugsanir þeirra þröngva sér inn í höfuð mér.

„Hvað er hann að gera hér? Hvernig dirfist hann? Kann hann ekki að skammast sín? Ber hann enga virðingu fyrir öðrum?“

Ég draup höfði, leit niður á fætur mína og horfði á þá taka vandlega samhæfð skref eftir gangstéttinni, haldandi minni fjarlægð. Ég gerði mig eins lítinn og ég gat. Hélt örmunum þétt að hliðum mér. Á aðra hönd vildi ég öðlast hulinshjálm og flýja spyrjandi augnaráð nágranna minna. Á hinn bóginn vildi ég hrópa. Ég vildi gera hreint fyrir mínum dyrum.

„Ég vil ekki skaða neinn. Ég er ekki hér til að gera neinum mein. Ég er bara að fara út í búð. Mig vantar eitt og annað í matinn.“