Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Örsögur

Tvíliða

Tvíliða — Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson
Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

Ég kom mér vel fyrir á sófanum, teygði mig í fjarstýringuna og kveikti á sjónvarpinu. Framundan var tveggja tíma fótboltaveisla. Landsleikur tveggja þjóða sem ég hafði litla tengingu við og gæti því notið boltans sjálfs án nokkurra tilfinningalegra aukaáhrifa.

Þeir hvítklæddu byrjuðu með boltann. Nokkrar stuttar snertingar á miðjunni áður en boltinn barst til baka á annan miðvörðinn sem rakti boltann í rólegheitum í leit að góðu færi til þess að senda hann fram á völlinn. Þessi byrjun leit vel út.

Myndavélin sýndi leikmanninn í nærmynd. Þetta var maður sem ég kannaðist við. Hann var leikmaður félagsliðs sem eldaði grátt silfur við mitt uppáhalds lið í ensku deildinni. Ég vissi ekki að hann væri frá þessu landi.

Miðvörðurinn sendi langan bolta fram á vinstri kantinn þar sem liðsfélagi hans tók fimlega við honum. Myndavélin skipti aftur yfir í nærmynd þar sem að kantmaðurinn reyndi að sólaði andstæðing sinn á leiðinni upp að hornfánanum. Það runnu á mig tvær grímur. Hann líka. Voru miðvörðurinn og kantmaðurinn samlandar í viðbót við það að vera saman í félagsliði. Ég gat ekki trúað mínum eigin augum.

Þessir tveir leikmenn fóru í taugarnar á mér þegar þeir spiluðu á móti mínu félagsliði. Mér fannst þeir hrokafullir. Ég þoldi þá ekki. Ég hataði þá. Ég gat ekki verið hlutlaus lengur. Þegar leið á leikinn byrjaði ég smám saman að hata alla samlanda þeirra. Ég byrjaði sjálfkrafa að hvetja andstæðinga þeirra áfram. Ég fór að pirrast út í dómarann þegar hann dæmdi á móti mínu liði. Já, lið andstæðinga andstæðinga minna var núna orðið mitt lið.

Ég var þungur í skapi þegar ég stóð upp úr sófanum í leikhléi til þess að sækja mér kaldan bjór í kæliskápinn. Leikurinn hafði verið fjörugur, bæði lið höfðu gott vald á boltanum, voru léttleikandi og létu boltann ganga hratt á milli sín. Hvort lið hafði skapað sér fjölda marktækifæra og skorað sitt markið hvort. Ég var hins vegar stirður, með alla vöðva kreppta og langaði að láta hurðakamba finna fyrir hnefum mínum. Mér fannst heldur betur halla á mitt lið.

Þegar ég opnaði ísskápinn kviknaði ljós. Í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Fáránleiki augnabliksins rann upp fyrir mér. Með því að hatast út í leikmennina hafði ég eyðilagt fyrir sjálfum mér þá rólegu og afslöppuðu stund sem leikurinn hafði átt að vera. Hvað var ég að spá? Mér bauð við sjálfum mér. Þetta hatur gat ekki verið hollt. Hvorki fyrir sálina né líkamann—lífið eða tilveruna—einstaklinginn eða þjóðfélagið sem heild. Einhverju þurfti að breyta.

Á meðan leikmenn beggja liða söfnuðu kröftum fyrir síðari hálfleik og spekingarnir í sjónvarpssal ræddu fyrri hálfleikinn þá gekk ég í hringi í kringum borðstofuborðið til þess að róa mig niður og hugsa minn gang. Ég einsetti mér að reyna að vinna bug á þessu hatri sem virtist svo oft grípa mig þegar íþróttakeppnir voru annars vegar. Ég ákvað að héðan í frá ætlaði ég að hætta að gera upp á milli fótboltaliða. Héðan í frá ætlaði ég alltaf að halda með því liði sem var með boltann hverju sinni.

Börkur er áhugasamur sögumaður með næmt auga fyrir sérstökum sögupersónum, fyndnum samtölum og lifandi umhverfislýsingum. Skrif Barkar flokkast að mestu leyti undir raunsæisstefnu og sögurnar hans eru oftar en ekki byggðar á sönnum atvikum í lífi höfundarins. Þó sögurnar innihaldi fjölmörg sannleikskorn þá eru þau rækilega blönduð skáldskap sem vekur upp forvitni lesandans um það hvar mörkin liggi milli raunveruleika og skáldskapar.

https://www.borkur.net/