Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Örsögur

Um daginn og veginn

Aðrar útgáfur: PDF | english

Ég stóð við gluggann og horfði út um leið og ég sötraði lapþunnt kaffið. Úti geisaði snjóstormur. Allt var hvítt. Ég snéri mér við og leit yfir herbergið. Fólk ýmist stóð eða sat. Allir sötruðu kaffi og horfðu ýmist í gaupnir sér eða út í loftið án þess að segja neitt. Mér fannst eins og það vantaði orð um daginn og veginn í þetta samkvæmi. Mér kom hins vegar ekki til hugar nokkuð orð sem mætti leggja í þann belg sem vakti áhuga fólks um þessar slóðir.

Um daginn og veginn — Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson
Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

Hvað var ég að gera hér? Því var auðsvarað. Ég var að læra ljóðlist á námskeiði sem ég hafði fengið í jólagjöf frá foreldrum mínum. En, hvað var ég að gera HÉR? Hvað var ég að gera í félagsheimili úti í sveit í miðjum janúar? Hvað var menntaskólanemi úr Reykjavík að gera á ljóðanámskeiði með miðaldra bændum? Miðaldra var smjaðrandi orðalag í þessu samhengi. Hvað var borgarbarnið úr Breiðholtinu að gera hér úti í sveit?

Námskeiðið var svo sem fínt. Það var að virka frá því sjónarhorni sem foreldrarnir höfðu haft í huga. Þau höfðu fengið nóg af atómljóðaskrifum sonarins og vildu að hann fengi að kynnast hinum sanna íslenska ljóðaarfi. Hann var sannarlega að finna í þessu félagsheimili úti í sveit með póst-miðaldra bændum í snjóstormi í janúar. Ég hafði lúmskt gaman að þessu og vafalítið heilmikið gagn.

Ljóðin sem urðu til á þessu námskeiði voru ærið misjöfn. Ég skrifaði undir áhrifum frá Byron Lávarði og Rousseau. Bændurnir skrifuðu undir áhrifum frá hrútinum Birgi og ærinni Melkorku. Ég var nú kannski að gera of mikið úr menningarlegum mismun á milli mín og bændanna. Yfir hádegismatnum hafði ég komist að því að á einum bænum tuggðu bæði Kirgegaard og Hegel hey í fjárhúsunum og Ada Lovelace Byronsdóttir Lávarðar hafði verið þrílembd í fyrrasumar. Þrátt fyrir mína fyrirfram mótuðu fordóma þá voru bændurnir ekkert verr lesnir í heimsbókmenntunum en ég. Jafnvel betur í sumum tilvikunum.

Við vorum kannski ekki eins ólík og ég hafði haldið—ég og sveitafólkið. Vorum við ekki við það að ná saman í gegnum ljóðin okkar? Hver vissi nema ég gæti jafnvel tekið þátt í kaffipásu samræðum. Ég hlyti að geta fundið upp á einhverju. Þau höfðu verið að tala um snjóalög fyrir ekki allt löngu. Nú þögðu þau og störðu—eins og ég—út í snjóstorminn sem geisaði fyrir utan. Var það ekki málið? Ég gæti lagt mitt að mörkum í samræðunum með því að minnast á hversu sterkt hann blési í dag. Eitthvað á þeim nótum. Ég gæti gert athugasemd um veðrið. Það hlyti að falla vel í kramið.

„Þetta er víst það sem kallað er óveður í henni Reykjavík,“ sagði einn bóndinn áður en ég hafði komið hugsun minni í orð.

Hinir bændurnir hlógu og héldu svo þögninni áfram. Ég lét mér nægja að brosa. Það vantaði enn aðeins upp á ég hefði náð nægilega góðu sambandi við fólkið hér til þess að ræða um daginn og veginn í þessum hópi.

Börkur er áhugasamur sögumaður með næmt auga fyrir sérstökum sögupersónum, fyndnum samtölum og lifandi umhverfislýsingum. Skrif Barkar flokkast að mestu leyti undir raunsæisstefnu og sögurnar hans eru oftar en ekki byggðar á sönnum atvikum í lífi höfundarins. Þó sögurnar innihaldi fjölmörg sannleikskorn þá eru þau rækilega blönduð skáldskap sem vekur upp forvitni lesandans um það hvar mörkin liggi milli raunveruleika og skáldskapar.

https://www.borkur.net/