Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Þegar Pétur steig inn í lestarvagninn sá hann að lestin var óvenju þéttsetin miðað við tíma dags. Hann leit í kringum sig og kom á undraverðan hátt auga á fellisæti sem var einungis upptekið af bakpoka. Bakpokaeigandinn — ungur maður á efri táningsárum — leit upp þegar Pétur nálgaðist sætið, brosti, færði bakpokann og hélt setunni niðri á meðan Pétur settist.

Vinavoði — Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson
Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

„Kærar þakkir“ sagði Pétur, gagntekinn af kurteisi unglingsins. Ef einungis væru fleiri eins og hann á meðal hans kynslóðar. Hann var einstakt fordæmi.

Lestin mjakaðist af stað og Pétur kom sér vel fyrir, tók upp bókina sína og byrjaði að lesa. Hann naut þess að geta sökkt sér niður í góða bók á leiðinni í vinnuna.

Pétur hafði ekki lesið mörg orð þegar hann var truflaður af lágu mögli byssuskota, sprenginga, hrópa og kalla. Einhver í nágreninu var að spila tölvuleik eða horfa á kvikmynd í símanum án heyrnartóla. Þetta náði ekki nokkurri átt. Hvernig gat nokkur maður truflað rólega morgun umferðina með þvílíkt tillitslausu hátterni? Hann varð að gera eitthvað til þess að stöðva þennan óskapnað.

Pétur leit upp frá bókinni og fann sér til skelfingar að óhljóðabelgurinn var vingjarnlegi unglingurinn sem hafði verið svo góður að bjóða honum sæti. Pétur opnaði munninn en sagði ekki neitt. Hann gat ekki hugsað sér að skamma þennan unga mann sem hafði verið svo almennilegur.

Örsagan Vinavoði er hluti af örsagnasafninu 52 augnablik.