Ég opna augun og stari upp í loftið. Ég get ekki sofið. Vindurinn blæs af öllum sínum mætti fyrir utan. Ég hlusta. Vindurinn gnauðar á glugganum og reynir að smeygja sér inn.
Ég loka augunum. Vindurinn feykir mér þúsundir kílómetra í norður og áratugi aftur í tímann. Úr íbúðinni í Barcelona, yfir Atlantshafið og inn í sveitabæ á austurströnd Íslands. Ég sit á rúmstokknum og horfi út um gluggann. Ég sé ekki úr augum. Snjóbylurinn er svo þéttur. Ég nýt þess að sitja inni í hitanum og horfa á fárviðrið dansa sinn tryllta dans handan glersins. Stormurinn heillar mig. Máttur hans fær mig til þess að fyllast lotningu.
Ég opna augun. Þú liggur við hlið mér og sefur vært. Það er ró yfir þér. Þig dreymir vel. Fyrir þér er vindurinn gola. Þú þekkir ekki snjóbylinn af eigin raun. Ég hef sagt þér frá honum en hef aldrei ferðast með þér til Íslands um hávetur og kynnt hann fyrir þér.
Ég loka augunum. Mamma sest við hlið mér á rúmstokkinn og horfir með mér út um gluggann. „Er það vindurinn?“ spyr hún. „Já,“ svara ég og legg höfuðið að öxl hennar. Hún tekur utan um mig og strýkur mér um ennið. „Vertu ekki hræddur,“ segir hún. „Þú ert óhultur hérna inni. Farðu nú að sofa.“ Hún leggur mig varlega í rúmið og fær mig til að loka augunum með því að strjúka blítt yfir augnlokin. Ég ligg með augun lokuð og hlusta á snjóbylinn.
Ég opna augun. Tveir áratugir við Miðjarðarhafið hafa ekki náð að slíta tenginguna á milli gnauðsins í vindinum og myndarinnar af snjóstorminum. Það blæs sjaldan hressilega hérna suðurfrá. Það blæs ekki nógu hressilega til þess að feykja tengingunni úr huga mér. Þó ég sé með augun opin og stari upp í loftið þá sé ég ekkert nema þétta hríðina. Það snjóar í huga mér.
Ég loka augunum, fer fram úr rúminu og geng inn í stofu. Amma situr í hægindastól og prjónar. Hún lítur upp og leggur frá sér prjónana þegar ég geng inn í stofuna. „Er það vindurinn?“ spyr hún. „Já,“ svara ég og príla upp í kjöltu hennar. „Vertu ekki hræddur,“ segir hún. „Þú ert óhultur hérna inni. Farðu nú að sofa.“ Hún strýkur mér um hnakkann og raular vögguvísu. Hún hóar í afa og biður hann um að bera mig upp í rúm.
Ég opna augun. Þú ert vöknuð og horfir á mig. Ég brosi til þín líkt og ég vilji afsaka mig fyrir að vera vakandi. „Er það vindurinn?“ spyrð þú. „Já,“ svara ég. Þú færir þig nær mér og leggur höfuðið á öxl mína. „Vertu ekki hræddur,“ segir þú. „Þú ert óhultur hérna suðurfrá. Farðu nú að sofa.“ Þú tekur í hönd mína og kreistir hana blítt.
Ég loka augunum. Það færist værð yfir mig. Ég hlusta eftir storminum en heyri ekki nema í golunni. Ég sofna.