Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Hún gekk hröðum skrefum yfir torgið. Hún var allt of sein. Hún hafði lofað vinkonu sinni að hjálpa henni við að þrífa íbúðina hennar. Hún var tveimur tímum of sein.

Hún hafði farið út á lífið kvöldið áður. Hún hafði bara ætlað að stoppa stutt. Hafði ætlað að fara snema í háttinn. Kvöldið varð hins vegar lengra en hún hafði ætlað. Hún kom seint heim. Hún fór seint að sofa. Hún vaknaði seint.

Hún skammaðist sín fyrir að svíkja vinkonu sína svona. Vinkonan hafði ekkert gert á hennar hlut sem verðskuldaði svona famkomu. Hún vonaði að vinkonan yrði ekki reið út í hana. Hún vonaði að sér yrði fyrirgefið.

Hún gekk hröðum skrefum yfir torgið. Hún var allt of sein. Hún vissi ekki að vinkona hennar hafði einnig farið út á lífið kvöldið áður. Hún hafði einnig farið seint að sofa. Hún var enn sofandi.