Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Örsögur

Ytri mörk sólkerfisins

Ytri mörk sólkerfisins — Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson
Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

„Ég hlustaði á áhugaverðan þátt í útvarpinu í morgun,“ sagði Jóhanna við Daníel þar sem þau sátu í sófanum sötrandi púrtvín eftir að hafa svæft stelpurnar. „Þáttastjórnandinn fór út á götu og spurði fólk hvernig það myndi bregðast við því að vera boðin einstök ferð aðra leiðina út að ytri mörkum sólkerfisins.“

„Og?“ spurði Daníel án þess að líta upp frá garðræktartímaritinu sem hann var að lesa. „Hvernig brást fólk við?“

„Svörin voru misjöfn,“ svaraði Jóhanna. „Sum voru virkilega gagntekin en sumum fannst hugmyndin hreinlega móðgandi.“

„Ég myndi móðgast,“ sagði Daníel. „Þetta er smekklaus tillaga.“

„Ég get ímyndað mér það,“ sagði Jóhanna og starði brosandi út um stofugluggann og á trjáröðina við ytri mörk garðsins. „Ég tæki slaginn!“

„Hvað þá?“ spurði Daníel, lagði frá sér tímaritið og horfði í áttina til Jóhönnu. „Hvað um mig? Stelpurnar? Og rósirnar?“

„Hafðu engar áhyggjur!“ svaraði Jóhanna og mætti augnaráði Daníels. „Það er nóg af einhleypum konum í landinu sem myndu glaðar gerast stjúpmæður stelpnanna og rósanna. Ferð að ytri mörkum sólkerfisins er hins vegar einstakt tækifæri.“

Börkur er áhugasamur sögumaður með næmt auga fyrir sérstökum sögupersónum, fyndnum samtölum og lifandi umhverfislýsingum. Skrif Barkar flokkast að mestu leyti undir raunsæisstefnu og sögurnar hans eru oftar en ekki byggðar á sönnum atvikum í lífi höfundarins. Þó sögurnar innihaldi fjölmörg sannleikskorn þá eru þau rækilega blönduð skáldskap sem vekur upp forvitni lesandans um það hvar mörkin liggi milli raunveruleika og skáldskapar.

https://www.borkur.net/