Að sitja á strák sínum


Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

Þegar háttvirti fyrirlesarinn hafði lokið máli sínu fann ég mig knúinn til þess að gera athugasemd. Ræðan hans hafði verið gjörsamlega út úr kú — innihaldið ekkert nema merkingarlaust froðusnakk. Aumingja karlinn var greinilega úr takt við raunveruleikann og kirfilega lokaður inni í sínum fílabeinsturni.

Ég var kominn á fremsta hlunn með að kveða mér máls þegar mér varð hugsað til þess að ég hafði fyrir skömmu lofað sjálfum mér að skipta mér ekki að því sem kæmi mér ekki beint við. Í þessu tilfelli hefði það lítið upp á sig að gera athugasemd. Fyrirlesarinn tæki henni að öllum líkindum eins og gæs vatnsgusu.

Ég hélt aftur af mér. Stundum er best að sitja á strák sínum. Það einfaldar málin.