Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Smásögur

Aftur í heimahagann

Aftur í heimahagann — Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson
Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

Ég lít út um gluggann og inn í gráan vetrardag. Dökk ský hanga lágt á himnafestingunni, en þessa stundina kemur hvorki rigning né snjór úr lofti. Um akbrautina utan gluggans, aka bílar fram hjá í samfelldri bunu og kasta skítugu slabbi upp á gangstéttirnar.

Ég er í stórborginni. Ég er í Reykjavík. Það veit ég fyrir víst. Ég hef verið hér um dálítið skeið. Ég hef dvalið hér vikum saman, mánuðum, eða jafnvel árum. Ég veit það ekki með vissu.

Ég lít í átt frá glugganum og rannsaka umhverfi mitt. Beint fyrir framan mig, í hinum enda herbergisins, er kommóða. Við hennar hlið er rúm, snyrtilega uppábúið hvítu teppi. Veggirnir allt í kring eru einnig hvítir. Inni í mínum litla heimi er allt hreint og hvítt, en þar fyrir utan ræður grámyglan ríkjum. Hvað hefur orðið um alla liti lífs míns? Grasið græna, bláan himininn, gulu blómin…

Ég lít á hendur mínar, á gamalt hrukkótt skinnið. Erfiði lífsins hefur tekið sinn toll. Ég er ekki lengur sterki bóndinn sem ég áður var. Ég kreppi hnefana og slaka svo á þeim aftur. Það leynist ennþá styrkur í líkamanum. Ég legg lófana á stólarmana, ýti mér upp og geng í hægðum mínum þvert yfir herbergið.

Ég strýk yfir kommóðuna. Eins og hendur mínar þá hefur gamall viðurinn látið á sjá. Ég loka augunum og geng inn í vinnuskúrinn þar sem hann faðir minn er að pússa við. Ég fylgist með honum tímunum saman þar sem hann umbreytir hráum efniviðinum í þessa fallegu kommóðu. Fyrir tíu ára guttann sem ég er, þá virðist handverkið eins og galdur.

Ég opna augun og lít yfir ljósmyndasafnið sem breiðir úr sér ofan á kommóðunni. Ég tek upp einn rammann og held honum í skjálfandi höndunum. Þarna erum við, saman fyrir utan bæinn okkar, ung og brosandi. Ég er í gráum jakkafötum og rjómahvítri skyrtu. Þú ert í bláum kjól með hvíta svuntu. Ég veit að kjóllinn er blár, jafnvel þótt ljósmyndin sé svarthvít. Ég keypti hann í kaupfélaginu haustið eftir að við giftum okkur. Hann var fyrsta gjöfin sem ég gaf þér sem eiginkonu, manstu?

Myndin er tekin á fyrsta brúðkaupsafmælinu okkar. Ljósmyndarinn er danskur. Hann er á ferðalagi um eyjuna, festandi íslenskt sveitalíf á filmu og stoppar við bæinn okkar, ef til vill fyrir tilviljun, ef til vill af ásettu ráði.

„Hvers vegna bjóðum við ykkur ekki til smá veislu í tilefni dagsins?“ spyrð þú túlk ljósmyndarans. „Ég ætla að baka pönnukökur og hella upp á nýtt kaffi. Í dag höldum við upp á fyrsta brúðkaupsafmælið okkar. Við giftum okkur í fyrra. Nákvæmlega á þessum degi.“

Á meðan við borðum talar þú linnulaust um lífið við fjörðinn, landslagið, fólkið, veðrið, siðina.

„Þið verðið að líta við hjá Snjólfi,“ segir þú. „Hann er kynlegur kvistur, gamall einbúi… Ef þið farið yfir hálsinn þarna og niður í dalinn hinum megin, þá gætuð þið komið auga á villt hreindýr… Þið eruð heppnir að hann blæs úr norðvestri í dag. Það er kannski í kaldari kantinum en lítið á bláan himininn! Hugsið ykkur ef hann blési úr suðaustri. Það væri hlýrra, en tvímælalaust rigning… Stóri steinninn þarna við veginn er stærsta álfabyggðin við fjörðinn. Vegagerðarmennirnir þorðu ekki að snerta hann. Þess vegna tekur vegurinn svona stóran sveig fram hjá honum…“

Aumingja túlkurinn hefur tæplega rúm til að bíta í pönnukökuna sína, en ljósmyndarinn hlýtur að virða frumkvæði þitt, því hann sendir okkur myndina alla leiðina frá Kaupmannahöfn sem þakklætisvott.

Ég legg rammann frá mér á kommóðuna, sný mér við og held til baka þvert yfir gólfið. Það situr ungur maður í næsta stól við minn. Hann lítur til mín og brosir. Hann er í gráum jakkafötum og hvítri skyrtu. Ég er ekki frá því að hann líti út næstum eins og ég á ljósmynd danska ljósmyndarans. Hann er eins og draugur sjálfs míns, í heimsókn frá liðnum tíma.

Ég geng yfir til hans, hægt og rólega, eitt skref í einu. Þegar ég kemst á leiðarenda sný ég mér við, legg hendurnar varlega á arma stólsins og læt mig síga niður í sætið.

„Og hverra manna ert þú, ungi maður?“ spyr ég og sný mér í átt að unga manninum.

„Afi, þetta er ég, Emil,“ svarar hann. „Sonur Sóleyjar.“

Ég loka augunum og sé Sóleyju hlaupandi um grösugar hlíðarnar ofan við bæinn. Hún er fimm ára. Það er vor. Ég er að gera við gaddavírsgirðingu sem skemmdist í fannfergi vetrarins—vetrarins 1944 til 1945. Snjóinn tók seint upp. Heybirgðirnar kláruðust næstum. Rauðka dó þann veturinn, ljósbrúna ærin með ryðrauða blettinn á enninu. Í gegnum árin hafði hún verið uppspretta hraustra og sterkra lamba.

Sóley hleypur til mín brosandi. Ég sé gleðina skína úr augum hennar. Hún er saklaus og ómeðvituð um afleiðingar vetrarharðindanna.

„Sjáðu, pabbi, ég fann sóley,“ segir hún og hlær. „Blómið mitt. En nú er það þitt. Ég gef þér það.“

„Kærar þakkir!“ Ég tek við blóminu og færi það upp að brjóstinu þar sem það límist við lopapeysuna. „Þú veist ég á nú þegar fallegustu sóleyna í öllum heiminum.“

„Ég veit,“ svarar Sóley og ypptir öxlum, um leið og hún snýr sér við og heldur leik sínum áfram, hoppandi á milli steina og þúfna. Hún hleypur um, bankar á steina og heilsar huldufólkinu sem þar býr.

Ég opna augun og lít á unga manninn sem situr við hlið mér. Svo þetta er sonur hennar Sóleyjar litlu. Ég get ímyndað mér það. Hann hefur sömu augun og sama brosið.

„Hún er nú farin, hún amma þín,“ segi ég við dóttursoninn. „Innan skamms mun ég halda af stað austur til þess að vera við jarðarförina.“

„En… jarðarför ömmu var fyrir mánuði síðan,“ svarar ungi maðurinn.

Ég loka augunum og sé litlu kirkjuna ofan við bæinn. Ég er að slá flötina framan við guðshúsið. Íslenski fáninn bærist í haustgolunni. Það er flaggað í hálfa stöng. Ég er að gera kirkjuna klára fyrir jarðarför. Ég lít niður eftir túninu í átt að bænum og hugsa til þín. Þú ert í eldhúsinu, önnum kafin við að baka pönnukökur og hella upp á kaffi. Með sorg í hjarta ert þú að undirbúa erfidrykkju. Úr kirkjugarðinum heyrist moksturshljóð. Það er verið að taka gröf.

Ég man daginn greinilega. Hann faðir þinn heldur af stað til að gæta neta úti á firðinum. Það er rólegt haustveður í lofti. Ég geri mig kláran til að fara með út á fjörðinn en er kallaður til að hjálpa Snjólfi gamla við að koma síðasta heyinu í hús. „Farðu og hjálpaðu Snjólfi gamla,“ segir faðir þinn. „Ég sé um netin.“ Um miðjan dag tekur upp sterkan vind og það byrjar að rigna. Enginn veit nákvæmlega hvað gerist úti á firðinum en faðir þinn nær ekki aftur í land.

Ég opna augun og lít út um gluggann. Ég er í Reykjavík. Það snjóar. Hægfara bílaumferð líður um götuna handan glersins. Löng bílaröð sniglast áfram. Bílstjórarnir virðast eirðarlausir og ég skynja spennu í loftinu. Þeir horfa óþolinmóðir fram fyrir sig og vilja að öllum líkindum ná áfangastað hraðar en veður leyfir.

Ég sný höfðinu frá glugganum og virði fyrir mér hvítmálað herbergið. Það situr ungur maður í stólnum við hliðina á mér. Ljóst hárið, blá augun og vingjarnlegt brosið minna á mig sjálfan þegar ég var á hans aldri.

„Og hverra manna ert þú, ungi maður?“ spyr ég til þess að svala forvitni minni.

„Ég er Emil. Barnabarn þitt. Sonur Sóleyjar.“

Ég loka augunum. Ég stend á nýsleginni flötinni fyrir framan kirkjuna. Það er sumar. Sólin skín og íslenski fáninn blaktir letilega við hún í hægum andvaranum. Sóley og ég göngum hönd í hönd í átt til kirkju. Ég er í sunnudagsfötunum og hún er í hvítum kjól. Við lítum hvort á annað og brosum. Ég á bágt með að trúa því hversu hratt hún hefur umbreyst, frá því að vera ung stúlka sem hoppar á milli þúfna í brekkunni fyrir ofan bæinn, yfir í að vera ung kona sem er við það að ganga inn kirkjugólfið—inn í nýjan kafla lífsins—inn í hjónaband. Ég opna augun og virði dótturson minn fyrir mér.

„Það er fallegt af þér að koma í heimsókn,“ segi ég við hann. „Kemur þú langt að?“

„Nei, ég bý í Vesturbænum. Það er bara nokkurra mínútna akstur.“

„Og hún móðir þín? Hvaða fréttir getur þú sagt mér af henni?“

„Hún skrapp bara út á ganginn til að tala við hjúkrunarfræðinginn. Hún kemur aftur eftir smástund.“

Það er gott að heyra. Það er gott að hafa Sóleyju litlu nálægt. Sérstaklega núna þegar þú hefur ferðast yfir móðuna miklu. Það er gott að geta séð kunnuglegt andlit.

„Hún amma þín er nú farin,“ segi ég við Emil. „Innan skamms mun ég leggja í hann, austur, til að vera viðstaddur jarðarförina.“

Emil brosir og kinkar kolli. Ef til vill er það þess vegna sem hann er í heimsókn. Hann mun keyra mig austur á eftir. Ég hlakka til að berja sveitina augum. Ég hlakka til að snúa til baka og vera þér við hlið í kyrrðinni við fjörðinn.

Ég loka augunum og stend úti á túni, með orf og ljá í höndum. Ég er að slá gras undir heitri ágústsólinni. Ég lít upp í átt að bænum og sé hvar þú kemur gangandi yfir túnið.

„Hvílíkur dýrðardagur, elskan mín!“ segir þú þegar þú nálgast. „Ég er með hádegismatinn. Brauð, pönnukökur og kaffi.“

Ég legg ljáinn frá mér og heilsa þér með kossi. Við setjumst niður hjá stóra steinunum, miðja vegu á túninu, og ég tek til matar míns. Ég er reglulega svangur eftir erfiði morgunsins. Á meðan ég geri brauðinu og kaffinu skil, þá talar þú um efnið sem þú ætlar að fá úr kaupfélaginu í haust—um gluggatjöldin sem þú ætlar að skipta út. Áður en langt um líður hef ég lokið við matinn og kyssi þig í kveðjuskyni áður en þú heldur aftur uppeftir til bæjarins. Tíminn má ei fara til spillis. Það er ekki víst hversu lengi þurrkurinn varir. Ég tek upp ljáinn og sný mér aftur að slætti.

Ég opna augun. Sóley situr í stólnum við hlið mér. Hún er ekki litla stúlkan sem hún áður var heldur fullorðin kona. Ungur maður stendur við hlið hennar. Hann minnir mig á sjálfan mig þegar ég var á hans aldri. Hann minnir mig á Sóleyju þegar hún var á hans aldri. Þetta hlýtur að vera sonur hennar, hann Emil.

„Það er kominn tími til að halda á braut,“ segi ég. „Það er kominn tími fyrir mig að halda aftur í sveitina.“

Þau brosa bæði til mín og Sóley gælir við gamla, æðabera hönd mína. Ég brosi til baka og loka augunum. Ég finn kyrrðina færast yfir mig. Ég er á leiðinni til baka—aftur í heimahagann.

Börkur er áhugasamur sögumaður með næmt auga fyrir sérstökum sögupersónum, fyndnum samtölum og lifandi umhverfislýsingum. Skrif Barkar flokkast að mestu leyti undir raunsæisstefnu og sögurnar hans eru oftar en ekki byggðar á sönnum atvikum í lífi höfundarins. Þó sögurnar innihaldi fjölmörg sannleikskorn þá eru þau rækilega blönduð skáldskap sem vekur upp forvitni lesandans um það hvar mörkin liggi milli raunveruleika og skáldskapar.

https://www.borkur.net/