Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Smásögur

Heildarhugmyndin

Heildarhugmyndin - Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson.
Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson.

Menningarmálaráðherrann lokar augunum og setur sýndarveruleikabúnaðinn á höfuðið. Þegar hann opnar augun aftur er hann staddur á feikistórri ísbreiðu. Vegvísir úr timbri með áletruninni Norðurpóllinn hefur verið negldur niður í klakann. Ráðherrann fylgir bendingu vegvísisins eftir með augunum uns þau stöðvast við hvíta veru sem hrærist á ísnum, næstum ósýnileg í hvítum bakgrunninum. Hann notar stýripinna sýndarveruleikabúnaðarins til þess að færa sig nær og sér að um ísbjörn er að ræða—konung Norðurheimskautsins.

Ráðherrann dáist að stóru og sterku dýrinu. Hann er mikið fyrir rándýr. Það er þannig sem hann vill láta líta á sig sem stjórnmálamann. Hann vill að aðrir hræðist hann—og ekki aðeins fyrir þær sakir að mamma hans er áhrifamikil í forystu flokksins.

Hvítabjörninn gengur fram og til baka á jöklinum. Hann tekur fimm skref fram á við, stoppar og sveiflar hægri framloppunni út í loftið, eins og hann sé að reyna að slá ímyndaðan tennisbolta. Hann stynur, snýr sér við og gengur fimm skref til baka, þangað sem hann hafði staðið áður. Hann snýr sér við á ný, tekur fimm skref fram á við, stoppar, sveiflar hægri framloppunni út í loftið, stynur, snýr sér við, tekur fimm skref til baka…

Ráðherrann starir agndofa á ísbjörninn ganga fram og til baka, sí ofan í æ, og endurtaka sömu loppusveiflu og stunu í hvert sinn. Hann fylgir dýrinu eftir með því að hreyfa höfuðið frá vinstri til hægri, til vinstri til hægri, til vinstri til hægri… eins og hann sé að fylgja eftir pendúlhreyfingu dávalds… til vinstri til hægri, til vinstri til hægri, til vinstri… hann finnur augnlokin þyngjast… til vinstri til hægri, til vinstri til hægri…

„Komdu mér í burtu héðan!“ öskrar svo ráðherrann allt í einu, um leið og hann snýr höfðinu frá ísbirninum, og leggur hendurnar yfir heyrnartól sýndarveruleikabúnaðarins, eins og hann vilji afmá tilvist stynjandi dýrsins.

Menningarmálaráðherrann sýnist hann fljóta upp til himins og fljúga í rólegheitum suður yfir hnöttinn, yfir Evrópu, þvert yfir Sahara-eyðimörkina og er síðan hlammað niður í austurhluta afríska meginlandsins.

Ráðherrann lítur yfir grassléttuna. Sólin skín hátt á himni. Einstaka smátré og runnar eru á víð og dreif um sjóndeildarhringinn. Í fjarska sér hann hóp grasbíta gæða sér á þurrum gróðrinum. Hann rifjar upp grunnskólalandafræðina—eða var það líffræðin—og getur sér til um að þetta sé hjörð gasella. Álengdar kemur hann svo auga á stóran, doppóttan kött sem læðist í áttina að gasellunum. Þennan kött þekkir hann. Hann er ekki í neinum vafa um að þetta sé blettatígur.

Skyndilega stekkur tígurinn fram á við og byrjar að hlaupa, en stoppar síðan jafn skyndilega eftir nokkra metra, eins og hann hafi hlaupið á ósýnilegan vegg. Dýrið sest niður, nagar aðra framloppuna og horfir í átt til gasellanna. Það stendur síðan upp aftur og trítlar léttfætt til baka á upphafsreit þar sem það leggst niður, leggur hökuna á framloppurnar og tár rennur niður aðra kinnina.

Menningarmálaráðherrann tekur af sér sýndarveruleikabúnaðinn og lítur yfir til Yvette, forstöðukonu hugmyndaþróunar hjá Studio Zero. Hún stendur hnarreist í nokkurra metra fjarlægð með krosslagðar hendur og stolt bros á vörum.

„Hvað í andskotanum er þetta?“ öskrar ráðherrann og hristir sýndarveruleikabúnaðinn framan í Yvette til að leggja áherslu á orð sín. „Hvað var þetta sem ég sá?“

„Tja, þetta er það sem þú baðst okkur um,“ svarar Yvette og brosið er horfið af vörum hennar. „Þetta er fyrsta útgáfa af heildarhugmyndinni að sýndarveruleikadýragarði. Eins og þú væntanlega veist, þá stóð í verklýsingunni að við ættum að þróa heildarhugmynd að sýndarveruleikadýragarði þar sem fólk gæti fylgst með dýrum í þeirra náttúrulega umhverfi en á sama tíma væri blandað inn í upplifunina helstu þáttum úr menningararfi okkar sem tengjast dýragörðum í borgum og bæjum.“

„Ég veit fullkomlega vel hvað ég bað um,“ urrar ráðherrann í gegnum samanbitnar tennurnar. „Þetta er ekki það sem ég bað um.“

Ráðherrann veit nákvæmlega hvað hann bað um. Hann skrifaði sjálfur fyrsta uppdrátt að verklýsingunni, þótt móðir hans hefði átt hugmyndina og hann fengið yngri starfsmenn ráðuneytisins til þess að útfæra hana og bæta öllu tæknidótinu inn í.

„Getur þú útskýrt það nánar?“ spyr Yvette.

„Til dæmis, af hverju hegða dýrin sér svona undarlega? Ekki man ég eftir að hafa beðið um það. Og það er vegna þess að ég bað ekki um það.“

„Ég skil,“ segir Yvette og kinkar kolli brosandi, líkt og þolinmóður grunnskólakennari. „Hvernig væri ef við tækjum eitt skref til baka. Leyfðu mér að útskýra aðferðafræði okkar til hlítar. Eins og þú sást þá höfum við fylgt verklýsingunni bókstaflega. Náttúrulegt umhverfi dýranna er upphafspunktur og bakgrunnur í hönnuninni. Þegar það kom að menningararfi dýragarða þá vantaði öll smáatriði í verklýsinguna og við þurftum að velja þau atriði sem okkur fannst hvað mest einkennandi. Annars vegar völdum við aflokuð rými og hins vegar andlega streitu. Þegar öllu er blandað saman þá er útkoman sú að dýrin koma fyrir í sínu náttúrulega umhverfi en hreyfigeta þeirra er takmörkuð af ósýnilegum búrum. Öll dýrin eru stressuð, taugaveikluð, og í fullri hreinskilni þjást þau að meira eða minna leyti af vitglöpum—líkt og gengur og gerist í okkar hefðbundnu dýragörðum í borgum og bæjum um allan heim.“

„Hvers vegna í ósköpunum myndi einhvern langa að sjá sýndarveruleika geðbilaðra dýra?“ hrópar ráðherrann og undirstrikar orð sín með mano a borsa handahreyfingu, sem hann hefur vafalítið lært af kvikmyndunum um Guðfaðirinn, en er gersamlega úr takt við hans eigin persónuleika.

„Okkar útgangspunktur er að fólk myndi gera það af sömu ástæðu og það fer að sjá alvöru geðbiluð dýr í alvöru dýragörðum,“ svarar Yvette yfirveguð og setur hendur á mjaðmir.

„En af hverju vitglöp?“ spyr ráðherrann í hátíðnitón, eins og hann sé að bresta í grát.

„Sko, í verklýsingunni vorum við beðin um að viðhalda menningararfi okkar frá áralangri tilvist dýragarða í mannabyggðum,“ svarar Yvette viss í sinni sök. „Eftir viðamikla heimildarvinnu og umræðu milli hönnuða okkar og mannfræðinga höfum við komist að þeirri niðurstöðu að þetta sé best gert með aflokuðum rýmum og geðsjúkdómum.“

„Nei, nei, nei,“ öskrar ráðherrann. „Það er ekki satt! Það er ekki það sem ég var að leitast eftir. Ég vildi… Ég vildi sjá börn klappa dýrum… Hamingjusöm dýr… Vinalega ljónatemjara… Könnuði… Það er menningararfur okkar… Aflokuð rými og geðsjúkdómar… Það er ekki menning! Það er viðbjóður. Það er bara…“

Menningarmálaráðherrann klárar ekki setninguna heldur hendir sýndarveruleikabúnaðinum í gólfið og strunsar út úr herberginu, skellandi hurðum á eftir sér.

Börkur er áhugasamur sögumaður með næmt auga fyrir sérstökum sögupersónum, fyndnum samtölum og lifandi umhverfislýsingum. Skrif Barkar flokkast að mestu leyti undir raunsæisstefnu og sögurnar hans eru oftar en ekki byggðar á sönnum atvikum í lífi höfundarins. Þó sögurnar innihaldi fjölmörg sannleikskorn þá eru þau rækilega blönduð skáldskap sem vekur upp forvitni lesandans um það hvar mörkin liggi milli raunveruleika og skáldskapar.

https://www.borkur.net/