Eftir kvöldmatinn á bændagistingunni ákváðum við að fá okkur göngutúr um landareignina áður en að við færum í háttinn. Við gengum eftir malarstígum, hönd í hönd, í gegnum svartnættið, dáðumst að stjörnubjörtum himninum og drukkum inn næturþögnina.
Þegar við nálguðumst hesthúsin hlupu tveir litlir hundar geltandi til móts við okkur. Ég fann hvernig líkamar okkar beggja stífnuðu, hjörtun slógu hraðar og við hikuðum við að halda göngu okkar áfram eftir götunni.
„Ussss,“ hvíslaði ég í átt til hlaupandi hundanna og rétti fram handlegginn með lófann opinn.
Hundarnir stoppuðu en tóku upp varnarstöðu á miðju bílastæðinu fyrir framan hesthúsin og ýlfruðu í áttina til okkar. Þó þeir væru enn í stífari kantinum þá fann ég hvernig líkamar okkar slöknuðu þegar ástandið róaðist.
„Vá, þetta var magnað,“ sagðir þú í lágum róm eftir að við höfðum gengið framhjá hesthúsunum og inn á annan veg sem lá til baka í átt að gistihúsinu. „Hvernig þú gast róað hundana!“
„Eh,“ játaði ég. „Ég var ekki beint að róa hundana.“
„Ó,“ sagðir þú og grófst höfuðið í brjósti mér. „Svo þú varst að róa mig. Það virkaði líka!“
„Ég var ekki heldur að reyna að róa þig,“ hugsaði ég en ákvað að láta það liggja milli hluta að hegðun mín hafði að öllu leyti verið innhverf.