Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

„Hvað borða fiskar?“

Hvað borða fiskar? — Myndskreyting Yana Volkovich
Myndskreyting Yana Volkovich

Ég sneri mér við í sætinu og leit í áttina til skrifstofudyranna þar sem vinnufélagi minn stóð og horfði á mig spurnaraugum. Ég starði á hann og hikaði við að svara. Spurningin hafði komið mér í opna skjöldu. Hvað borða fiskar? Var þetta einhvers konar þraut? Var þetta orðaleikur? Var þetta spurning um mataræði fiska almennt? Þó svo að spurningin væri í sjálfu sér afar einföld þá gat ég engan veginn áttað mig á henni. Hvað gat hugsanlega vakað fyrir vinnufélaganum? Ég var helst á þeirri skoðun að um einhvers konar furðulegan brandara væri að ræða.

„Þú ert frá Íslandi, er það ekki?“ spurði vinnufélaginn eftir að hafa gefist upp á að bíða eftir svari við upphaflegu spurningunni.

„Jú,“ svaraði ég en var ekki viss um það hvernig sú staðreynd tengdist málinu. Þetta var þá líklega ekki brandari. Ekki nema þjóðerni mitt væri hluti af spauginu. Ég var efins.

„Þá hlýtur þú að vita eitthvað um mataræði fiska,“ hélt vinnufélaginn fram. Þetta gat ekki verið brandari. Vinnufélaginn var of alvarlegur á svipinn.

„Það fer held ég eftir því um hvaða fisktegund ræðir,“ svaraði ég spekingslega en jafnframt heldur ósannfærandi. „Ég held að sumir fiskar borði svif og aðrir kannski rækjur. Annars verð ég að viðurkenna að ég veit afskaplega lítið um mataræði fiska. Ég er meira fyrir það að borða fisk heldur en að spá í það hvað fiskar borða.“

Ég var ekkert að ýkja með þekkingarleysi mitt um mataræði fiska. Ef ég hafði einhvern tímann lært um mataræði fiska í líffræði á mínum yngri árum þá var ég svo sannarlega löngu búinn að gleyma þeim fræðum. Það var þó ekki minnisleysi mitt sem kom mér mest á óvart þessa stundina. Ég var enn að velta því fyrir mér hvað gæti hugsanlega vakað fyrir vinnufélaga mínum. Þar sem við vorum báðir doktorsnemar í heldur líflausum fræðum — ég í tölvunarfræði og hann í rökfræði — þá var mataræði fiska ekki beinlínis hefðbundið umræðuefni okkar á milli.

„En svona fiskar í búrum?“ spurði vinnufélaginn. „Gullfiskar. Hvað borða þeir?“

„Fiskafóður. Geri ég ráð fyrir,“ svaraði ég og fannst ég svara spurningunni á heldur ósannfærandi hátt. Sér í lagi sökum þess hversu augljóst svarið var. Rökfræðingurinn ætti ekki að þurfa að fá hjálp frá tölvunarfræðingnum til þess að komast að þessari niðurstöðu.

„Það hélt ég einnig,“ svaraði vinnufélaginn og kinkaði kolli.

Við þögðum. Vinnufélaginn starði upp í loftið og virtist í þungum þönkum. Ég var forvitinn um að vita hvað það var sem leiddi hann út á þessar brautir. Hvað varð til þess að umræður okkar urðu allt í einu svona líflegar. Eða líffræðilegar, réttara sagt.

„Hví spyrðu annars?“ spurði ég til þess að svala forvitni minni.

„Stelpan sem ég leigi með fór í nokkurra daga ferðalag og skildi eftir miða til þess að minna mig á að gefa fiskunum hennar að borða. Hún sagði hins vegar ekkert um það hvað ég ætti að gefa þeim að borða, hvenær, eða hversu mikið. Ég er því hálf-ráðþrota.“

„Ertu viss um að það sé ekki fiskafóður í nánd við búrið?“ spurði ég heldur vantrúaður á að vandamál vinnufélagans væri eins flókið og hann vildi vera láta.

„Ég leitaði en fann ekki neitt,“ svaraði vinnufélaginn og horfði dreyminn út í loftið eins og hann væri að fara yfir það í huganum hvernig hann hafði leitað árangurslaust að fóðrinu. „Hvernig lítur annars fiskafóður út?“

Þar sem ég hafði aldrei átt gullfiska þá var ég enginn kunnáttumaður í þessum efnum. Ég minntist þess þó að hafa séð æskuvin minn mylja einhvers konar græn lauf ofan í fiskana sína í gamla daga.

„Eftir því sem ég veit best þá er það eins og mulin græn lauf í einhvers konar litlum sívölum stauk, eða eitthvað svoleiðis.“

„Það hélt ég einnig. Ég fann hins vegar ekkert slíkt í nánd við búrið.“

Það kom mér á óvart hversu ráðþrota vinnufélaginn virtist gagnvart þessu vandamáli. Ég þekkti hann betur sem einstakan snilling sem gat fundið svar við hverri einustu spurningu sem kom upp í tengslum við stærðfræðilega rökfræði. Nú virtist hann gersamlega ráðþrota. Ég ákvað því að halda áfram að hjálpa honum með því að benda honum á hið augljósa.

„Geturðu ekki bara farið í gæludýraverslun og spurt þá þar?“

„Góður punktur,“ svaraði vinnufélaginn og það virtist létta yfir honum í skamma stund áður en vonleysissvipurinn helltist yfir hann á ný. „Veistu hvar ég get fundið gæludýraverslun?“

Ég hugsaði mig um í stundarkorn. Mig rak ekki minni í að hafa nokkru sinni komið auga á gæludýraverslun hér í Amsterdam á þeim þremur árum sem ég hafði búið í borginni. Ég hafði þó aldrei leitað.

„Nei. Ég man ekki eftir að hafa séð slíka verslun. Eins og ég segi þá hef ég afar litla reynslu og þekkingu í þessum efnum. Þegar fiskar eru annars vegar þá er ég vanalega í hlutverki þess sem borðar.“

„Ég geri ráð fyrir að ef ég reyni að nýta mér þína reynslu í þessum efnum þá væri réttast hjá mér að borða fiskana.“

Vinnufélaginn brosti. Hann var greinilega ekkert allt of áhyggjufullur yfir því að hafa ekki fundið fullnægjandi lausn á vandamáli sínu.

„Þú ert rökfræðingurinn,“ svaraði ég. „Ég mæli því ekki á móti þessari röksemdafærslu þinni. Þú ættir þó kannski að gúgla gæludýraverslun áður en þú eldar fiskinn.“

„Takk. Ég reyni að finna eitthvað út úr þessu. Í versta falli gæti ég dottið niður á góða gullfiskauppskrift.“

*****

„Hvað er þetta?“

Ég sneri mér við í sætinu og leit í áttina til skrifstofudyranna þar sem vinnufélagi minn stóð skælbrosandi með sívalningslaga stauk í annarri hönd. Ég gat ekki betur séð en að um væri að ræða stauk með þurrkaðri steinselju.

„Steinselja?“ spurði ég sakleysislega.

„Fiskafóður?“ spurði vinnufélaginn á móti og rétti mér staukinn.

„Nei. Steinselja,“ svaraði ég öruggur með mig eftir að hafa lesið á staukinn.

„Ertu viss um að þetta sé ekki fiskafóður?“ spurði vinnufélaginn og brosið hvarf af vörum hans.

„Já, ég er handviss um það. Þetta er krydd til þess að setja yfir fiskinn áður en hann fer í ofninn. Ekki fóður til þess að gefa honum að borða.“

„En ef maður gæfi fisknum þetta að borða. Myndi það skaða hann?“

„Ég er ekki viss. Ég veit hins vegar að steinselja er tilvalin ef þú ætlar að baka fiskinn í ofni. Gafstu fiskunum steinselju?“

„Já,“ svaraði vinnufélaginn heldur skömmustulega.

„Hvers vegna í ósköpunum?“

Ég gat ekki staðist það að hlæja að óförum vinnufélagans. Ég reyndi þó að halda aftur af mér þar sem honum virtist ekki hlátur í huga.

„Ég fór heim í gær með lýsingu þína á fiskafóðri í huganum. Þegar ég kom heim leitaði ég að stauk fullum af grænum þurrkuðum laufum. Þetta var það eina sem ég fann sem passaði við skilgreininguna.“

„Fannstu steinseljuna í námunda við fiskabúrið?“

„Tja, ekki beint við fiskabúrið, heldur inni í eldhússkáp.“

„Kannski milli saltsins og piparsins?“ spurði ég og gat ekki haldið aftur af kvikindislegu glotti.

„Já. Einmitt. Í sömu hillu.“

„Þér hefur ekki dottið í hug að fyrst að staukurinn var í sömu hillu og saltið og piparinn að það gæti verið um einhvers konar krydd að ræða. Krydd sem var ætlað til matargerðar.“

„Nei, raunar flaug það mér ekki í hug. Ég geri ráð fyrir að ég hafi verið of upptekinn við að leita að fiskafóðri til þess að spá í það.“

„En þú gafst sem sagt fiskunum að borða úr stauknum?“

„Já,“ svaraði vinnufélaginn og var heldur flóttalegur til augnanna. Hann virtist vera að átta sig betur á því hvers konar axarskaft hann hafði gert.

„Og borðuðu þeir steinseljuna?“

„Eins og sælgæti,“ svaraði vinnufélaginn og það létti yfir honum eins og hann væri að rifja upp gleðistund úr fortíðinni.

„Eru þeir enn á lífi?“

„Já, þeir voru það að minnsta kosti þegar ég fór að heiman í morgun.“

„Það getur þá verið að steinselja sé fínasta fiskafóður,“ sagði ég hughreystandi. „Ég myndi nú samt gúgla „fiskabúð“ ef svo færi að langtímaáhrif steinseljuneyslu gullfiska væru ekki eins jákvæð og lítur út við fyrstu sýn.“

„Ég hef það í huga. Takk fyrir góð ráð.“

Við það hvarf vinnufélaginn út af skrifstofunni með steinseljustaukinn í annarri hönd.

*****

„Er eðlilegt að fiskar skipti um lit?“

Ég sneri mér við. Vinnufélaginn var mættur í dyragættina þriðja daginn í röð með fisk-tengda spurningu á vörum. Þó ég væri orðinn ýmsu vanur varðandi spurningar félagans þá var þessi spurning sú skrýtnasta.

„Ha?“ spurði ég til þess að fullvissa mig um það að ég hafði heyrt rétt.

„Er eðlilegt að fiskar skipti um lit?“

Ég hafði að öllum líkindum heyrt rétt. Að minnsta kosti hafði ég heyrt hið sama tvisvar í röð. Mér varð hugsað til steinseljunnar og gat vart haldið aftur af brosi þegar ég ímyndaði mér frostpinnagræna gullfiska synda fram og til baka í búrinu sínu.

„Já, ég held að sumir fiskar geti aðlagað sig að umhverfinu til þess að forðast að vera étnir af öðrum sjávardýrum,“ svaraði ég spekingslegur á svip en hafði þó grun um að spurningin væri ekki almenns eðlis. Ég gat þó ekki setið á mér og bætti við. „Sem dæmi má geta þess að skata og aðrir flatfiskar geta skipt um lit til þess að líta eins út og sjávarbotninn.“

„Ég meina gullfiskar. Er eðliegt að þeir skipti um lit? Fari frá því að vera gulir yfir í það að vera grænir?“

„Hafa fiskarnir sem þú gafst steinseljuna skipt um lit?“ spurði ég jafnframt því sem ég reyndi að kæfa hlátur sem ólgaði í brjósti mínu. „Eru þeir orðnir grænir?“

„Já,“ svaraði vinnufélaginn og virtist heldur stressaður.

„En þeir eru sem sagt á lífi.“

„Já, en grænir.“

Ég varð að viðurkenna að þetta vandamál vinnufélaga míns hafði verið mér ofviða allt frá upphafi og hafði ekki einfaldast eftir því sem fram liðu stundir.

„Ég verð, satt best að segja, að viðurkenna að ég hef ekki næga reynslu af því að fóðra gullfiska á steinselju til að ég geti sagt til um það hvort þetta séu eðlileg viðbrögð. Ég get hins vegar staðfest að ofnbakaður fiskur með steinselju skiptir ekki um lit. Eða verður að minnsta kosti ekki grænn.“

*****

„Áttu Sipser?“

Ég sneri mér við. Vinnufélaginn var enn á ný mættur í dyragættina. Ég tók mér nokkrar sekúndur til þess að melta spurninguna. Hún var óeðlileg að því leyti að hún var ósköp eðlileg. Þetta var spurning sem hægt væri að ímynda sér að rökfræðinemi spyrði vinnufélaga sinn tölvunarfræðinginn. Þar sem ég var hins vegar orðinn svo vanur því undanfarið að heyra undarlegar spurningar frá vinnufélaganum þá hljómaði þessi spurning óeðlilega eðlileg.

„Þú meinar Introduction to the Theory of Computation?“ spurði ég til að vera viss um að ég hefði skilið spurninguna rétt og að ekki væri um að ræða einhver undarleg tengsl við mataræði eða umbreytingar gullfiska.

„Já, ég þarf að fletta upp einni skilgreiningu.“

Ég rétti honum bókina og sagði að hann gæti tekið hana með sér og skilað henni seinna. Hann þakkaði fyrir sig og hugðist snúa til baka á sína skrifstofu.

„Hvernig endaði þetta með fiskana?“ spurði ég áður en hann yfirgaf svæðið. „Lifðu þeir af steinseljuna?“

„Já, já,“ svaraði vinnufélaginn skömmustulega. „Þeir voru að vísu grænir í viku. Stelpan sem ég leigi með fékk sjokk þegar hún kom heim. Hún hélt ég hefði drepið fiskana og skipt þeim út.“

„En þeir jöfnuðu sig aftur?“

„Já, já. Þeir eru aftur gulir og sælir.“

„Spurðir þú hana út í fiskafóðrið?“

„Já,“ svaraði vinnufélaginn og leit flóttalega í kringum sig en virtist ekki líklegur til þess að orðlengja svarið.

„Og?“ spurði ég til þess að reyna að draga svarið upp úr honum.

„Málið var að staukurinn með fiskafóðrinu var ofan á miðanum sem hún skildi eftir. Ég hélt hins vegar að um kryddstauk væri að ræða og setti hann inn í ísskáp.“

„Ísskáp?“

„Já.“ svaraði vinnufélaginn skömmustulega. „Hvernig var það annars, ertu búinn að leiða út efri mörk flækjustigsins fyrir reikniritið sem þú varst að vinna að í síðasta mánuði?“

Vinnufélaginn var greinilega búinn að fá nóg af því að tala um fiska.

Smásagan Hvað borða fiskar? er hluti af smásagnasafninu 999 Erlendis.