Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

„Ég las áhugaverða grein í blaðinu í morgun,“ sagði Jóhanna við Daníel þar sem þau lágu á sendinni strönd Sardiníu og létu sólina þurrka sig eftir fyrsta Miðjarðarhafsbað dagsins. „Blaðamaðurinn fór út á götu og spurði fólk hvernig það myndi bregðast við því að vera boðin einstök ferð aðra leiðina út að ytri mörkum sólkerfisins.“

Katmandú og Kaiserslautern — Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson
Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

„Og?“ spurði Daníel án þess að líta upp frá golftímaritinu sem hann var að lesa. „Hvernig brást fólk við?“

„Svörin voru misjöfn,“ svaraði Jóhanna. „Sum voru virkilega gagntekin en sumum fannst hugmyndin hreinlega móðgandi.“

„Ég get ímyndað mér það,“ sagði Daníel. „Þetta er áleitin spurning. Hverju myndir þú svara?“

„Ég held ég myndi afþakka,“ svaraði Jóhanna og starði brosandi yfir hafflötinn í átt að sjóndeildarhringnum þar sem hann fléttaðist saman við bláan himininn. „Það er hellingur af stöðum hér á jörðinni sem ég á eftir að heimsækja. Til dæmis Katmandú.“

„Eða Kaiserslautern, ef út í það er farið,“ bætti Daníel við og lagði tímaritið frá sér á handklæðið um leið og hann fylgdi augnaráði Jóhönnu út að sjóndeildarhringnum.

„Já!“ sagði Jóhanna dreymin. „Katmandú og Kaiserslautern eru sannarlega dæmi um framandi staði sem mig langar til að berja augum áður en ég held af stað í átt til ytri marka sólkerfisins.“

Örsagan Katmandú og Kaiserslautern er hluti af örsagnasafninu 52 augnablik.