Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Smásögur

Kaupsýslumaðurinn sem gaf gítarinn sinn

Kaupsýslumaðurinn sem gaf gítarinn sinn — Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson
Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

„Señor Manuel Sánchez, viltu vinsamlega hafa samband við þjónustuborðið við hlið fimmtán,“ tilkynnti lítillega pirruð rödd í gegnum hátalarakerfið.

Mér varð litið til þjónustuborðsins við hlið númer fimmtán. Þar sat miðaldra kona og skimaði yfir biðsvæðið eins og fangavörður í turni sínum, í leit að einhverri hreyfingu sem gæti flokkast sem svar við kalli hennar. Enginn stóð upp. Enginn gaf sig fram.

Tíu sinnum, eða eitthvað álíka, hafði þessi Manuel verið beðinn um að gefa sig fram við starfsfólk flugfélagsins. Hvað var í gangi? Ég hafði í gegnum tíðina eytt talsverðum tíma í bið á flugvöllum, en mér hafði aldrei verið boðið að tala við starfsfólkið við hliðið. Að minnsta kosti ekki í gegnum hátalarakerfið. Satt best að segja skildi ég ekki hvers vegna sumt fólk þurfti að vera kallað upp að hliði áður en farið var að hleypa farþegum um borð. Hafði flugfélagið eitthvað meira við það að ræða varðandi bókunina? Voru viðskiptin ekki gengin í gegn? Farþegarnir voru að öllum líkindum þegar innritaðir í flugið. Var einhver ástæða til að skoða þá eitthvað frekar?

Ég skildi ekki heldur hvers vegna það gerðist svo oft að fólk mætti ekki tímanlega—hvers vegna nafn þeirra þurfti að vera endurtekið í sífellu. Voru tengsl þar á milli? Hafði fólk, sem kallað var að innritunarborðinu, ástæðu til þess að láta ekki sjá sig? Eða veitti ég ef til vill einungis því fólki athygli sem svaraði ekki og var því kallað upp hvað eftir annað? Ég hafði ekki hugmynd. Hegðun og atferli týndra flugfarþega var ekki á mínu sérsviði.

Ég teygði mig eftir Burberry-leðurskjalatöskunni og tók upp Moleskine-skrifblokkina mína ásamt uppáhalds Montblanc-pennanum mínum. Ég ákvað að nota tímann vel og útbúa lista yfir það sem ég þyrfti að gera þegar ég kæmi aftur upp í háskóla. Ég ætti að skrifa stutta skýrslu fyrir vinnufélagana þar sem ég deildi reynslu minni af ráðstefnunni. Ég þyrfti að gaumgæfa greinina eftir rannsóknarteymið frá Cornell. Fyrirlestur þeirra hafði verið afar áhugaverður. Rannsóknirnar virtust einstaklega vel úr garði gerðar og framsetning niðurstaðnanna hafði þar að auki verið mjög skemmtileg. Það virtist svo auðvelt fyrir fræðimenn frá rótgrónu háskólunum í Norður-Ameríku að framreiða hvert stórvirkið á fætur öðru. Rannsóknaraðstaða þeirra var svo langt umfram það sem ég gæti látið mér dreyma um í Madríd. Bara ef ég fengi tækifæri til þess að vinna með einni af þessum frægu stofnunum. Þá gæti ég ímyndað mér sjálfan mig sækja fyrsta flokks ráðstefnu sem ræðumaður í stað þess að vera einungis áhorfandi eins og ég hafði verið á ráðstefnunni í Santiago.

Ég leit upp frá skrifblokkinni og yfir biðsvæðið, ímyndaði mér að ég væri að horfa yfir þéttsetinn ráðstefnusal, fullan af fólki, sem beið þess að ég hæfi kynningu mína á byltingarkenndum rannsóknarniðurstöðum. Ég sá sjálfan mig fyrir mér á sviðinu, klæddan í grá jakkaföt, ljósbláa skyrtu og með vínrautt bindi. Ég var í svörtum skóm og sviðsljósin glömpuðu af vel pússuðu leðrinu. Ég rétti úr bakinu, lyfti höfðinu og ræskti mig. „Góðan daginn herrar mínir og frúr,“ hóf ég fyrirlesturinn. „Það er einstök ánægja að vera staddur hér í dag til að kynna sameiginlegt rannsóknarverkefni mitt og félaga minna frá Cornell-Háskóla.“

„Señor Manuel Sánchez, viltu vinsamlega hafa samband við þjónustuborðið við hlið fimmtán.“

Tilkynningin kippti mér út úr draumaheiminum, steypti mér úr ræðupúltinu og hlammaði mér niður í sætið á biðsvæðinu framan við hlið fimmtán á El Dorado alþjóðaflugvellinum. Enn á ný voru þau að auglýsa eftir hinum dularfulla farþega, Señor Manuel Sánchez. Ef ég ætti að veðja upp á það, þá setti ég mína peninga á þá tilgátu að hann hefði sofnað við eitthvert annað hlið eftir að hafa drukkið einum eða tveimur of mikið. Hvernig gat fólk annars týnst á flugvöllum? Það var ekki eins og við værum stödd í miðjum óbyggðum. Að minnsta kosti ekki hér í Bogotá. Það gat verið að fólk týndist á stóru flugvöllunum með fjölda flugstöðvarbygginga og löngum göngum, sem liðu áfram eins og snákar í eyðimörk, eins og á Heathrow eða Barajas, en ekki á El Dorado.

„Hvað ætli hafi komið fyrir Señor Sánchez?“

Ég leit á manninn sem hafði ávarpað mig. Hann sat mér á vinstri hönd og hallaði sér fram yfir tvö auð sætin, sem voru á milli okkar. Hann var lágvaxinn með hringlaga andlit, sólbrúna húð og þunnt svart hárið greitt aftur en náði samt ekki að hylja almennilega skallablettinn aftast á hnakkanum. Strjált en snyrtilega klippt yfirvaraskegg prýddi efri vörina. Hann klæddist dökkbláum, úr sér gengnum íþróttagalla, sem var númeri eða tveimur of stór fyrir grannan líkamann. Peysan var rennd niður og það glytti í krumpaðan stuttermabol, sem gæti hafa kallast hvítur fyrir nokkur hundruð þvottum síðan. Það sama var hægt að segja um hrörlega hlaupaskóna í óskilgreindum lit. Bros mannsins gaf honum strákslegt útlit, ef litið var framhjá skökkum og kaffilituðum tönnunum.

„Þekkir þú Señor Sánchez?“ spurði ég.

„Allir þekkja Señor Sánchez,“ sagði maðurinn og brosti. „Sánchez er afar algengt nafn.“

„En þekkir þú þennan tiltekna Señor Sánchez? Señor Manuel Sánchez?“

„Ég efa það. Eins og ég sagði, þá er Sánchez afar algengt nafn.“

Ég kinkaði kolli og beið í nokkur augnablik til að sjá hvort maðurinn hefði í huga að halda áfram þessum samræðum, sem hingað til höfðu verið frekar innihaldsrýrar. Þar sem hann sýndi engin merki um að halda áfram þá sneri ég mér aftur að tossalistanum mínum.

Ég skrifaði hjá mér að ég ætti að biðja Ölbu um að skila mér mínu eintaki af annarri ritgerð John Locke um ríkisvaldið. Mér fannst það skrýtið að hún hefði ekki þegar skilað því. Hún var skarpur nemandi og þar sem bókin innihélt kafla um eignarrétt þá var það kaldhæðnislegt að hún hefði ekki virt minn eignarrétt á bókinni með því að halda henni fyrir sig í nokkrar vikur.

„Á leiðinni til Mexíkóborgar?“ spurði maðurinn þegar ég hafði rétt náð að snerta blaðið með pennanum.

„Nei,“ svaraði ég og gerði mér upp vingjarnlegt bros til þess að hylma yfir pirringinn við það að hafa verið truflaður einu sinni enn. „Ég er á leiðinni til Madrídar. Flugið mitt er það næsta frá þessu hliði. Það er að segja á eftir fluginu til Mexíkóborgar.“

„Hvítt blóð rennur um mínar æðar, hreinn fótbolti í hjarta mér. ¡Hala Madrid!“ söng maðurinn. „Hvernig fannst þér Kólumbía?“

„Ég hef eiginlega ekki komið til Kólumbíu,“ viðurkenndi ég. „Viðskipti mín við Bogotá eru aðeins í formi millilendingar. Ég kom með morgunfluginu frá Santiago. Santiago de Chile.“

„Aha, Síle. Alvarlegt fólk, Sílebúar. Stunda vel ígrunduð viðskipti. Vissirðu? Það er hægt að læra margt um það hvernig fólk stundar viðskipti með því að horfa.“ Maðurinn kinkaði kolli og benti með vísifingri og löngutöng á augun. „Ég hef verið að horfa á það hvernig fólk stundar viðskipti hér í Kólumbíu. Fylgst með hegðun fólks, hvernig það kemur fram. Horft á hvernig það hagar sínum viðskiptatengslum. Verslunin hér í Kólumbíu er afar frábrugðin því hvernig við gerum hlutina í Mexíkó. Ertu sjálfur kaupsýslumaður? Varstu í viðskiptaerindum í Síle?“

„Já og nei,“ svaraði ég. „Ég er prófessor. Rannsóknarsvið mitt er vissulega viðskiptafræði, en ég stunda ekki viðskipti í eiginlegum skilningi. Minn áhugi er aðallega af fræðilegum toga. Ég var á fræðilegri ráðstefnu í Santiago.“

„Aha, maður fræðanna,“ sagði maðurinn, hnyklaði brýnnar og kinkaði kolli. „Ég var aldrei mikið fyrir fræðin. Það var erfitt verk fyrir kennarana að reyna að troða þekkingu í minn haus. Hann hafði sínar eigin hugmyndir, kollurinn sá. Það var einfaldlega ekki pláss fyrir bókvit. Hef alltaf haft meiri áhuga á verki en bókum. Sonur minn, á hinn bóginn, var tölvunarfræðinemi í Mexíkóborg. Góður námsmaður. Snjall krakki. Toppeinkunnir. En ef til vill of snjall fyrir kennarana. Hann setti upp veðmálasíðu og keyrði hana á háskólanetinu. Prófessorarnir höfðu ekki mikinn skilning á slíkri frumkvöðlastarfsemi. Þeir ráku hann úr skólanum. Geturðu ímyndað þér?“

„Mér þykir það leitt að heyra,“ laug ég og hugsaði með mér að ég hefði svo sannarlega verið á sömu skoðun og mexíkóskir kollegar mínir. Háskólastofnun var ekki rétti staðurinn til þess að stunda vafasöm viðskipti á borð við veðbanka.

„Lífið er of stutt til að leiðast. Það var gott mál að hann var rekinn. Hann var of klár til að eyða tímanum í kennslustundir. Þar að auki gerði málið okkur kleift að gerast viðskiptafélagar. Faðir og sonur.“

„Og hvers konar viðskipti stundið þið?“ spurði ég og reyndi að ímynda mér hvers konar viðskipti maður með hans klæðaburð gæti mögulega verið viðriðinn. „Veðmálasíðu utan háskólasamfélagsins?“

„Nei,“ svaraði maðurinn og hló. „Við erum að setja upp fjármálavefsíðu. Með fjármálaráðgjöf. Ráðgjöf um fjárfestingar og tryggingar. Einföld vefsíða. Innihaldsrík en samt hnitmiðuð og í takt við tímann. Það er markaðstækifæri í slíkri síðu í Mexíkó.“

Ég kinkaði kolli og setti upp hughreystandi bros, jafnvel þótt lýsing hans hefði ekki hljómað sannfærandi. Um stundarsakir hvarflaði að mér að útskýra fyrir honum að fjármálaheimurinn væri allt annað en einfaldur. Allar rannsóknir bentu til þess að hann væri ekki hægt að skýra út með einfaldri vefsíðu. Ég var hins vegar ákafur í að snúa mér aftur að mínum málum og ákvað að láta málið kyrrt liggja, í þeirri von að hann gerði slíkt hið sama.

„Kólumbía er einstaklega viðkunnanleg,“ sagði maðurinn og þurrkaði út allar vonir mínar um að samtalinu væri lokið. Hann virtist vera með aðrar hugmyndir, töfraði fram klunnalega vasamyndavél úr einum vasa íþróttagallans og færði sig um eitt sæti í áttina til mín.

„Þetta er aðaltorgið í Chiquinquirá,“ hélt hann sögu sinni áfram, sneri myndavélarskjánum í áttina til mín og fletti í gegnum myndirnar. „Og þetta er köttur sem ég sá í hliðargötu.“

Ég gat ekki séð mikið af myndunum þar sem myndavélin var ekki alveg af nýjustu gerð og skjárinn var agnarsmár. Ég gat einungis gert mér í hugarlund að ég væri ekki að missa af sérlega miklu.

„Þetta er undirritaður í sínum fínustu jakkafötum,“ bætti hann við og rétti mér myndavélina—að öllum líkindum til þess að ég gæti skoðað myndina betur og sannreynt ótrúlega staðhæfingu hans um klæðaburð, „áður en þeim var stolið.“

Myndin var tekin á torgi þar sem maðurinn hafði stillt sér upp fyrir framan gosbrunn. Hann var í bláum jakkafötum og sannarlega hvítri skyrtu. Líkt og íþróttagallinn þá voru jakkafötin snjáð og aðeins of stór fyrir grannan líkamann. Í annarri hendi hélt hann á íþróttatösku úr gervileðri með gull-lituðu Adidas-merki. Aftan við hnakka mannsins mátti sjá gítarháls teygja sig út í loftið.

„Hvernig var fötunum þínum stolið?“ spurði ég og rétti honum myndavélina til baka. Eftir að hafa séð manninn í fötum sem gátu vel talist í áttina að vera prýðilegur klæðnaður, þá fannst mér eins og ég gæti næstum þekkt mig í honum. Ef til vill var hann kaupsýslumaður eftir allt saman, jafnvel þótt hann væri ekki af þeim kalíber sem ég var vanur að umgangast.

„Ég var í sturtu á gistiheimilinu einn morguninn þegar þeir stálu jakkafötunum,“ útskýrði kaupsýslumaðurinn og setti myndavélina aftur í vasann. „Sem betur fer tek ég alltaf vegabréfið, veskið og önnur verðmæti og nauðsynjar með mér í sturtuklefann.“

„Það hlýtur að hafa verið afar óheppilegt að jakkafötunum var stolið,“ sagði ég hughreystandi. Satt best að segja þá vorkenndi ég manninum sannarlega fyrir að þurfa að skipta yfir í þennan subbulega íþróttagalla.

„Nei, nei. Þetta voru ekkert sérstaklega fín jakkaföt. Ekki það að ég þarfnist fínna fata. Eða fataúrvals, ef út í það er farið. Ég vil ferðast létt. Ég hóf ferðalag mitt með tösku og gítar en þetta er allur farangurinn í lok ferðarinnar.“ Kaupsýslumaðurinn lyfti upp hvítum, krumpuðum plastpoka sem leit út fyrir að vera næstum tómur.

„Stálu þeir einnig gítarnum?“

„Nei,“ svaraði kaupsýslumaðurinn brosandi. „Örlög gítarsins… það er allt önnur saga.“

Eins og ég hafði vonað fyrir nokkrum mínútum að maðurinn héldi kjafti, þá gat ég ekki neitað því að núna var ég orðinn eilítið forvitinn að vita hvað hefði komið fyrir gítarinn og vonaði að kaupsýslumaðurinn héldi máli sínu áfram. Og það gerði hann.

„Ég var á gangi eftir aðalgötunni í þorpi nálægt Chiquinquirá þegar útigangsmaður gekk upp að mér og sagði: Señor, má bjóða þér upp á besta matinn sem þorpið hefur upp á að bjóða. Señor, komdu með mér til þess að fá besta matinn sem hægt er að fá á þessum slóðum. Ég fylgdi honum yfir götuna og inn á lítinn fjölskylduveitingastað, settist niður og pantaði mér bandeja paisa. Geturðu ímyndað þér? Mig, með stærðarinnar bandeja paisa? En alltént… útigangsmaðurinn settist niður við annað borð og þjónninn færði honum bjórglas. Ég áleit að þetta væri viðskiptasáttmáli. Maðurinn tældi viðskiptavini inn af götunni og fékk bjórglas að launum. Ég geri ráð fyrir að þetta sé fyrirkomulag sem þið fræðimennirnir kallið arðbæran hvata, eða eitthvað í þá áttina.“

„Það gæti verið,“ staðfesti ég, frekar hissa yfir þekkingu hans á hugtökum hagfræðinnar, þótt ég hefði sjálfur ekki notað svo háfleygt orðtak yfir jafn ómerkileg viðskipti.

„Þar sem ég beið eftir málsverði mínum greip ég í gítarinn og spilaði lag sem faðir minn kenndi mér þegar ég var ungur. En þegar maturinn kom á borðið þá lagði ég gítarinn frá mér. Útigangsmaðurinn leit upp frá bjórnum sínum og klappaði. Þú syngur afar vel, señor. Ég þakkaði honum fyrir hólið og bauðst til að lána honum gítarinn á meðan ég gerði matnum skil. Útigangsmaðurinn teygði sig eftir gítarnum, lokaði augunum og byrjaði að spila. Hann söng um lífið og hann söng um sorgina. Rödd hans var undurblíð og hljómurinn afar fallegur. Ég snæddi málsverðinn af mikilli ánægju. Útigangsmaðurinn hafði haft rétt fyrir sér, þetta var tvímælalaust besta veislan sem boðið var upp á í bænum. Góður matur í bland við hágæða tónlistarskemmtun.

„Eftir matinn færði þjónninn mér kaffi og útigangsmaðurinn gerði sig líklegan til að skila gítarnum. Eigð’ann, sagði ég, en hann maldaði í móinn, sagði þetta vera minn gítar og hann væri ekki betlari. En spilaðu meira, hvatti ég hann áfram, spilaðu á meðan ég drekk kaffið mitt. Útigangsmaðurinn lokaði augunum á ný og hélt áfram þar sem frá var horfið við að syngja þá tregafyllstu söngva sem ég hef nokkru sinni heyrt. Á meðan skellti ég í mig kaffinu, setti pening á borðið til þess að gera upp máltíðina og stóð upp eins hljóðlega og ég gat. Ég læddist síðan út af veitingastaðnum og skildi gítarinn eftir í höndum útigangsmannsins.“

„Gafstu gítarinn frá þér?“ skrækti ég, virkilega hissa yfir því hvað hann gat verið kærulaus um eigur sínar. Fyrst jakkafötin og svo gítarinn.

„Svo sannarlega. Útigangsmaðurinn átti gítarinn miklu betur skilið en ég. Hann hafði miklu meiri sorgir að syngja um.“

„Flug AV44 til Mexíkóborgar er nú tilbúið til brottfarar,“ glumdi í hátalarakerfinu og fólk myndaði biðröð til þess að komast um borð.

„Það er nú það,“ sagði maðurinn og stóð upp. „Viðskiptum mínum við Kólumbíu er lokið að sinni. Það er kominn tími til að halda aftur heim á leið.“

Við kvöddumst og kaupsýslumaðurinn gekk í hægðum sínum í of stórum íþróttagallanum, með úr sér genginn plastpokann í annarri hendi, í átt að hliði númer fimmtán og hvarf inn í mannhafið. Hvarf innan um fólkið sem hafði raðað sér upp til að komast í flugið til Mexíkóborgar.

Börkur er áhugasamur sögumaður með næmt auga fyrir sérstökum sögupersónum, fyndnum samtölum og lifandi umhverfislýsingum. Skrif Barkar flokkast að mestu leyti undir raunsæisstefnu og sögurnar hans eru oftar en ekki byggðar á sönnum atvikum í lífi höfundarins. Þó sögurnar innihaldi fjölmörg sannleikskorn þá eru þau rækilega blönduð skáldskap sem vekur upp forvitni lesandans um það hvar mörkin liggi milli raunveruleika og skáldskapar.

https://www.borkur.net/