Norðan nokkurs staðar


Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

Ég sit við gluggann og horfi út í myrkrið. Tignarlegur fjallgarðurinn gnæfir yfir þorpinu eins og konungur sem situr í hásæti sínu og virðir fyrir sér ríki sitt. Ég gýt augum á klukkuna sem situr hátt á veggnum, sveiflandi pendúl sínum fram og til baka, teljandi sekúndurnar af mikilli þolinmæði, jafnframt því sem hún sendir endalausa þulu af tikki og takki um annars hljóða stofuna. Hádegi nálgast og hópur fiðrilda losnar úr magahólfi djúpt í iðrum mér. Þau breiðist um allan líkamann og blaka kitlandi vængjum sínum. Ég sný mér á ný að fjallinu, bíð, og stari út í dimmuna.

Það er þreytandi að góna út í geiminn á þess að blikka, en ég er einbeittur, viss um að þrautseigja mín muni á endanum borga sig. Og það gerir hún. Hlutir gerast. Allt í einu. Örlítill sólarbjarmi brýst upp fyrir fjallsbrúnina og glitrar eins djásn á höfðinglegri kórónu. Ég horfi á krýningarathöfn konungs okkar, opinmynntur, numinn af fegurð augnabliksins. Gjörningurinn varir þó ekki lengi, og áður en ég veit af, hefur ljósið fjarað út og skilið mjóan fjörðinn eftir umvafinn því sama dimma skuggalíni og hefur hulið hann síðustu mánuði.

En pabbi hafði haft rétt fyrir sér.

Þegar ég spurði hann í desember hvert sólin hefði farið, sagði hann hana dvelja handan fjallsins. Þegar ég spurði hann hvort hún kæmi nokkurn tímann aftur, sagði hann afdráttarlaust, já, þann níunda janúar, rétt eftir hádegi. Þegar ég spurði hann hvers vegna hún hefði yfirgefið okkur, sagði hann það vera vegna þess að við byggjum á heimsenda—norðan nokkurs staðar. Rödd hans var svo döpur að ég ákvað að spyrja ekki frekari spurninga, heldur ákvað að bíða, eins þolinmóður og ég mögulega gat, eftir að nýja árið kæmi, og ég gæti sannreynt orð hans með mínum eigin augum.