Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Aðrar útgáfur: PDF | english

Ég elti hana inn í íbúðina, yfir þröskuldinn, upp á nýtt plan, inn í nýjan kafla, inn í framtíðina—hver veit?

Stóra spurningin -- Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson
Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

„Komdu þér vel fyrir á sófanum á meðan ég hita vatnið.“

Ég néri saman höndunum. Mér var kalt. Teið myndi hjálpa við að koma hita í kroppinn, jafnframt því sem það gæti hrært upp í stöðnuninni sem einkenndi líf mitt undanfarið—hver veit?

Við höfðum rekist hvort á annað fyrir nokkrum mánuðum síðan þar sem við teygðum á vöðvunum í líkamsræktarstöðinni og byrjuðum að spjalla. Við töluðum fyrst um teygjur en einhvern veginn barst talið um víðan völl og endaði með hugleiðingum um áhrif Alvars Alto á nútíma byggingarlist. Samtalið þann daginn er enn hulið móðu í mínum huga og ég man ekki nákvæmlega hvernig umræðan barst úr einu í annað. En mikilvægasta niðurstaða þessa atburðar var að við náðum saman á einhvern undraverðan hátt.

Eftir þennan fyrsta fund okkar í líkamsræktarstöðinni þá byrjaði ég að æfa oftar. Jafnvel þótt það hafi ekki verið fullkomlega meðvituð ákvörðun þá geri ég ráð fyrir að ég hafi gert það í þeirri von um að hitta hana aftur.

Á endanum bar erfiðið árangur. Ég kom auga á hana á fullri ferð á hlaupabretti við stóra gluggann með útsýninu yfir snævaþakið túnið. Ég valdi mér brettið við hlið hennar og byrjaði að hlaupa. Á meðan við hlupum stálumst við til þess að skjóta augum hvort til annars og brosa. Eftir langan hlaupatúr kinkuðum við svo samtímis kolli og færðum okkur yfir í teygjuherbergið þar sem við tókum upp þráðinn þar sem frá var horfið fyrri daginn—teygðum á vöðvum og teygðum lopa.

Á undanförnum vikum höfðum við svo hist reglulega innan og utan líkamsræktarstöðvarinnar. Við æfðum saman. Við fórum í langa göngutúra. Við hittumst á kaffihúsum. Og umfram allt héldum við áfram samtalinu endalausa. Við ræddum um daginn og veginn og nóttina og vegleysuna. Ég varð ástfanginn.

Í dag steig ég svo fæti í íbúðina hennar í fyrsta sinn. Um eftirmiðdaginn höfðum við verið á langri skógargöngu úti í vetrarfrosti og hún hafði stungið upp á því að við enduðum gönguna með því að fá okkur heitt te heima hjá henni. Ég þáði boðið með þökkum.

„Ég vona að þér líki grænt te,“ sagði hún þegar hún bar bakka með tekönnu og tveimur bollum inn í stofuna og lagði hann frá sér á sófaborðið. „Það er eina teið sem til er í húsinu.“

„Já, mér líkar grænt te.“

Ég lét það liggja milli hluta að grænt te var uppáhalds teið mitt. Það hefði verið of væmið. Of yfirborðskennt. Of gott til þess að vera satt.

Hún hellti tei í bollana, rétti mér annan, og við héldum áfram handahófskenndum samræðum okkar sem enn á ný fóru yfir víðan völl, úr einu í annað á afar þjálan og náttúrulegan hátt án nokkurrar fyrirhafnar. Með smá undantekningu þó. Tungan mín var ekki eins liðug og vanalega. Hún vildi vefjast mér um tönn. Það var nefnilega fíll í stofunni sem ég þurfti að takast á við. Ég var með mikilvæga spurningu í kollinum. Stóru spurninguna.

Hún hélt hins vegar uppteknum hætti og lét móðan mása—talaði um allt og ekkert—stökk úr einu í annað. Ég gerði mitt besta til þess að halda í við hana, en í bakgrunninum var ég sífellt að hugsa um það hvernig ég gæti komið spurningunni minni að, bíðandi eftir rétta tækifærinu.

Svo kom allt í einu þögn á meðan hún hellti fersku tei í bollana. Þetta var andartakið mitt. Tækifærið mitt. Ég greip það.

„Myndi þig einhvern tímann langa til að eignast hund?“

Um leið og spurningamerkið hrundi fram af vörum mínum vissi ég að ég vildi ekki heyra svar hennar. Ég var skíthræddur við að þekkja hennar skoðun.

„Já. Tvímælalaust. Ég mun fá mér einn slíkan einhvern tímann á næstu árum.“

Skyndilega dró ský fyrir sólina sem lýst hafði upp líf mitt undanfarnar vikur. Þetta var þá alltsaman búið. Það var engin framtíð í þessu sambandi.