„Ég er alveg hættur að lesa bókmenntir,“ sagði vinnufélaginn þegar talið barst að lestri. „Ég meina. Þær eru svo tilgangslausar.“
Ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að slengja fram þeirri skoðun minni að það væri einmitt tilgangsleysið sem gerði bókmenntir svo áhugaverðar og skemmtilegar. Á endanum ákvað ég að kinka bara kolli og brosa. Það var miklu skemmtilegra að rökræða við sjálfan mig í huganum heldur en að reyna að sá skapandi fræjum í ofurraunsæjan huga vinnufélagans.