Ég renndi „Ferrarinum“ niður kverkarnar. Það fór um mig hrollur og ég fékk hóstakast. Ég höndlaði þessi skot ekki sérstaklega vel. Vodka og Tia Maria var ekki uppáhalds blandan mín.
Ég staulaðist hóstandi inn eftir kránni. Þetta var nokkuð dæmigerð írsk krá í gotneska hverfinu í Barcelona. Húsnæðið var þröngt en langt. Frammi við dyrnar stóð barborðið. Innan við barinn var rými með borðum og stólum. Ég staulaðist inn í innri hlutann þar sem búið var að deyfa ljósin og raða stólum upp á borð til þess að flýta fyrir þrifum sem voru á næsta leiti. Það var brátt kominn tími á lokun.
Hóstinn hélt áfram. Þetta yrði mitt síðasta skot. Ég ætlaði héðan í frá að skipta yfir í vodka-tonic.
„Er allt í lagi með þig?“
Ég rýndi inn í myrkrið og reyndi að átta mig á því hvaðan röddin barst. Ég sá ekki neitt sem gat hafa varpað fram þessum orðum. Ég sá bara borð og stóla.
„Ég er hérna.“
Ég rýndi betur inn í myrkrið og markvisst í þá átt þaðan sem röddin barst. Ég gekk lengra inn eftir kránni og sá hvar hún sat ein við borð í myrkrinu og saup á Coronita bjór.
„Ég heiti Julia,“ sagði hún þegar ég hafði gengið yfir að borðinu hennar. Röddin minnti mig á enska bíómynd frá fjórða áratugnum. Ég var að vísu ekki viss um að ég hefði nokkurn tímann séð enska bíómynd frá fjórða áratugnum en það var samt sem áður það fyrsta sem mér datt í hug. Mér varð hugsað til stúlkunnar í Pygmalion. Eða var það Mary Poppins? Hún var ensk, var það ekki? Ég mundi það ekki. Ég hugsaði ekkert sérlega skýrt. Ég var of drukkinn.
„Sæl Julie. Ég heiti Vilhelm,“ sagði ég. „Hvers vegna situr þú ein þíns liðs í myrkrinu?“
„Ég veit það ekki,“ svaraði hún. „Og ég heiti Julia. Hvers vegna sest þú ekki bara hérna hjá mér. Þá er ég ekki lengur ein míns liðs.“
Ég hikaði og virti hana fyrir mér. Það var eitthvað sérstakt við þessa stúlku. Hún var einstaklega sakleysisleg í útliti. Einfalt og hreint var það fyrsta sem mér datt í hug til þess að lýsa útliti hennar. Hún leit út eins og engill. Að bjórflöskunni frátalinni. Mig minnti ekki til þess að ég hefði nokkurn tímann séð engil með bjórflösku. Ef út í það var farið þá hafði ég í sjálfu sér aldrei séð engil. Með eða án Coronita bjórflösku. Ég hristi höfuðið til þess að losa þessa englahugsun úr kollinum. Ég hugsaði ekki skýrt. Ég hafði drukkið of mörg skot.
„Hvers vegna kemur þú ekki fram í ljósið og blandar geði við okkur?“ spurði ég og benti í átt til vina minna sem stóðu við barborðið. „Vinir mínir eru þarna.“
Hún svaraði ekki strax. Það var eins og hún þyrfti að hugsa sig vel um áður en hún tæki ákvörðun.
„Ég veit ekki hvort ég ætti,“ svaraði hún og horfði á Coronita flöskuna. Hún roðnaði og virtist feimin. „Og þó. Kannski að ég geri það.“
Hún stóð á fætur og við gengum í átt að barborðinu þar sem vinir mínir voru við það að panta annan umgang af vodka og Tia Maria blöndu.
„Hvaðan ertu?“ spurði ég.
„Austurríki,“ svaraði hún. „En þú?“
„Íslandi.“ Ég hallaði mér fram á barborðið til þess að fanga athygli vina minna. „Strákar! Þetta er Julie. Frá Austurríki.“
Vinirnir tóku ekki strax við sér enda uppteknir við að taka við næstu umferð af vodka-skotum. Þeir sneru sér þó við þegar staupin voru komin í þeirra hendur.
„Hver?“ spurði Patrick.
„Hún,“ svaraði ég og sneri mér að Julie. Ég greip í tómt. Hún var horfin. Að baki mér sá ég ekkert nema hálffulla Coronita flösku sem stóð á barborðinu.
„Hver?“ spurði Danny.
„Ég veit það ekki,“ svaraði ég um leið og ég tók við staupinu sem Patrick rétti mér.
„Fyrir Vilhelm! Og hans ímynduðu vini!“ hrópaði Danny áður en við skelltum í okkur skotunum.
Ég hóstaði á ný og mér varð hugsað til Julie. Var hún virkilega ímyndun mín? Líklega. Ég var sannarlega nægilega drukkinn til þess að sjá ofsjónir. En hvað með Coronita flöskuna? Ég snerti hana. Þar var ekki um að ræða neinar ofsjónir. Ég varð ringlaður og ákvað að hugsa ekki um þetta frekar. Ég pantaði mér þess í stað vodka tonic.
*****
Ég hallaði mér upp að glugga neðanjarðarlestarinnar og lokaði augunum. Hvernig gat þetta gerst? Hvers vegna gerðist þetta alltaf? Þetta átti einungis að vera einfaldur kvöldverður með viðskiptavini. Ég hafði lofað mér að halda ekki drykkju áfram eftir matinn. Ég hafði ekki staðið við loforðið. Það gerðist of oft. Sem endurskoðandi þá var það mitt hlutverk að halda bókunum réttu megin við strikið. Hvers vegna gat ég ekki beitt sömu tækni á mitt eigið líf? Af hverju gat ég ekki haldið mig réttu megin við strikið.
Lestin renndi inn á Joanic stöðina. Það var kominn tími á að halda heim í bólið. Ég stóð upp og gekk að dyrum vagnsins. Ég steig út úr vagninum og mætti þar augum ungrar stúlku sem steig inn í vagninn.
„Julie?“ spurði ég um leið og ég snéri mér við á pallinum til þess að geta haldið augnsambandi við stúlkuna.
„Julia!“ svaraði hún í þá mund sem dyrnar lokuðust.
Við héldum augnsambandinu um stund á meðan lestin mjakaði sér burt frá Joanic stöðinni og hvarf inn í myrkrið. Líkt og nokkrum dögum fyrr þá hvarf Julie inn í myrkrið. Ef hún hafði þá ekki verið ímyndun mín. Ég gat ekki gert mér fulla grein fyrir mörkunum milli ímyndunar og raunveruleika. Mér leið eins og milli draums og vöku. Ég vissi satt best að segja ekki hvar mörkin voru.
*****
Ég gekk eftir strætinu og í gegnum þykka þokuna. Ég áttaði mig ekki á því hvar ég var staddur. Ég þekkti ekki götuna. Enginn var á ferli. Næstum enginn. Allt í einu heyrði ég kvenmannsrödd innan úr þokunni.
Byrði betri
ber-at maður brautu að
en sé mannvit mikið.
Vegnest verra
vegur-a hann velli að
en sé ofdrykkja öls.
Ég kannaðist við kvæðið. Ef mér skjátlaðist ekki þá var þetta vísa úr Hávamálum — forn viska um það hvernig ætti að lifa lífinu.
Er-a svo gott
sem gott kveða
öl alda sonum,
því að færra veit
er fleira drekkur
síns til geðs gumi.
Ég rýndi í þokuna og sá ógreinilegar útlínur manneskju sem gekk í áttina til mín. Ég gat ekki greint andlit hennar en röddin hljómaði kunnuglega. Ég hafði heyrt hana einhvern tímann áður.
Óminnishegri heitir
sá er yfir öldrum þrumir.
Hann stelur geði guma.
Þess fugls fjöðrum
eg fjötraður var‘g
í garði Gunnlaðar.
Eftir að hafa lokið við erindið steig röddin út úr þokunni. Ég sá hver þetta var. Ég horfðist í augu við austurrísku stúlkuna sem ég hafði hitt fyrir tilviljun í tvígang á undanförnum dögum. Julie. Hún staðnæmdist nokkrum skrefum frá mér. Áður en ég náði að spyrja hana hvers vegna hún þuldi íslenskar fornvísur þá breyttist hún í tignarlegan fugl sem baðaði út vængjunum og flaug á brott inn í þokuna.
*****
Ég geispaði áður en ég hringdi dyrabjöllunni. Ég náði ekki að festa almennilega svefn eftir að hafa vaknað upp frá furðulegum draum um austurríska stúlku sem fór með íslensk fornkvæði og breyttist svo í fugl.
Ég heilsaði gestgjafa mínum og fylgdi honum frá útidyrunum inn í stofuna. Hann kynnti sig sem Xavi. Ég hafði aldrei hitt hann áður. Hann var vinur vinar míns. Hann og konan hans voru að undirbúa stofnun eigin fyrirtækis og vildu fá ráðgjöf frá endurskoðanda. Ég hafði fallist á það að borða með þeim kvöldverð og gefa þeim þau ráð sem ég átti.
„Fáðu þér sæti og láttu fara vel um þig,“ sagði Xavi. „Ég ætla að athuga hvernig staðan er í eldhúsinu.“
Ég leit í kringum mig í stofunni sem var áhugaverð blanda af nýjum og gömlum tíma. Sófinn og stólarnir voru nýir — sem og málverkin á veggjunum. Borð og skápar voru hins vegar úr gömlum við. Í einu horninu var gömul kommóða sem vakti athygli mína. Hún var alsett litlum myndarömmum og skapaði ömmulega stemmingu.
Allar myndirnar virtust gamlar. Ég gat hins vegar greint gestgjafa minn á nokkrum myndanna og ég gat mér þess til að um væri að ræða nýlegar myndir sem hafði verið breytt með einhvers konar Instagram síu til þess að láta þær líta út fyrir að vera gamlar.
Ég renndi augunum yfir myndirnar og stoppaði við eina sem fékk hjartað til þess að slá eilítið hraðar. Ég gat ekki betur séð en að ég kannaðist við fyrirsætuna á myndinni. Ég tók hana upp til þess að athuga málið betur. Líkt og hinar myndirnar þá leit þessi út fyrir að vera gömul.
„Julie,“ sagði ég upphátt við sjálfan mig til þess að reyna að rifja upp nafn austurrísku stúlkunnar sem ég hafði hitt nokkrum sinnum í vöku og draumi undanfarna daga.
„Julia,“ sagði kvenmannsrödd að baki mér. „Hún heitir Julia. Sæll. Ég heiti Núria.“
Ég gerði ráð fyrir að þetta væri betri helmingur gestgjafa minna sem hafði komið inn í stofuna og gekk nú til mín með bros á vör.
„Hvernig þekkirðu Juliu?“ spurði hún um leið og hún leit yfir öxl mína til þess að fullvissa sig um að við værum að tala um sömu myndina.
„Ég þekki hana í sjálfu sér ekki neitt,“ svaraði ég. „Ég hef hins vegar hitt hana af tilviljun nokkrum sinnum á undanförnum dögum.“
Núria virti mig fyrir sér og leit síðan aftur á myndina í hendi mér.
„Það getur ekki verið,“ sagði hún. „Julia dó fyrir fimm árum. Hún var amma mín.“
„Ó,“ sagði ég bara til þess að segja eitthvað. Ég var ringlaður vegna þess að ég var viss um að konan á myndinni væri sú sama og ég hafði séð undanfarna daga. „Ég hef að öllum líkindum farið mannavillt.“
„Hún var góð kona,“ sagði Núria dreymin um leið og hún tók við myndinni úr höndum mér. „Hún var fædd í Austurríki en flutti til Spánar með foreldrum sínum sem barn. Hún giftist spænskum verksmiðjueiganda og vann stóran hluta lífs síns við það að hjálpa ólánsömum verkamönnum að vinna bug á áfengisvanda.“
Ég starði á myndina sem gestgjafinn lagði frá sér á sinn stað á kommóðunni. Hugsanirnar hringsnerust í kollinum á mér er ég reyndi að fara yfir atburði síðustu daga.
„Hvað má bjóða þér?“ spurði Xavi sem hafði snúið aftur til stofunnar. „Bjór? Vín?“
Ég hikaði. Þessa stundina langaði mig ekki í neitt áfengt.
„Ehmm, kók væri bara fínt,“ stamaði ég. „Eða bara vatn.“