Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Það var sunnudagur í byrjun ágúst og sólin skein hátt á himni. Ég gekk í hægðum mínum eftir Carrer del Congost. Ég hélt mér þeim megin götunnar þar sem skuggar húsanna hlífðu mér fyrir sterkum geislum sólarinnar. Ég gekk framhjá bar pönkaranna og hústökufólksins. Handan götunnar var félagsheimili bréfdúfuræktunarfélags Gràcia hverfis. Mér varð hugsað til þess hversu fjölbreyttur félagsskapurinn var í þessarri götu. Öðru megin götunnar var félagsskapur sem hefur dúfu sem merki sitt — merki friðarins. Hinum megin götunnar var félagsskapur sem hefur hauskúpu og mannabein sem merki sitt — merki ófriðarins. Það var hins vegar ekki annað að sjá á þessum sunnudagsmorgni en að sambúð þessara ólíku hópa gengi vel.

Fólkið á torginu — Myndskreyting Yana Volkovich
Myndskreyting Yana Volkovich

Við enda Carrer del Congost beygði ég til vinstri og nánast strax aftur til hægri inn í Carrer d’Astúries. Leiðin lá út á Virreina torg. Uppáhaldstorgið mitt þar sem ég sat oft um helgar með bók í hönd og stundum einnig með penna á lofti.

Á torginu fékk ég mér sæti á bekk undir skugga trés. Torgið iðaði af lífi á sama tíma og það lá yfir því kyrrð og ró. Kaffihúsin þrjú voru þéttsetin. Frá þeim barst sefandi kliður frá gestunum sem ræddu það sem þeim lá á hjarta. Á bekkjunum meðfram torginu sat fólk. Sumir lásu á meðan aðrir ræddu við sessunauta sína. Enn aðrir sátu bara og góndu út í loftið. Nutu þess að horfa á mannlífið á torginu. Það var værð yfir öllum. Fólk var hægfara í hitanum og virtist forðast það að hreyfa sig um of til þess að gera hitann bærilegri.

Kirkjan stóð tignarlega við fjallsenda torgsins. Líkt og annars staðar í heiminum eru höfuðáttirnar fjórar í Barcelona. Ólíkt því sem annars staðar gengur og gerist þá heita þær ekki norður, suður, austur og vestur. Í Barcelona heita þær fjall, strönd, hægri og vinstri. Kirkjudyrnar voru opnar enda er guðsríki öllum opið. Sérstaklega á sunnudögum.

Yfir torgið gekk stöðugur straumur fólks. Fólk að viðra hunda. Fólk á leiðinni heim með sunnudagsblaðið í öðrum handarkrikanum og langbrauð í hinum. Þar á meðal voru ferðamenn — maður og kona á miðjum aldri — á göngu með kort í hönd. ,,Sjáðu! Þarna er kirkjan sem við lásum um í bókinni um Barcelona.“ Þau stoppuðu, festu kirkjuna á filmu og héldu síðan áfram göngu sinni í leit að næsta torgi. Í leit að næsta kennileiti sem þau höfðu lesið um í bókinni um Barcelona.

Dúfurnar flugu fram og til baka yfir torgið. Settust á syllu yfir kirkjudyrunum. Flugu því næst yfir í næsta tré. Þaðan flugu þær yfir að húsgafli handan torgsins. Þær lokuðu svo hringnum með því að fljúga á ný yfir að kirkjunni. Af og til tylltu þær sér niður á jörðina og vöppuðu um torgið í leit að æti. Ung og óreynd dúfa rölti í átt að sígarettustubbi. Hún áttaði sig þó fljótt á að ekki var um æti að ræða og hélt áfram för sinni að næsta stubbi til þess að athuga hvort þar væri eitthvað ætilegra að finna.

Ég tók minnisbók og penna upp úr rassvasanum. Ég hafði ætlað mér að reyna að skrifa smásögu. Ég hafði ekki skrifað neitt um langt skeið. Ég hafði átt við ritstíflu að stríða undanfarið. Í hvert sinn sem ég settist niður til þess að skrifa þá datt mér ekki nokkuð í hug sem vert væri að setja á blað. Ég hafði ályktað að hugsanlega gæti ferskur andvari hjálpað mér við að lofta út úr heilabúinu og blásið þangað inn nýjum hugmyndum. Þess vegna var ég staddur á torginu að þessu sinni.

Ég starði á auða opnuna í minnisbókinni. „Barcelona, 9. ágúst 2008,“ skrifaði ég efst á vinstri síðuna. Ég komst ekki lengra. Mér datt ekkert í hug til þess að skrifa. Ég lagði minnisbókina í kjöltu mér og leit í kringum mig. Tveir rónar sátu á bekk handan torgsins og ræddu um lífið og tilveruna á milli þess sem þeir fengu sér sopa hvor úr sinni bjórdósinni. Þeir hlógu. Þeir voru kátir. Þeir nutu lífsins. Líf þeirra var kannski ekki upp á marga fiska. Það skipti þá þó engu máli. Hver þarf marga fiska þegar alltaf virðist vera hægt að skrapa saman nokkrum aurum til þess að kaupa sér næsta bjór.

„Þú leggur aldrei neinn pening í púkkið,“ heyrði ég sagt að baki mér.

Ég leit hægt við og virti fyrir mér fólkið sem sat á bekknum bak við þann sem ég sat á. Þetta var ungt par með barn. Það geislaði ekki af þeim gleðin. Þau voru ekki að dást að unga barninu sínu eins og ungum foreldrum sæmir. Þau rifust og vettu barninu enga athygli. Barnið veitti þeim heldur enga athygli. Það svaf vært í faðmi móður sinnar.

„Ég á í fullu fangi með að sjá um barnið. Allur peningurinn minn fer í barnið. Þú veist það. Ég hef reynt að biðja mömmu um meiri pening en hún neitar. Hún segir að ég hafi ekkert að gera með meiri pening. Hún segir að ég ætti bara að vera þakklát fyrir að hún sendi mér yfirhöfuð pening í hverjum mánuði.“

„Afhverju segirðu henni ekki frá barninu? Afhverju segirðu henni ekki frá því að þú hafir eignast barn og hafir fyrir tveimur að sjá?“

„Aldrei!,“ hrópaði stúlkan. Hún leit skömmustulega í krinum sig og leit svo á barnið til þess að athuga hvort það hefði nokkuð vaknað. Barnið svaf. Hún hélt áfram í lægri tón. „Ég get ekki sagt henni frá barninu. Hún yrði örugglega brjáluð. Hún myndi örugglega hætta að senda mér pening.“

„En hvað með pabba þinn? Hann á skítnóg af seðlum. Afhverju biður þú hann ekki um pening?“

„Það þýðir ekkert. Hann er búinn að afneita mér. Hann hefur aldrei fyrirgefið mér fyrir að hætta í skóla og flytja hingað til Barcelona.“

Unga parið komst ekki lengra í umræðunni um heimilisbókhaldið. Barnið vaknaði og fangaði athygli þeirra með gráti. Konan stóð upp. „Komum!,“ sagði hún. „Ég þarf að fara heim og gefa barninu.“ Unga parið gekk framhjá kirkjunni og út af torginu.

Fyrir hornið á kirkjunni skokkaði ungur maður inn á torgið. Hann veitti unga parinu og barninu enga athygli. Hann virtist djúpt sokkinn í sinn eiginn hugarheim. Hann skokkaði eftir miðju torginu í áttina frá kirkjunni. Á hinum enda torgsins hugsaði hann sig um í stutta stund og ákvað síðan að beygja til hægri. Þetta var í fyrsta sinn sem hann fór út að skokka síðan hann flutti til Barcelona. Hann var rammvilltur. Þetta stefndi í að verða langur hlaupatúr ef hann rambaði ekki á kunnuglegar slóðir innan skamms.

Skokkarinn hljóp unga konu um koll á leið sinni út af torginu. Þeim varð ekki meint af byltunni og voru fljót að jafna sig. Skokkarinn hljóp áfram út í óvissuna en unga konan gekk hröðum skrefum yfir torgið. Hún var alltof sein. Hún hafði lofað vinkonu sinni að hjálpa henni við að þrífa íbúðina hennar en var orðin tveimur tímum of sein.

Hún hafði farið út á lífið kvöldið áður. Hún hafði bara ætlað að stoppa stutt. Hafði ætlað að fara snema í háttinn. Kvöldið varð hins vegar lengra en hún hafði ætlað. Hún kom seint heim. Hún fór seint að sofa. Hún vaknaði seint.

Hún skammaðist sín fyrir að svíkja vinkonu sína svona. Vinkonan hafði ekkert gert á hennar hlut sem verðskuldaði svona famkomu. Hún vonaði að vinkonan yrði ekki reið út í hana. Hún vonaði að sér yrði fyrirgefið.

Hún gekk hröðum skrefum yfir torgið. Hún var allt of sein. Hún vissi ekki að vinkona hennar hafði einnig farið út á lífið kvöldið áður. Hún hafði einnig farið seint að sofa. Hún var enn sofandi.

Hugo hafði hins vegar farið snemma að sofa og vaknað snemma. Hann sat nú á kaffihúsi og las viðskiptablað. Hann velti því fyrir sér hvernig hægt væri að græða peninga með því að kaupa og selja hlutabréf. Þetta var þriðja helgin í röð sem að hann spáði í málið. Hann hafði haldið að þetta yrði auðvelt. Hann þyrfti bara að kaupa bréf, bíða eftir að þau hækkuðu í verði og selja þau síðan með gróða. Hann var hins vegar að átta sig á að hlutabréfaviðskipti voru ekki eins auðveld og hann hafði haldið. Á þessum þremur helgum sem hann hafði lesið viðskiptablaðið hafði hann komist að því að sum hlutabréfanna hækkuðu en önnur lækkuðu. Hann gat hins vegar ekki fundið neitt mynstur sem sagði til um það hvaða bréf myndu hækka og hvaða bréf myndu lækka. Hann þorði þess vegna ekki að byrja að kaupa bréf. Hann var hræddur um að tapa þessum fáu aurum sem hann hafði skrapað saman til þess að hefja hlutabréfaævintýri sitt. Hann ákvað því að gefa hlutabréfaviðskipti upp á bátinn. Hann ákvað þess í stað að nota peningana til þess að kaupa sér nýja myndavél. Hver vissi nema hann gæti kannski selt ljósmyndir og grætt pening á því.

Pedro hafði starfað sem ljósmyndari allt sitt líf og unnið með því fyrir salti í grautinn. Nú gekk hann í rólegheitum yfir torgið ásamt Maríu konu sinni. Þau voru orðin gömul, skökk og fótafúin. Það var liðin tíð að þau hlupu yfir torgið. Torgið þeirra. Þar sem þau höfðu leikið sér saman sem börn. Þau kysstust í fyrsta sinn á tröppunum fyrir framan kirkjuna. Pedro bar upp bónorðið á torginu. María svaraði játandi á torginu. Þau giftu sig í kirkjunni við torgið. Þau keyptu sér íbúð við torgið. Börnin þeirra tóku sín fyrstu skref á torginu. Eltu sínar fyrstu dúfur á torginu. Þó börnin eltust og flyttu í burtu þá heimsóttu þau gömlu hjónakornin reglulega ásamt barnabörnunum. Þá var slegið upp veislu á torginu. Nú voru þau orðin svo gömul og fúin að þau náðu að rifja upp helstu stundir lífsins á meðan þau gengu þvert yfir torgið.

„Nei sko!“ heyrði ég sagt við hlið mér. „Við erum í alveg eins skóm!“

Ég leit við. Ég kannaðist við konuna sem sat þar. Hún var ein af rónunum á torginu. Ég sá hana næstum í hvert sinn sem ég skrapp á torgið. Í fyrstu hafði ég ekki tekið eftir því að hún væri ein af rónunum. Ég hafði haldið að hún væri bara elliær gömul kona. Síðar sá ég hana drekka bjór með hinum rónunum. Hún var sannarlega ær. Hvort sem það var af elli eða einhverju öðru.

Ég leit á fætur konunnar. Ég leit á mína eigin fætur. Við vorum bæði í sandölum. Eins ólíkum sandölum og hugsast gat.

„Já,“ svaraði ég og brosti til konunnar. „Það er rétt. Við erum í alveg eins skóm.“

Ég fletti til baka í minnisbókinni fram að síðunni þar sem ég hafði skrifað „Barcelona, 9. ágúst 2008.“ Nokkrar þéttskrifaðar blaðsíður höfðu bæst í ritsafnið mitt. Ég lokaði bókinni. Setti pennann í vasann. Það var kominn tími til að halda heim á leið. Ég kvaddi sandalatvífarann minn. Ég kvaddi torgið. Torgið sem alltaf iðaði af lífi. Ég kvaddi fólkið á torginu. Ég þakkaði því fyrir að hafa hjálpað mér við að losa um ritstífluna. Ég þakkaði þeim fyrir að veita mér nægan innblástur til þess að koma nokkrum sögubrotum á blað. Ég efaðist um að nokkuð brotanna yrði efni í heila sögu. Það skipti hins vegar engu máli. Það eina sem skipti máli var að ég var farinn að skrifa á ný. Ég gat því haldið heim á ný, sáttur við dagsverkið.

Smásagan Fólkið á torginu er hluti af smásagnasafninu 999 Erlendis.