Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

„Velkomin í nýju höllina mína,“ sagði ég um leið og ég bauð Kötlu að ganga í bæinn — litlu íbúðina sem ég hafði flutt í fyrir fáeinum dögum.

Nágrannarnir — Myndskreyting Yana Volkovich
Myndskreyting Yana Volkovich

„Kærar þakkir, yðar hágöfgi,“ svaraði hún og hneigði sig djúpt.

Ég glotti. Þetta var einmitt það sem mér líkaði við Kötlu. Hún tók lífið ekkert of alvarlega, en var samt viðræðuhæf um alvöru lífsins þegar þannig bar undir. Á þeim fimm árum sem ég hafði búið fjarri Íslands ströndum þá hafði ég lagt lítinn metnað í það að vera í sambandi við samlanda mína. Ekki það að mér væri eitthvað í nöp við Íslendinga. Ég leit einfaldlega þannig á málið að í útlöndum væri nóg af áhugaverðum útlendingum svo að ég hafði enga sérstaka þörf fyrir að sækja á íslensk mið. Ekki nema um einstaklega áhugaverða Íslendinga væri að ræða. Katla var ein af þeim.

„Svefnherbergið, baðherbergið, eldhúsið, geymslan, stofan og borðstofan.“

Ég kynnti hvert herbergi sem varð á vegi okkar er við gengum frá útidyrunum inn í borðstofuna.

„Það er ekkert annað. Borðstofa!“ sagði Katla og lyfti brúnum. „Þetta er bara eins og í alvöru höll.“

„Nákvæmlega,“ svaraði ég. „Nema hvað! Nema kannski fyrir utan það að í alvöru höllum er pláss fyrir meira en fjögurra manna borðstofuborð.“

Mér var litið á pínulitla Ikea borðstofuborðið mitt sem var tæknilega séð fjögurra manna en í raun varla nema í mesta lagi fyrir tvo. Eða tvö. Eða tvær. Ekki þó öll í einu. Þó borðið væri lítið þá var nú samt eiginlega ekki pláss fyrir mikið stærra borð í borðstofunni.

„Það verður ekki á allt kosið. Þú hefur þó allavegana borðstofu. Það eru ekki allir íbúar Barcelona sem hafa efni á að spreða heilu herbergi í borðstofuborð.“

„Ég lít nú ekki á þetta sem að spreða,“ sagði ég spekingslega. „Ég lít á þetta sem fjárfestingu.“

„Hvað meinarðu?“ spurði Katla.

„Æ, ég veit það eiginlega ekki,“ svaraði ég vandræðalega.

Ég vissi sannarlega ekki hvað það var sem ég hafði meint. Þetta var bara ein af þessum kjánalegu staðhæfingum sem ég átti það til að slengja fram í þeirri von að þær hljómuðu fyndnar. Þessi gerði það ekki.

„Hvernig er nágrennið?“ spurði Katla og ég var feginn að hún skipti um umræðuefni.

„Frábært. Ég er náttúrlega í miðju Gràcia hverfinu. Í nokkurra skrefa fjarlægð frá Virreina torgi. Það er varla hægt að hugsa sér betri staðsetningu.“

„Og enginn hávaði frá torginu?“

„Varla múkk. Kirkjan drekkur í sig mesta skvaldrið.“

„Það hlýtur að vera fjör fyrir þá í hinu efra fá svaldrið beint upp í gegnum húsið sitt. Og nágrannarnir? Engin læti í þeim?“

„Nei, ég get ekki sagt það. Það er að segja, hljóðin í byggingunni eru ekkert frábrugðin því sem gengur og gerist í öðrum gömlum byggingum hér í Barcelona,“ sagði ég og reyndi að muna eftir því hvort ég hefði orðið var við einhvern óeðlilegan hávaða. ,,Þar að auki þá er munkaklaustur handan götunnar. Þeir eru ekki beint hávaðasömustu týpurnar. Munkarnir.“

„Munkar?“ spurði Katla og virtist eiga bágt með að trúa mér.

„Já, munkar,“ svaraði ég og átti satt best að segja í vandræðum með að trúa sjálfum mér. Ég hafði ekki enn komið auga á nágranna mína. Það eina sem ég hafði fyrir mér voru orð leigusalans.

„Áhugavert,“ sagði Katla og horfði út um svaladyrnar. „Veröndin þeirra er þó tilvalin fyrir grillveislur. Það væri synd ef þeir notuðu hana ekki.“

Við þögðum um stund og horfðum yfir verönd munkanna. Ég reyndi að ímynda mér hvernig hún myndi líta út ef munkarnir héldu grillveislu. Það var heldur súrrealísk mynd. Þar sem ég minntist þess ekki að hafa nokkurn tímann séð munk í mínu lifanda lífi þá ímyndaði ég mér hóp þéttvaxinna og sköllóttra karla í brúnum þungum kuflum, drekkandi bjór úr eins lítra flöskum og grillandi sveitta hamborgara. Allt myndmálið í þeirri ímyndun var fengið að láni úr Simpsons þætti.

„Kaffi?“ spurði ég og reyndi að hrista myndina af munkunum úr huga mér.

„Endilega,“ svaraði Katla og kom sér þægilega fyrir á sófanum.

Ég tölti inn í eldhúsið til þess að hella upp á könnuna. Ég heyrði Kötlu yfirgefa sófann og ganga um stofugólfið. Ég ímyndaði mér að hún væri að virða fyrir sér útsýnið.

„Klæðast spánskir munkar vanalega kvenmannsfötum?“ heyrðist mér Katla kalla innan úr stofunni.

„Ha?“ hváði ég á móti til þess að fullvissa mig um að ég hefði heyrt rétt.

„Klæðast spánskir munkar vanalega kvenmannsfötum?“

Ég lyfti brúnum. Ég hafði að öllum líkindum heyrt rétt í fyrra skiptið.

„Ég veit það ekki,“ svaraði ég um leið og ég rétti Kötlu kaffibolla og horfði með henni yfir verönd munkanna. „Ég held ég hafi aldrei séð spánskan munk.“

Við sötruðum kaffið og dáðumst að útsýninu. Verönd munkanna var að hluta til hulin þaki úr glæru plasti. Undir þakinu voru íbúar klaustursins í óða önn við að hengja út þvott.

„Þú skilur væntalega hvers vegna ég spurði?“ spurði Katla.

„Já, ég skil,“ svaraði ég.

Ég skildi mætavel hvers vegna hún hafði spurt. Á þessari stundu spurði ég mig nákvæmlega þessarar sömu spurningar. Undan þaki verandar munkanna gat ég séð í neðsta þriðjunginn af líkömum nágranna minna. Ég gat séð brúnu inniskóna. Ég sá í bera ökklana og neðri hluta kálfanna. Ég sá neðri hluta dökkbláu pilsanna og ljósbláu svunturnar. Klæðaburðurinn var heldur frábrugðinn brúnu þungu kuflunum sem ég hafði ímyndað mér fyrir nokkrum mínútum.

„Þessir munkar þínir virðast vera í undarlega góðum tengslum við kvenlegu hlið sína,“ benti Katla á, eftir að við höfðum staðið um stund og virt fyrir okkur nágrannana. „Kannski að þetta sé söfnuður klæðskiptingamunka.“

„Hver erum við til að dæma þá?“ spurði ég spekingslega. „Þeir svara einungis til guðs en ekki til yfirborðskenndra tískustrauma sem mótaðir eru af okkar nútímasamfélagi. Ef þeir vilja ganga í kvenmannsfötum þá er það einungis á milli þeirra og guðs. Ef guð er samþykkur þá er ekkert athugavert við þetta.“

„Þú hefur lög að mæla,“ svaraði Katla og setti upp jafnvel spekingslegri svip en ég hafði gert. „Við ættum ekki að blindast af afturhaldsömum staðalmyndum um klæðaburð kynjanna. Ef þessir munkar vilja klæðast pilsum þá er það ekkert nema þeirra mál.“

Ánægð með spekingsleg ummæli okkar um viðhorf nútímans færðum við okkur frá glugganum og komum okkur þægilega fyrir á sófanum.

„Fyrir forvitnis sakir,“ sagði Katla eftir að við höfðum setið þögul um stund og sötrað kaffið. „Fyrst þú hafðir aldrei séð nágranna þína fyrr en í dag, hvernig vissir þú að þeir væru munkar?“

„Leigusalinn sagði mér það.“

Katla virtist hugsi og trommaði létt með vísifingri á hökuna eins og til þess að undirstrika það hversu djúp hugsun hennar var.

„Hvað sagði hann nákvæmlega?“

„Ég man ekki hvað hann sagði nákvæmlega,“ svaraði ég um leið og ég reyndi að muna hvað hann hafði sagt nákvæmlega. „Hann minntist allavegana á munka eitthvað.“

Við sátum þögul um stund. Ég gat lesið úr andliti Kötlu að það voru háleitar hugsanir sem flugu um huga hennar.

„Áttu spænska orðabók?“ spurði hún.

„Já, vitanlega,“ svaraði ég og nældi í spænsk-enska/ensk-spænska orðabók úr bókaskápnum. „Hvað ertu að spá?“

„Veist þú hvernig maður segir nunna á spænsku?“ spurði Katla um leið og hún fletti orðabókinni.

„Nei,“ svaraði ég og brosti. „Þó að ótrúlegt megi virðast þá hefur það orð ekki laumast inn í orðaforða minn í mínu hversdagslega spænskunámi.“

Katla hætti flettingunni og setti fingurinn á blaðsíðu í seinni hluta bókarinnar.

„Áhugavert! Sko, samkvæmt þessari orðabók þinni þá er „monja“ spænska orðið fyrir nunnu.“

Þetta var áhugaverð uppgötvun. Eftir á að hyggja var hún ekki beint óvænt. Hún skýrði talsvert.

„Þú ert þá kannski að gefa í skyn að nágrannar mínir séu í raun nunnur en ekki munkar?“

„Ég meina, sorry. Mér þykir leitt að eyðileggja fyrir þér hugmyndina um að búa í næsta húsi við klæðskiptingamunka,“ svaraði Katla og brosti. „En nei, ég meina já, Það er ekki loku fyrir það skotið að nágrannar þínir séu í raun nunnur.“

„Hmm,“ sagði ég íhugull. „En allavegana þá breytir það ekki upprunalegu staðhæfingu minni um að ég eigi ekki von á því að nágrannar mínir handan götunnar valdi mér ama með háværum veislum.“

Smásagan Nágrannarnir er hluti af smásagnasafninu 999 Erlendis.