Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Filipus gekk niður tröppurnar og inn á miðeyju Glòries-lestarstöðvarinnar. Þetta var snemma kvölds og brautarpallurinn var ekki þéttsetinn. Það var því auðvelt fyrir hann að færa sig yfir á fjærenda pallsins, sem hann einhverra hluta vegna kaus ávallt umfram nærendann. Hann hafði ekki hugmynd um það hvers vegna hann kaus þetta fyrirkomulag. Það var ekki eins og hann hefði ákveðið þetta hátterni eftir vel ígrundaða röksemdafærslu. Hann var einfaldlega vanur að ganga eftir endilöngum brautarpallinum án einhverrar sérstakrar ástæðu. Hugsanlega var það vegna þess að allt frá unga aldri hafði hann þurft að hugsa um stöðu sína gagnvart fólkinu í kringum hann. Hver var hans staða á móðurlausu heimilinu í sveitinni í Cornwall? Hver var hans staða á heimili móðurfjölskyldunnar í Valencia?—þar sem móðirin var raunar mestmegnis fjarverandi. Hugsanlega var það þess vegna sem hann kaus að taka sér ákveðna stöðu gagnvart öðru fólki sem beið á brautarpallinum. Það var í hans eðli að taka sér stöðu gagnvart fólkinu í kringum hann.

Ókláraðar sögur - Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson
Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

Filipus strauk burt svitaperlur sem sprottið höfðu fram á enni hans við að ganga inn í óloftkælda lestarstöðina. Lestarnar í Barselóna voru oftast vel kældar á sumrin en brautarpallarnir þeim mun heitari. Filipus nældi sér í bók úr bakpokanum og leit á upplýsingaskiltið. Næsta lest var væntanleg eftir fjörutíu sekúndur. Það tæki því ekki að opna bókina á meðan hann beið. Biðin yrði of stutt til þess að taka upp þráðinn við sögupersónurnar áður en hann þyrfti að gera hlé á lestrinum til þess að stíga upp í lestina.

„Vissir þú að kvenkyns mörgæsir skilja eggin eftir í vörslu karldýranna á meðan þær leita sér sjálfar ætis?“ spurði hávaxin, dökkhærð kona sem stóð við hlið Filipusar. Hún geislaði af viðskiptaframa, klædd í netta dragt og með nýmóðins skjalatösku slengda yfir öxlina.

„Hvernig veistu það?“ spurði lágvaxin, ljóshærð kona á móti. Hún var með pinna í augabrúnunum, klædd í gallabuxur og stuttermabol með snjáðan bakpoka á bakinu. Húðflúraður snákur gægðist upp um hálsmálið og leit út fyrir að vera að klifra upp hnakkann að aftanverðu.

„Sá það í heimildarmynd,“ hélt hávaxna konan fram og leit á glansandi armbandsúrið sitt sem leit út fyrir að hafa kostað skildinginn.

„En það nær ekki nokkurri átt. Væri ekki miklu einfaldara að senda bara gaurinn til að leita að æti Suðurheimskautsheimsending. Eða eitthvað?“

„Nei, það er gamaldags. Við erum að tala um sjálfstæðisyfirlýsingu. Stelpustyrkur.“

Konurnar tvær gátu varla verið ólíkari hvor annarri og Filipus velti því fyrir sér hvert samband þeirra væri. Ef hann tæki mið af stund og stað, þá hefði hann giskað á að þær væru samstarfsfélagar, en miðað við það hversu ólíkur útgangurinn var þá gæti hann ímyndað sér að þær væru vinkonur—eða elskhugar.

Filipus náði ekki að fylgja eftir samtali kvennanna í gegnum hávaðann frá lestinni, sem sniglaðist út úr undirgöngunum og meðfram brautarpallinum, sendandi ískurshljóð út í tómið þar sem bremsurnar gripu um hjólin.

* * *

Filipus hallaði sér upp að hurð neðanjarðarlestarinnar og opnaði bókina. Ferðafélagi hans þessa dagana var smásagnasafn eftir W. Somerset Maugham—bók sem hann hafði rekist á fyrir nokkrum dögum í verslun sem sérhæfði sig í notuðum, enskum bókum. Þegar lestin tók af stað, stakk hann sér á bólakaf í söguna sem hann hafði verið að lesa á leiðinni í vinnuna.

… Á þilfarinu gekk frú Hamlyn fram á Pryce …

Hver var aftur frú Hamlyn? Og Pryce? Hvað voru þau að gera um borð í skipinu? Filipus gat ekki með nokkru móti munað það. Ferðalag hans til og frá vinnu var ekki langt, og þar að auki brotið upp í enn styttri þætti við það að þurfa að rölta á milli lestarpalla til að skipta úr einni lest í aðra. Ferðalagið einkenndist því oft af ókláruðum sögum og það tók hann jafnan talsverðan tíma að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið frá síðasta ferðalagi. Hann fletti nokkrar síður til baka og leit yfir textann til þess að endurnýja kynni sín af frú Hamlyn og Pryce. Smám saman rifjuðust leikendur, gerendur, stund og staður upp fyrir Filipusi og hann gat haldið lestrinum áfram.

Hann hafði varla lokið við fyrstu málsgreinina áður en einbeitingin hvarf út í veður og vind við að sími tók að hringja. Filipus sperrti eyrun, eins og hundur sem heyrir þrusk úr fjarlægð. Þetta var ekki hans sími og hann reyndi að beina athyglinni aftur að sögunni. Síminn hélt hins vegar áfram að hljóma. Filipus gat ekki með nokkru móti einbeitt sér að lestrinum og leit upp.

Í sætaröðinni, ská á móti þeim stað þar sem hann stóð, sat ung kona sem hélt á síma í annarri hönd og starði á skjáinn. Síminn hringdi. Konan starði. „Hættu að hringja!“ mátti lesa hátt og snjallt úr andliti hennar. Hún virtist lömuð af hræðslu—stjörf af ótta við að svara hringingunni. Hún bara sat og starði á meðan síminn hringdi. Hvers vegna svaraði hún ekki? Var hún að fela sig fyrir einhverjum? Eiginmanninum? Móðurinni? Yfirmanninum? Yfirvöldunum?

Seint og um síðir hætti síminn að hringja og kyrrð færðist á ný yfir vagninn. Unga konan lagði símann frá sér í skaut sér, lokaði augunum, hallaði sér aftur á bak og lét höfuðið hvíla á glugganum. Hún andaði djúpt. Henni var létt. Filipus andaði djúpt. Honum var létt, og hann sneri athyglinni aftur að W. Somerset Maugham, frú Hamlyn og Pryce.

„Henni er illa við hunda!“ sagði hvorki frú Hamlyn né Pryce þar sem þau mættust á þilfarinu, heldur ungur maður sem hafði stigið inn í lestina á Arc de Triomf stöðinni.

„Virkilega?“ spurði félagi unga mannsins. „Hvernig veistu?“

„Ég spurði hana. Bara svona blákalt.“

„Frábærar fréttir, maður! Þú heldur að það sé þá framtíð í þessu?“

„Veit ekki. Of snemmt að segja. En það er von. Ég meina, með hundaspursmálið afgreitt og allt það.“

Mennirnir tveir færðu sig yfir í sæti sem höfðu losnað og Filipus sneri sér enn og aftur að frú Hamlyn og Pryce. Loksins gat hann mjakast áfram í sögunni án þessa að verða fyrir truflun.

* * *

Þegar lestin rann inn á Uniquinanona-lestarstöðina, pakkaði Filipus W. Somerset Maugham niður í bakpokann og steig út á brautarpallinn. Hann skildi við ferðafélaga sína og þeirra ókláruðu sögur. Það var kominn tími til að skipta um sögusvið og halda í átt að næsta brautarpalli. Í átt til nýrra ferðafélaga með þeirra ókláruðu sögur. Hann með sínar ókláruðu sögur.

Smásagan Ókláraðar sögur er hluti af smásagnasafninu Talaðu við ókunnuga.