Ókláraðar sögur


Ljósmynd Börkur Sigurbjörnsson

Ég hallaði mér upp að dyrum neðanjarðarlestarinnar og byrjaði að lesa. Ferðafélagi minn þess dagana var smásagnasafn eftir W. Somerset Maugham. Ég sökkti mér í söguna sem ég hafði byrjað að lesa á leiðinni í vinnuna en hafði ekki haft tíma til þess að klára. Þar sem ferðalagið milli heimilis og vinnu var frekar stutt einkenndist það af ókláruðum sögum.

Ég hafði ekki lesið lengi þegar einbeitingin hvarf. Sími hringdi. Ég sperrti eyrun. Þetta var ekki minn sími. Ég hélt því áfram lestrinum. Síminn hringdi enn. Ég náði ekki að einbeita mér. Ég leit upp og reyndi að átta mig á því hvaðan hringingin kom.

Ung kona sat á bekk skammt frá mér og starði á símann sinn. Síminn hringdi. Konan starði. Ég gat lesið úr andliti konunnar hvað hún hugsaði. ,,Hættu að hringja!'', hugsaði hún. Hún virtist hrædd. Hrædd við að svara.

Síminn þagnaði. Konunni virtist létt. Hún lagði símann í kjöltu sér, lokaði augunum og hallaði höfðinu aftur þangað til það nam við lestargluggann. Hún dró andann djúpt. Henni var greinilega létt.

Ég velti því fyrir mér hvað það gæti verið sem fengi konuna til þess að svara ekki í símann. Var hún að forðast eiginmanninn? Yfirmanninn? Yfirvöldin? Æðri máttarvöldin? Það kom mér þó ekkert við. Saga hennar var mér óviðkomandi. Ég ákvað því að snúa mér aftur að sögu Somerset Maugham.

Ég hafði vart lokið við að lesa eina málsgrein þegar síminn hringdi á ný. Ég leit upp. Konan reisti höfuðið, opnaði augun, tók símann úr kjöltu sér og starði. Sagan endurtók sig nákvæmlega eins og í fyrra skiptið. Hún sat og starði á símann. Ég stóð og starði á hana.

Ég velti því á ný fyrir mér hvað það gæti verið sem angraði hana. Hver var hennar saga? Ég fékk hins vegar engan botn í þá hugsun. Lestin renndi inn á Urquinaona lestarstöðina. Ég pakkaði Somerset Maugham og hans ókláruðu sögum niður í bakpokann og steig út á lestarpallinn.

Ég sagði skilið við ungu konuna og hennar ókláruðu sögu. Það var kominn tími til þess að skipta um sögusvið. Ég hélt í áttina að næsta brautarpalli. Ég hélt á vit nýrra ferðafélaga. Nýrra ferðafélaga með sínar ókláruðu sögur. Ég með mínar ókláruðu sögur.