Urban Volcano

Skáldskapur Barkar Sigurbjörnssonar

Örsögur

Orkuskipti

Orkuskipti — Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson
Myndskreyting Börkur Sigurbjörnsson

Ég gekk út úr skrifstofubyggingunni eftir daglanga fundasetu. Ég var andlega úrvinda en fann hjá mér þörf fyrir líkamlega áreynslu. Ég þurfti að losa um stöðuorkuna sem hafði byggst upp í líkamanum yfir daginn og umbreyta henni yfir í andlega orku.

Í stað þess að halda til næstu lestarstöðvar til þess að taka fyrstu lest heim þá ákvað ég að ganga til þar-þar-næstu lestarstöðvar.

Ég gekk í gegnum almenningsgarðinn handan götunnar frá skrifstofunni og fann ferskan andvarann hreinsa lungun af stöðnuðu fundaherbergisloftinu. Ég naut þess að horfa á íkornana hlaupa og hlusta á fuglana tísta. Þegar ég gekk út á strætið handan garðsins, þá slaknaði á axlavöðvunum, ég rétti úr bakinu, lyfti upp hökunni og virti umhverfið fyrir mér af gjörhygli.

Eftir að hafa litið einu sinni yfir sviðið fékk ég hnút í magann. Hugurinn stökk til hryðjuverkaárásanna frá síðustu viku. Heilinn fór á flug. Var mér óhætt að vera úti á götu? Var ég að gera vitleysu? Var heimskulegt af mér að taka slíka ónauðsynlega áhættu? Var það brjálæði að gera mig sjálfviljandi berskjaldaðan fyrir hryðjuverkamönnum, flutningabílum þeirra, hnífum og sprengjum?

Ég fann vöðvana stífna, hjartað slá hraðar og andadráttinn grynnast. Ég vantreysti fólki með bakpoka. Ég var á varðbergi gagnvart hvítum sendibílum. Ég hræddist það að ganga yfir götu. Ég skipti gjörhyglinni út fyrir ofsóknaræði. Ég snéri við og gekk eins hratt og fæturnir gátu borið mig til næstu lestarstöðvar.

Börkur er áhugasamur sögumaður með næmt auga fyrir sérstökum sögupersónum, fyndnum samtölum og lifandi umhverfislýsingum. Skrif Barkar flokkast að mestu leyti undir raunsæisstefnu og sögurnar hans eru oftar en ekki byggðar á sönnum atvikum í lífi höfundarins. Þó sögurnar innihaldi fjölmörg sannleikskorn þá eru þau rækilega blönduð skáldskap sem vekur upp forvitni lesandans um það hvar mörkin liggi milli raunveruleika og skáldskapar.

https://www.borkur.net/