Fyrirlesturinn var svakalega leiðinlegur svo ég hafði ofan af fyrir mér með því að rissa. Ég naut þess að teikna alls konar mynstur, dýr, tré og fólk. Ég leit á sjálfan mig sem listamann jafnvel þótt ég hefði ekki lifibrauð af verkum mínum.
Heimurinn var hins vegar á öðru máli — fjandsamlegur í garð sköpunarverka minna. Þetta er ekki list, sagði hann. Þetta eru skemmdarverk, sagði heimurinn, eins og form mín væru móðgun við mannkynið.
„Sæll nú!“ hrópaði allt í einu maðurinn sem sat fyrir framan mig í ráðstefnusalnum. „Þú ert að krota á jakkann minn!“
Nákvæmlega það sem ég var að segja. Heimurinn hefur engan skilning á listsköpun.